Hoppa yfir valmynd
29. október 2015 Dómsmálaráðuneytið

Drög að breyttum þinglýsingarlögum til umsagnar

Drög að frumvarpi til breytinga á lögum um þinglýsingar eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu og miða breytingarnar að því að unnt verði að taka upp rafrænar þinglýsingar. Unnt er að senda ráðuneytinu athugasemdir til og með 12. nóvember næstkomandi og skulu þær sendar á netfangið [email protected].

Frumvarpsdrögin eru unnin af vinnuhóp sem innanríkisráðherra skipaði til að fara yfir reglur um þinglýsingar svo þær megi verða rafrænar. Með frumvarpinu er lagður grundvöllur að rafrænum þinglýsingum skjala.

Helstu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

  • Kveðið verði á um með reglugerð hvaða skjölum verði unnt að þinglýsa rafrænt og byrjað á veðskjölum og skjölum sem þeim tengjast þ.e. skilmálabreytingum, kröfuhafaskiptum, veðbandslausnum, veðflutningum, veðleyfum og umboðum. Aðrar þinglýsingar verði á grundvelli pappírsskjala.
  • Rafrænar þinglýsingar verði hjá einu sýslumannsembætti en þinglýsingar á grundvelli pappírsskjala verði hjá öllum sýslumannsembættum.
  • Með rafrænum þinglýsingum verði hætt að þinglýsa skjali í heild sinni en í stað þess verði réttindum þinglýst.
  • Rafrænar þinglýsingar fái forgang fram yfir þinglýsingar á pappírsskjölum og að afnuminn verði forgangur aðfarargerða og kyrrsetningargerða gagnvart öðrum skjölum.

Í athugasemdum með frumvarpsdrögunum segir að breyting þinglýsinga í rafrænt og sjálfvirkt ferli sé tæknilega flókin. ,,Breyta þarf formlegu og þunglamalegu kerfi yfir í hraðvirka og notendavæna rafræna þjónustu þó þannig að það glati ekki eðliseinkennum sínum og trausti,“ segir meðal annars og að talið sé að rafrænar þinglýsingar feli ekki í sér aukna áhættu á misferli miðað við núverandi fyrirkomulag enda séu gerðar ítrustu kröfur til öryggis. Gert er ráð fyrir að breytingarnar geti tekið gildi 1. janúar 2016.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum