Hoppa yfir valmynd
22. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi sem fjallar um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri

Skurðaðgerð
Skurðaðgerð

Sjúkratryggðum verður gert kleift að sækja heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins og endurgreiðsla kostnaðar vegna þess heimiluð að því marki sem sjúkratryggingar greiða fyrir sambærilega þjónustu hér á landi samkvæmt frumvarpi sem heilbrigðisráðherra mælti fyrir í vikunni.

Frumvarpið sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra mælti fyrir 20. október sl. felur í sér breytingu á lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008 og á lyfjalögum nr. 93/1994. Megintilgangur þess er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 9. mars 2011 um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 20. desember 2012 um ráðstafanir til að auðvelda viðurkenningu á lyfseðlum sem gefnir eru út í öðrum aðildarríkjum.

Í frumvarpinu er kveðið á um rétt sjúkratryggðra til að velja að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þeim tilvikum er Sjúkratryggingum Íslands gert að endurgreiða kostnað eins og um heilbrigðisþjónustu innan lands væri að ræða, að því gefnu að greitt sé fyrir sams konar þjónustu hér á landi. Áhersla er lögð á að jafnræði ríki í meðhöndlun sjúklinga og að þjónustan sé veitt út frá þörf þeirra fyrir heilbrigðisþjónustu fremur en á grundvelli þess í hvaða ríki þeir eru tryggðir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum