Hoppa yfir valmynd
22. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um staðgöngumæðrun

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra mælti í vikunni fyrir frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Frumvarpið samdi starfshópur sem skipaður var í september árið 2012 í samræmi við ályktun Alþingis frá 18. janúar sama ár.

Í ályktun Alþingis var þáverandi velferðarráðherra falið að skipa starfshóp til að undirbúa frumvarp til laga sem heimilaði staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga.

Við undirbúning frumvarpsins leitaðist starfshópurinn við að raungera markmið Alþingis eins og þau birtast í þingsályktuninni, ásamt því að fella viðfangsefnið sem best að íslensku lagaumhverfi. Eins og fram kemur í framsöguræðu heilbrigðisráðherra voru drög að frumvarpinu voru kynnt á fundum með hagsmunaaðilum og fyrir velferðarnefnd Alþingis. Að beiðni heilbrigðisráðherra var einnig staðið fyrir opnu umsagnarferli um drögin í lok árs 2014 og loks var flutt munnleg skýrsla um málið á Alþingi í janúar á síðasta ári.

Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri framkvæmd staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni til að tryggja hag og réttindi barns sem fæðist eftir staðgöngumæðrun, rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og farsæla aðkomu væntanlegra foreldra.

Samkvæmt frumvarpinu mun sérstök nefnd veita leyfi til staðgöngumæðrunar. Í frumvarpinu eru sett skilyrði sem staðgöngumóðir þarf að uppfylla og kveðið á um skilyrði fyrir væntanlega foreldra. Óheimilt verður að nota kynfrumur staðgöngumóður og skylt verður að nota kynfrumu frá að minnsta kosti öðru væntanlegra foreldra. Barni er tryggður réttur til að þekkja uppruna sinn. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum