Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Hvatti til gagnsæis og góðra viðskiptahátta gegn erlendum mútubrotum

Drago Kos hélt erindi á fundi um mútubrot. - mynd
Formaður vinnuhóps OECD um mútur í alþjóðlegum viðskiptum, Drago Kos, ræddi um erlend mútubrot og skuldbindingar Íslands í málaflokknum í málstofu sem fram fór í Þjóðminjasafninu í gær á vegum innanríkisráðuneytisins. Vinnuhópurinn sem Drago Kos stýrir fylgir eftir innleiðingu alþjóðlegs sáttmála á þessu sviði gagnvart Íslandi og 40 öðrum ríkjum.

Markmið sáttmálans er að aðildarríkin geri það refsivert að bera mútur á erlenda opinbera starfsmenn og fylgi því eftir með fullnægjandi hætti. Málstofuna sóttu kringum 50 manns en til hennar var boðið fulltrúum atvinnulífs og stjórnvalda. Auk erindis Drago Kos var efnt til pallborðsumræðu um efnið.

Drago Kos hvatti íslensk stjórnvöld til að láta ekki deigan síga í að uppfylla tilmæli vinnuhópsins og sagði hann að þegar hefðu margvísleg skref verið stigin í rétta átt. Kos lagði einnig áherslu á samstarf við atvinnulífið til að efla enn frekar gagnsæi og góða viðskiptahætti. Þá fjallaði hann almennt um mútur í alþjóðlegum viðskiptum og starf vinnuhóps OECD sem framfylgir alþjóðlegum samningi á því sviði. Í pallborðsumræðunum kom fram að menn voru sammála um að aukið upplýsingaflæði og samstarf væri af hinu góða.

 

Frá fundi um mútubrot sem haldinn var á vegum inanríkisráðuneytisins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira