Hoppa yfir valmynd
28. október 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Norrænmenningarverkefni utan Norðurlanda endurvakin

Á fundi ráðherra menningarmála á Norðurlöndum var ákveðið að halda stóra norræna menningarhátíð í London árið 2017

Fundur ráðherra menningarmála á Norðurlöndum var haldinn í morgun og einnig var haldinn fundur ráðherranna með menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs. Þing Norðurlandaráðs stendur nú yfir í Hörpu og lýkur á morgun.

Á fundi menningarmálaráðherranna í morgun var eitt helsta umræðuefnið tillaga um að endurvekja sameiginlegar norrænar menningarkynningar / -hátíðir utan Norðurlandanna. Verkefni af því tagi hófust með Scandinavia Today í Bandaríkjunum árið 1982 og fram til 2006 stóðu Norðurlöndin fyrir fjölmörgum hátíðum og samstarfsverkefnum víða um heim til að kynna norrænar listir og menningu, og til að efla menningarsamstarf við aðrar þjóðir. Þráðurinn var svo tekinn upp að nýju árið 2013 með Nordic Cool í Washington í Bandaríkjunum. Síðan þá hefur verið unnið að mótun tillagna um sameiginleg verkefni og aukið samstarf Norðurlandaþjóðanna á þessu sviði.

Ráðherrarnir ákváðu á fundinum í morgun að efna til samstarfs við Southbank menningarmiðstöðina í London um viðamikla norræna menningarhátíð árið 2017 undir heitinu „Play and Creativity“ (vinnuheiti enn sem komið er). Þá var einnig ákveðin skipan vinnuhóps til að stjórna verkefninu í London og að stefnt skuli að því að efna til sameiginlegra norrænna menningarverkefna erlendis í framtíðinni. Einnig var ákveðið að verja fé til menningarrannsókna, tölfræði o.þh. og aðgerða til að virkja ungt fólk og almenna borgara, og efla þátttöku þeirra, í norrænu menningarsamstarfi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum