Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ráðstefna um gæði í lykilþáttum háskólastarfs

Ráðstefna Gæðaráðs íslenskra háskóla markaði lok fyrstu umferðar rammaáætlunar um eflingu gæða á sviði háskólamenntunar á Íslandi.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði ráðstefnuna og sagði meðal annars: „Spurningin snýst ekki um hve marga nemendur er hægt að mennta fyrir það fé sem er til ráðstöfunar heldur hve góða menntun fá þeir, hversu vel fellur hún að þörfum samfélagsins og enn mikilvægara; hvernig fáum við það besta úr fjárfestingum okkar í menntamálum. Leiðin til þess er að sjá til þess að þeir sem útskrifast úr háskólum hafi ekki einungis hæfni til að hefja störf á vinnumarkaði heldur einnig hæfni til að þróa og bæta við þá þekkingu sem þeir þurfa á að halda síðar á starfsævinni“.

Gæðaráð íslenskra háskóla var sett á laggirnar árið 2010. Það er skipað sex erlendum sérfræðingum sem gera úttektir á gæðum náms í íslenskum háskólum.

Gæðaráðið gerði rammaáætlun um eflingu gæða á sviði æðri menntunar á Íslandi (e. Icelandic Quality Enhancement Framework) og birti í sérstakri handbók. Þar kemur m.a. fram að á fimm ára tímabili skuli fara fram kerfisbundið mat á gæðum háskólastarfs á Íslandi. Felst matið annars vegar í innra mati (sjálfsmati) háskólanna á faglegri starfsemi sinni og hins vegar í ytra mati Gæðaráðs á háskólunum. Ráðstefnan markaði lok fyrstu umferðar rammaáætlunar um eflingu gæða á sviði háskólamenntunar á Íslandi og kynnt voru drög að næstu rammaáætlun.
Samhliða Gæðaráðinu starfar ráðgjafarnefnd sem er skipuð fulltrúum háskólanna, stúdenta, Rannís og mennta- og menningarmálaráðuneytis og er tengiliður á milli ráðsins og skólanna. Auk þess að vera Gæðaráði til ráðgjafar um framkvæmd rammaáætlunarinnar er ráðgjafarnefndin samráðsvettvangur háskólanna og gengst fyrir málþingum og fræðslu um gæðamál.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum