Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2015 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra heimsótti varðskipið Tý á Möltu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ásamt Einari H. Valssyni skipherra á varðskipinu Tý. - mynd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, heimsótti í gær íslenska varðskipið Tý sem liggur við bryggju í Valletta á Möltu, en varðskipið sinnir nú gæslu og björgunarstörfum á Miðjarðarhafi fyrir FRONTEX.

Forsætisráðherra hitti skipverja og fékk kynningu á verkefnum Týs og Landhelgisgæslunnar á Miðjarðarhafi undanfarin ár þar sem meðal annars kom fram að áhöfn Týs hefði komið að björgun um 4.200 manns á verkefnatímanum.

Forsætisráðherra segir ákaflega mikilvægt að Íslendingar skuli geta tekið þátt í slíkum verkefnum á svo árangursríkan máta. Þá sé sérstaklega ánægjulegt að heyra frá öðrum þjóðum að Íslendingar standi framarlega hvað varðar þekkingu og fagmennsku. Þetta hafi meðal annars komið fram í máli þjóðarleiðtoga annarra landa.

Sigmundur þakkaði áhöfn Týs fyrir þeirra mikilvægu störf og sagði það vekja stolt að sjá Íslendinga standa sig svo vel í framlínunni á þessu svæði. Þátttaka Landhelgisgæslunnar í björgunarstörfum á Miðjarðarhafi væri sennilega eitt mikilvægasta framlag Íslands til að takast á við þann vanda sem fylgdi flóttamannastraumnum.

Forsætisráðherrahjónin ásamt áhöfn íslenska varðskipsins Týs

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum