Hoppa yfir valmynd
28. október 2015 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra tekur þátt í störfum Norðurlandaráðsþings og ráðherrafundum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra heldur ræðu á Norðurlandaráðsþingi - mynd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók í gær og í dag þátt í störfum Norðurlandaráðsþings, sem sett var í gær í Hörpu. Flutti ráðherra meðal annars ræðu um norrænt samstarf og tók þátt í þingumræðum.

Í dag funduðu forsætisráðherrar Norðurlandanna þar sem m.a. voru til umræðu loftslagsmál og þá sérstaklega loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í París eftir nokkrar vikur. Þá var rætt um fólksflutninga og flóttamannavandann ásamt stöðu mála í Sýrlandi og Írak en einng um baráttuna gegn ISIL og hryðjuverkum.

Forsætisráðherrar Norðurlandanna funduðu einnig með leiðtogum Grænlands, Færeyja og Álandseyja og leiddi forsætisráðherra umræðu um áhrif loftslagsbreytinga á Norðurslóðum. Fjallað var um formennskuáætlun Finnlands í samstarfi Norðurlandanna á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2016, stjórnsýsluhindranir og norrænar lausnir í hnattrænum áskorunum.

Þá funduðu forsætisráðherrar Norðurlanda með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og fjölluðu m.a. um flóttamannavandann og um samstarf Norðurlanda á sviði þróunarsamvinnu.

Að síðustu funduðu forsætisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna þar sem tekin voru fyrir brýn alþjóðamál, m.a. staða mála í Írak, Sýrlandi og Úkraínu en einnig málefni innan Evrópu eins og þróun efnahagsmála og þær endurbætur sem fyrirhugaðar eru á Efnahags- og myntbandalaginu, svo og netöryggismál.

Frá funduði forsætisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum