Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Borgarholtsskóli hlýtur Gulleplið

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra veitti Borgarholtsskóla Gulleplið – viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf á sviði heilsueflandi framhaldsskóla

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra veitti Borgarholtsskóla Gulleplið – viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf á sviði heilsueflandi framhaldsskóla, á ráðstefnu sem haldin er í dag um þau málefni í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.

Valið fer þannig fram að skólar, sem sækjast eftir viðurkenningu, senda umsókn til dómnefndar á vegum landlæknisembættisins. Með umsókninni sendir skólinn stuttan rökstuðning fyrir því að hann eigi skilið að fá viðurkenningu fyrir tiltekið skólaár.

Í ár bárust umsóknir frá fimm framhaldsskólum um viðurkenninguna fyrir síðastliðið skólaár. Dómnefnd á vegum landlæknisembættisins fór yfir umsóknirnar og ákvað að Borgarholtsskóli hlyti viðurkenninguna að þessi sinni. Bryndís Sigurjónsdóttir skólameistari tók við viðurkenningunni fyrir hönd skólans. Þetta er í fimmta sinn sem Gulleplið er afhent, en áður hafa Flensborgarskólinn, Verzlunarskóli Íslands, FVA og FSu fengið þessa viðurkenningu.

Markmiðið með verkefninu heilsueflandi framhaldsskólar er að stuðla markvisst að velferð og góðri heilsu framhaldsskólanemenda. Enda hafa rannsóknir sýnt að heilsueflandi umhverfi bætir líðan nemenda og stuðlar að betri námsárangri. Verkefnið snýr að heildrænni stefnu í forvarna- og heilsueflingarmálum sem gerir framhaldsskólum kleift að marka sér skýra stefnu, skerpa á aðgerðaráætlunum og forvörnum og jafnframt mynda á hagnýtan hátt skýran ramma utan um þennan almenna málaflokk.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum