Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkissjóður greiðir 50 milljarða króna inn á skuldabréf Seðlabanka Íslands – 10% lækkun skulda á árinu 2015

Í lok árs 2015 greiddi ríkissjóður 49,9 milljarða króna inn á skuldabréf Seðlabanka Íslands. Er þetta ein stærsta einstaka afborgun af skuldum ríkissjóðs til þessa. Afborguninni var mætt með lækkun á sjóðsstöðu ríkissjóðs hjá Seðlabankanum.

Skuldabréfið, sem upphaflega var gefið út í janúar 2009 til styrkingar eiginfjárstöðu Seðlabankans, er afborgunarbréf og nemur árleg afborgun 5 ma.kr. Á árinu 2015 greiddi ríkissjóður um 47 ma.kr. til viðbótar árlegri afborgun af bréfinu og nema eftirstöðvar þess í árslok um 90 ma.kr. Áætlað er að greiða bréfið upp að fullu á yfirstandandi ári. Að teknu tilliti til greiðslu á skuldabréfi Seðlabankans nam sjóðsstaða ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands um 88,5 ma.kr. í árslok 2015.

Ríkissjóður forgreiddi einnig stóran hluta af útistandandi erlendum lánum á síðasta ári eða um 103 ma.kr. Á fyrri hluta ársins keypti ríkissjóður tæplega helming af útistandandi skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjadölum frá árinu 2011 eða sem samsvarar um 67 ma.kr. Í maí forgreiddi ríkissjóður lán frá Póllandi sem veitt var í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og námu þær um 7,5 ma.kr. Þá fyrirframgreiddi ríkissjóður svokallað Avens-skuldabréf í júlí að fjárhæð 28,3 ma.kr.

Á síðastliðnu ári fyrirframgreiddi ríkissjóður því um 150 ma.kr. af innlendum og erlendum skuldum. Umræddar fyrirframgreiðslur hafa að öðru óbreyttu um 7 ma.kr. áhrif til lækkunar vaxtagjalda á ári hverju. Heildarskuldir ríkissjóðs í árslok 2015 eru áætlaðar um 1.349 ma.kr. til samanburðar við 1.492 ma.kr. í árslok 2014. Samsvarar það um 10% lækkun skulda á milli ára. Á árinu 2016 er áætlað að skuldir ríkissjóðs lækki enn frekar og nemi 1.171 ma.kr. í lok ársins.

Nánari upplýsingar veitir Esther Finnbogadóttir í síma 545-9200.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum