Velferðarráðuneytið

Straumhvörf með endurnýjun tækjaog bættri aðstöðu til rannsókna á Landspítala

Tækjakostur og breytt skipulag kynnt á Landspírtala í dag /Mynd LSH
Tækjakostur og breytt skipulag kynnt á Landspírtala í dag /Mynd LSH

Tímamót urðu á Landspítala í dag þegar formlega var tekin í notkun ný flæðilína rannsókna á sjúkrahúsinu sem unnið hefur verið að því að skipuleggja, þróa og setja upp um árabil. Breytt skipulag og ný tæki með aukinni sjálfvirkni auka afköst, skjótari niðurstöður fást úr rannsóknum og rekstarhagkvæmni eykst.

Rannsóknarkjarni Landspítalans er stærsta kíníska rannsóknarstofa landsins og eru þar gerðar um 1,5 milljónir rannsókna á ári í blóðmeina- og klínískri lífefnafræði. Í tengslum við endurnýjun á tækjabúnaði var húsnæði kjarnans endurskipulagt bæði við Hringbraut og í Fossvogi og var aðferðafræði straumlínustjórnunar notuð við verkið. 

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra flutti ávarp þegar flæðilínan var formlega tekin í notkun í dag og lýsti ánægju með að þetta flókna og stóra verkefni væri nú í höfn. Markmið með endurnýjun tækjabúnaðar og endurskipulagning á húsnæði rannsóknarkjarnans hefði það markmið að bæta starfsumhverfi og flæði sýna til rannsókna og ávinningurinn væri mikill.

Ráðherra sagði að eftir mögur ár væri Landspítali að ná vopnum sínum. Erfiðar kjaradeilur væru að baki og kominn vinnufriður þar sem starfsfólkið væri vonandi sáttara við sitt en áður:

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherraFramlög til Landspítala hafa síðustu þrjú ár verið aukin umtalsvert, verulega hefur verið aukið við fé til tækjakaupa samkvæmt sérstakri tækjakaupaáætlun og síðast en ekki síst er nú markvisst unnið að því að hrinda í framkvæmd áformum um Nýjan Landspítala við Hringbraut. Stutt er síðan ég fékk þann heiður að taka fyrstu skóflustunguna að nýja sjúkrahótelinu sem rísa mun hér á Landspítalalóðinni. Samkvæmt fjárlögum verður ríflega 1.800 milljónum króna varið til uppbyggingar landspítala við Hringbraut á þessu ári, annars vegar vegna sjúkrahótelsins og hins vegar vegna fullnaðarhönnunar á meðferðarkjarna sjúkrahússins.

Önnur skóflustunga sem boðar bjartari tíma fyrir spítalann okkar allra var tekin fyrir skemmstu vegna byggingar húsnæðis fyrir nýjan jáeindaskanna sem Íslensk erfðagreining ákvað af miklum rausnarskap að færa þjóðinni. Þeir sem til þekkja segja að skanninn muni valda byltingu í greiningu og meðferð sjúkdóma, einkum krabbameina, og leiða til markvissari meðferðar og enn fremur fækka óþörfum skurðaðgerðum.

Og nú erum við hér saman komin til að taka formlega í notkun nýja flæðilínu sjúkrahússins sem unnið hefur verið að því að skipuleggja, þróa og setja upp um árabil. Í þessu felst endurnýjun tækjabúnaðar og endurskipulagning á húsnæði Rannsóknarkjarna Landspítalans þar sem markmiðið er að bæta starfsumhverfi starfsfólksins og flæði sýna til rannsókna. Miðað við það sem ég hef kynnt mér varðandi nýju flæðilínuna þá er hér um að ræða flókið verkefni, hvort sem horft er til tækjabúnaðar eða ferla við rannsóknir. Ég ætla öðrum fara út í þá sálma og útskýra í hverju þetta allt saman felst. Kjarni málsins er að nýja flæðilínan með tilheyrandi nýjum tækjabúnaði og aukinni sjálfvirkni leiðir til ávinnings sem mæla má í auknum afköstum, skjótari niðurstöðum úr rannsóknum, bættri smitgát og aukinni hagkvæmni í rekstri. Þessi atriði eru hvert öðru mikilvægara. Þarna fara saman hagsmunir sjúklinga, aukin gæði, betri þjónusta, aukin hagkvæmni og bætt starfsumhverfi þeirra sem vinna við rannsóknirnar sem hér fara fram.

Ég óska okkur öllum innilega til hamingju með áfangann og daginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn