Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Nýsköpuneflir öll svið heilbrigðisþjónustu

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði nýsköpunarráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands

„Nýsköpun í heilbrigðisvísindum eru ekki bara ný tæki og tól heldur einnig nýir verkferlar, leiðir til að bæta viðmót við sjúklinga og samfélagið. Nýsköpun getur bætt almenna andlega líðan einstaklinga meðan þeir njóta þjónustunnar, ekki síður en greiningu sjúkdóma og meðferð þeirra“ sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, við setningu nýsköpunarráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs á Hótel Sögu í gær. Þrjátíu fjölbreytt verkefni voru kynnt á ráðstefnunni fyrir ríflega 100 þátttakendum.

Mörg framsæknustu fyrirtækin í íslensku atvinnulífi tengjast með beinum eða óbeinum hætti rannsóknum á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og annarra opinberra rannsóknarstofnanna, og samstarf þeirra á milli hvetur til nýsköpunarverkefna innan háskólanna. Það var því sérstaklega ánægjulegt hversu fjölbreytt þátttaka var í ráðstefnunni.

Tatjana Latinovic, deildarstjóri hugverkadeildar Össurar, flutti ávarp og sagði frá því hvernig nýsköpunarferlinu hjá Össur er háttað og hvernig fyrirtækið stendur að vernd hugverka.

Vísindafólk frá flestum deildum og námsbrautum Heilbrigðisvísindasviðs kynnti hugmyndir og verkefni á ráðstefnunni ásamt fjölda fólks af öðrum vettvangi. Má þar nefna Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, Raunvísindastofnun Háskólans, Háskólann í Reykjavík, Listaháskóla Íslands, Landspítala - háskólasjúkrahús, Blóðbankann, Össur og fjölda annarra fyrirtækja og stofnana.

Verkefnin sem kynnt voru því af ólíkum toga. Það var til dæmis fjallað um hvernig má nota sýndarveruleika til þess að kanna líðan þéttbýlisbúa, hvernig má ráða aldur barna af tannþroska þeirra, hvaða aðferð má beita til þess að auka hitaþolni lyfja, hvernig mætti nota útrunnar blóðflögur til þess að rækta stofnfrumur, hvernig sérstök dúkka getur aukið jafnvægi ungabarna og hvernig megi auka öryggismenningu á vinnustöðum.

Ráðstefnan fór fram í fernum málstofum en þær voru; tækni í þágu heilsu, nýsköpun og líðan einstaklingins, nýjar aðferðir í öndvegi og frá grunnvísindum til afurða. Þá fór einnig fram veggspjalda- og vörusýning. Fulltrúar frá Hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala voru einnig á staðnum og veittu upplýsingar um starfsemi nefndarinnar og gestum gafst tækifæri á að prufa sérstakan áhættureikni fyrir augnsjúkóma.

Hér er hægt að skoða fjölmargar skemmtilegar myndir frá ráðstefnunni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn