Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Öll tölvukaup stofnana ríkisins í sameiginlegum útboðum

Unnið er að því að innkaup stofnana ríkisins á tölvubúnaði á þessu ári verði framkvæmd í sameiginlegum útboðum. Er það í samræmi við nýlega samþykkt ríkisstjórnarinnar um að koma á sameiginlegum innkaupum ríkisstofnana með það að markmiði að nýta stærð ríkisins sem kaupanda og ná þannig fram hagræðingu í innkaupum.

Verkefnisstjórn um nýjar áherslur í opinberum innkaupum, sem hefur verið falið að koma á sameiginlegum innkaupum ríkisstofnana, leiðir vinnuna. Umfang innkaupa ríkisins er nú um 140 milljarðar króna á ári og þar af kaupir ríkið vörur og þjónustu fyrir um 88 ma.kr. á ári. Í ljósi umfangsins eru miklir hagsmunir tengdir opinberum innkaupum og mikil hagræðingartækifæri til staðar.

Verkefnisstjórnin um nýjar áherslur í opinberum innkaupum var skipuð eftir að fjármála- og efnahagsráðherra kynnti niðurstöður starfshóps sem fjallaði um hvernig hægt var að gera núverandi innkaupsaðferðir markvissari og árangursríkari. Sú vinna leiddi m.a. í ljós að ríkið hefur takmarkaðar upplýsingar um innkaup sín í mörgum vöruflokkum og skortir yfirsýn á innkaupsverði og tækifærum til hagræðingar. Þá kom í ljós að núverandi rammasamningsfyrirkomulag veitir ríkinu ekki lægsta mögulega verð og að verkfæri skortir til að nýta innkaupastefnu ríkisins að fullu við innkaup.

Verkefnisstjórnin fékk skýrt umboð til að ná fram skipulagsbreytingum og aukinni skilvirkni í innkaupamálum ríkisins þvert á ráðuneyti og stofnanir. Henni er m.a. falið að framkvæma ítarlegar greiningar á innkaupum ríkisins, leggja grunn að áætlunargerð stofnana og tryggja sameiginleg innkaup stofnana í ákveðnum vöruflokkum t.d. í upplýsingatækni.

85% verðmunur á innkaupsverði á sömu tegund af tölvu

Verkefnisstjórnin hefur nú unnið frumgreiningu á innkaupum ríkisins. Samkvæmt henni er ljóst að rammasamningar eru ekki nýttir með nógu markvissum hætti, en t.a.m. leiðir greining á innkaupum á tölvum í ljós að allt að 85% verðmunur var á innkaupsverði á sömu tegund af tölvu en hagstæðara verð náðist þegar innkaupin voru framkvæmd í kjölfar örútboðs innan rammasamnings.

Ljóst er að tækifæri eru til staðar til að ná fram hagræðingu í innkaupum á mörgum sviðum með sameiginlegum innkaupum allra stofnana, bæði með örútboðum í núverandi rammasamningum og með nýjum útboðum. Að því verður unnið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum