Hoppa yfir valmynd
23. október 2015 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun um annan loðnuleiðangur Hafrannsóknastofnunar í haust


Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hefur ákveðið í samráði við Hafrannsóknastofnun að farið verði í annan loðnuleiðangur í nóvember til að freista þess að ná betri mælingu á loðnustofninum en var reyndin í hinum hefðbundna haustleiðangri sem skilaði því miður alltof litlum árangri mælt í ráðgjöf fyrir vetrarvertíð.

Eftir sem áður er gert ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun fari í hefðundna loðnuleit í janúar og febrúar. Árangur slíkrar leitar veltur hins vegar mjög á aðstæðum og hegðun loðnunnar. Stofnunin hefur aðeins yfir 2 skipum að ráða og veðurfar oft rysjótt á þessum árstíma sem sett getur strik í reikninginn. Mjög mikils virði í þessu samhengi er að íslenskar útgerðir hafi aflaheimildir í upphafi vertíðar en þá aukast til muna líkur á því með fjölda skipa að finna loðnuna en hegðun hennar hefur verið býsna óútreiknanleg hin síðari ár.

Vegna  aðhalds og góðs rekstrar verður mögulegt að fjármagna þennan leiðangur af rekstrarfé Hafrannsóknastofnunar. Jafnframt ber að fagna að Grænland, sem heldur á næst stæsta hlutinum í loðnustofninum, hefur ákveðið að láta í fyrsta sinn fé af hendi rakna til loðnurannsókna, sem hjálpar mikið til við að gera þennan viðbótar leiðangur mögulegan.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum