Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Fyrsta skóflustunga að sjúkrahóteli Nýs Landspítala

Heilbrigðisráðherra tekur fyrstu skóflustunguna að nýju sjúkrahóteli
Heilbrigðisráðherra tekur fyrstu skóflustunguna að nýju sjúkrahóteli í nóvember 2015

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra tók í dag fyrstu skóflustunguna að byggingu nýs sjúkrahótels Nýs Landspítala sem og undirritaði verksamning við byggingafyrirtækið sem annast mun framkvæmdina. Þar með sagði hann verklegar framkvæmdir við uppbyggingu þjóðarsjúkrahúss hafnar. Samningurinn sem undirritaður var er milli Nýs Landspítala ohf. og LNS Saga ehf. átti lægsta tilboðið þegar verkið var boðið út í september sl.

Fjöldi fólks fylgdist með ráðherra taka fyrstu skóflustunguna þar sem sjúkrahótelið mun rísa á norðurhluta lóðar Landspítala milli kvennadeildar, K-byggingar og Barónstígs. Meðal viðstaddra voru fyrrverandi heilbrigðisráðherrar, starfsfólk Landspítala, velunnarar sjúkrahússins og áhugafólk um uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut. Nemendur frá heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands vottuðu samninginn sem heilbrigðisráðherra undirritaði ásamt Ásgeiri Loftssyni, framkvæmdastjóra LNS Saga ehf. fyrir hönd fyrirtækisins.

Sjúkrahótelið er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Landspítala (NLSH) við Hringbraut. Í því verða 75 herbergi og með tilkomu þess breytist aðstaða fyrir sjúklinga og aðstandendur mikið til batnaðar.

„Þetta er ánægjulegur dagur sem markar ákveðin tímamót“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra þegar hann tók fyrstu skóflustunguna að hótelinu: „Nýtt sjúkrahótel mun bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra strax og það er risið. Mestu skiptir þó sú staðreynd að með þessum fyrsta áfanga eru verklegar framkvæmdir við uppbyggingu þjóðarsjúkrahúss hafnar." 

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala sagði daginn marka upphaf uppbyggingar nýs Landspítala: „Mikilvægum áföngum er náð; bæði með byggingu sjúkrahótelsins og með vinnu við fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans sem verður hjartað í starfsemi nýs spítala. Við sjáum því árangur þrotlausrar vinnu síðustu ára og getum farið að horfa til framtíðar. Nýtt og betra þjóðarsjúkrahús er hagsmuna- og öryggismál okkar allra."

Kristján Þór Júlíusson og Ásgeir LoftssonÁsgeir Loftsson framkvæmdastjóri byggingafyrirtækisins LNS Saga sagðist þakklátur fyrir það traust sem fyrirtækinu væri sýnt og að verkefnið falli vel að þekkingu og reynslu fyrirtækisins og starfsmanna þess: „...við munum gera okkar ýtrasta til að það uppfylli væntingar verkkaupa og í góðri sátt við nágranna“.

Framkvæmdir munu hefjast fljótlega á lóð Landspítala. Í fyrstu er um að ræða gerð bráðabirgðabílastæða á svæðinu sunnan við aðalbyggingu Landspítala sem koma í stað annarra stæða sem verður lokað tímabundið þegar framkvæmdir hefjast við byggingu sjúkrahótelsins. Þessari framkvæmd verður lokið um miðjan desember.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum