Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Styrking dómskerfisins með millidómstigi og öflugri stjórnsýslu er forgangsmál

Aðalfundur Dómarafélags Íslands var haldinn í gær. - mynd

Ólöf Nordal innanríkisráðherra ávarpaði aðalfund Dómarafélags Íslands sem haldinn var í gær. Sagði hún í upphafi að málefni dómstóla væri mikilvægur málaflokkur í innanríkisráðuneytinu og að stjórnvöldum bæri að skapa dómstólum umhverfi og umgjörð svo þeir geti rækt hlutverk sitt sem best og að réttaröryggi borgaranna verði tryggt. Hún sagði að styrking dómskerfisins með millidómstigi og öflugri stjórnsýslu væri forgangsmál hjá sér.

Fundurinn hófst á ávarpi Skúla Magnússonar, héraðsdómara og formanns Dómarafélagsins, en einnig fluttu ávörp þeir Ögmundur Jónasson, alþingismaður og formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar Alþingis, og Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands.

 

Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ávarp á aðalfundi Dómarafélags Íslands í gær.

Ólöf Nordal sagði í ávarpi sínu að unnið væri að þeirri veigamiklu breytingu á dómskerfinu að koma á millidómstigi. ,,Mikilvægum áfanga í þeirri vinnu var náð fyrr á árinu þegar nefnd skipuð Kristínu Edwald, hæstaréttarlögmanni, Herdísi Þorvaldsdóttur, héraðsdómara og Hafsteini Þór Haukssyni, lektor, skilaði tillögum sínum. Í sumar og haust hefur verið unnið áfram með málið í ráðuneytinu. Vinnan hefur m.a. falist í að útfæra nánar ýmis réttarfarsleg atriði, bæði stór og smá, auk þess sem ákveðið var að gera tillögur að breytingum á stjórnsýslu dómstólanna í þeim tilgangi að styrkja hana og treysta með því sjálfstæði dómstólanna,“ sagði ráðherra. Kvaðst hún hafa lagt áherslu á að fá að þessari vinnu þá sem gerst þekkja dómskerfið. Hefði ráðuneytið notið góðs af kröftum Sigurðar Tómasar Magnússonar, prófessors og bakhóps sérfræðinga sem í sitja Skúli Magnússon, formaður Dómarafélagsins, Árni Kolbeinsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólaráðs, Stefan A. Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, og Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari og ekki megi gleyma faglegum stuðningi réttarfarsnefndar.

Vonandi afgreitt á þessu þingári

Innanríkisráðherra sagðist vona að brátt sæi fyrir endann á vinnu við gerð lagafrumvarpa. ,,Núna getum við búist við að hægt verði að kynna frumvörp fyrir jól og vonandi getur málið þá farið áfram fyrir Alþingi til meðferðar á vorþingi. Það er auðvitað von mín að samstaða náist um málið á þinginu að það verði afgreitt á þessu þingári. Ég hef áður sagt það, og ítreka það hér, að styrking dómskerfisins með millidómstigi og öflugri stjórnsýslu er forgangsmál á mínu borði. Ég mun því fylgja málinu eftir af fullum þunga.“

Ráðherra fjallaði einnig um fjármál dómskerfisins og kvaðst hafa talað fyrir því að fjárveitingar yrðu auknar. Sagði hún nokkuð hafa áunnist og telur eðlilegt að dómstólar komi fram gagnvart fjárveitingarvaldinu með sjálfstæðari hætti en nú væri. Í lok ávarps síns fjallaði ráðherra um reglur um skipan dómara og kvaðst ekki draga dul á að til greina komi að endurskoða núgildandi reglur.

Dómskerfið hefur staðist álag

Skúli Magnússon gerði meðal annars álag á dómskerfið að umtalsefni sem hann sagði heldur tekið að minnka hjá héraðsdómi en ekki hæstarétti. Taldi hann álag á dómskerfið ekki síst hafa orðið vegna flóknari mála en ekki aðeins fjölgunar þeirra. Hann sagði dómskerfið hafa staðist þetta aukna álag með ágætum og hvatti til þess að framlengd yrði sú tímabundna fjölgun dómara sem verið hefur síðustu misserin. Hann fagnaði tillögum um stofnun millidómstigs og sagði brýnt að vanda undirbúning, m.a. með nægum fjárveitingum, og gæta yrði að því að héraðsdómstigið yrði ekki útundan með tilkomu millidómstigs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum