Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mat á tilraunverkefninu STARFi

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur skilað félags- og húsnæðismálaráðherra skýrslu um mat á tilraunaverkefninu STARFi vinnumiðlun sem stóð yfir frá haustinu 2012 til loka apríl 2015.

Ráðist var í tilraunaverkefnið STARF vinnumiðlun á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar 5. maí 2011 í tengslum við gerð kjarasamninga. Byggt var á hugmyndum aðila vinnumarkaðarins um leiðir til að efla vinnumiðlun og stuðla að virkari vinnumarkaðsaðgerðum. Með samkomulagi milli velferðarráðuneytisins, Vinnumálastofnunar og Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands var sett á fót sérstakt félag í eigu ASÍ og SA; STARF – vinnumiðlun og ráðgjöf fyrir afmarkaðan hóp atvinnuleitenda.

Félagsvísindastofnun Háskólans var falið að meta árangurinn af tilraunaverkefninu samkvæmt samningi við velferðarráðuneytið og er því mati nú lokið með meðfylgjandi skýrslu. Könnuð voru viðhorf atvinnuleitenda til þjónustunnar sem þeir fengu hjá STARFi annars vegar og Vinnumálastofnun hins vegar og jafnframt var kannað hvernig þeim reiddi af eftir að þeir voru skráðir úr þjónustu STARFs eða Vinnumálastofnunar.

Könnunin fór fram í gegnum síma þar sem spurningalistar voru lagðir fyrir þátttakendur. Spurningalistinn var á þremur tungumálum, þ.e. íslensku, ensku og pólsku. Í úrtaki voru 2.800 manns og var svarhlutfallið 60,4% eða 1.692 einstaklingar.

Í grófum dráttum reyndist lítill munur á viðhorfum notenda til þjónustu STARFs og Vinnumálastofnunar. Ánægja með einstaka þjónustuþætti reyndist þó heldur meiri meðal þeirra sem nutu þjónustu STARFs.

Þegar spurt var um ástæður þess að fólk var hætt að nýta þjónustu vinnumiðlunar Vinnumálastofnunar eða STARFs sögðust 79% þjónustunotenda Vinnumálastofnunar hafa fengið atvinnu á móti 71% þeirra sem voru hjá STARFi.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að þótt niðustöður mats á tilraunaverkefninu leiði ekki í ljós grundvallarmun á vinnumiðlun Vinnumálastofnunar og STARFs sé engu að síður um gagnlega þjónustukönnun að ræða. Ástæða sé til að rýna í alla þætti hennar með það í huga að bæta það sem betur má fara í þjónustu við atvinnuleitendur og sníða þjónustuna enn frekar að þörfum þeirra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum