Hoppa yfir valmynd
15. október 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna í kynningu

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur fram til kynningar að nýju drög að frumvarpi til breytinga á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu lúta að gjaldtökuheimildum fráveitna sveitarfélaga.

Meginmarkmið frumvarpsins er að skýra og treysta grundvöll álagningar fráveitugjalds sem fráveitur sveitarfélaga innheimta fyrir þá almannaþjónustu sem þær veita. Frumvarpinu er enn fremur ætlað að skýra og styrkja gjaldtökuheimildir, réttindi og skyldur fráveitna gagnvart viðskiptavinum þeirra.

Mikilvægt er að almennar og hlutlægar reglur gildi um innheimtu fráveitugjalds. Í frumvarpinu er kveðið skýrt á um að heimilt verði að heimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengjast fráveitu sveitarfélags og þar sem tenging er fyrir hendi við mörk fasteignar. Lagt er til að sett verði ákvæði um hámarksgjald sem er tiltekið hlutfall af heildarfasteignarmati þegar matsverð fasteignar liggur ekki fyrir, en tenging er fyrir hendi.

Í frumvarpinu er gengið út frá því að þegar fráveitufyrirtæki hefur lokið skyldum sínum varðandi tengingu fasteignar sé heimilt að hefja innheimtu fráveitugjalds. Skýrð er heimild fráveitufyrirtækja til innheimtu fráveitugjalds af öllum mannvirkjum innan fasteignar sem frá kemur skólp sem fer í fráveitu.

Frumvarpsdrögin eru unnin af vinnuhópi sem samanstóð af fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samorku og Orkuveitu Reykjavíkur. Þá eru frumvarpsdrögin yfirfarin með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar hafa verið til lagasetningar og skilyrða um þjónustugjöld. Samhliða hefur verið unnið að drögum að frumvarpi til sambærilegra breytinga á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga sem innanríkisráðherra hyggst leggja fram á Alþingi.

Athugasemdir og ábendingar um frumvarpið skulu sendar á netfangið [email protected] eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, eigi síðar en 30. október nk.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009 (gjaldtökuheimildir, réttindi og skyldur fráveitna).

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum