Velferðarráðuneytið

Uppsögn samninga um sjúkrahótel og skýrsla Ríkisendurskoðunar

Ríkisendurskoðun birti í dag skýrslu sem fjallar um samninga vegna starfsemi sjúkrahótels við Ármúla í Reykjavík. Rekstraraðili hótelsins hefur nú sagt upp samningi við Sjúkratrygginar Íslands.

Eins og fram kemur í skýrslunni hefur Landspítalinn gert margvíslegar athugasemdir við aðstöðu, aðbúnað og efndir rekstraraðila á samningunum allt frá árinu 2011. Sjúkratryggingar Íslands hafa talið þessar athugasemdir tilefnislausar og hafa stofnanirnar tvær deilt opinberlega um rekstur hótelsins. Þetta telur Ríkisendurkoðun ótækt og hvetur í skýrslu sinni velferðarráðuneytið til að höggva á þá hnúta sem komnir eru á málið.

Sjúkratryggingar Íslands óskuðu formlega eftir heildstæðri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á málefnum sjúkrahótelsins þann 11. maí 2015. Skýrsla stofnunarinnar var birt í dag, en fjórum dögum fyrr, 22. janúar sl. sagði Heilsumiðstöðin/Sinnum upp samningi sínum við SÍ um rekstur hótelsins. Að óbreyttu verður rekstrinum því hætt í lok apríl næstkomandi.

„Sjaldan veldur einn þá tveir deila“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir skýrslu Ríkisendurskoðunar skýra að mörgu leyti þær deilur sem verið hafa um rekstur sjúkrahótelsins en tekur undir það að ótækt sé að opinberar stofnanir geri deilur sínar opinberar í stað þess að finna lausnir í þágu þeirra sem eiga að njóta þjónustunnar sem deilt er um. Hann segir að rætur vandans virðist einkum liggja í því að misræmi sé í samningum um það hvaða þjónustu sjúkrahótelið hafi átt að veita. Landspítalinn hafi því verið með aðrar væntingar um þjónustu en rekstraraðilar hótelsins töldu sér skylt að veita: „Hér sannast enn á ný að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Það er hins vegar alveg ljóst að líkt og Ríkisendurskoðun bendir á þarf ráðuneytið að marka skýra stefnu um eðli og rekstur sjúkra- og sjúklingahótela þar sem framkvæmdir eru hafnar við byggingu sjúkrahótels á lóð Landspítala sem tekið verður í notkun í lok næsta árs. Slík vinna stendur nú yfir í ráðuneytinu í starfshópi sem ég skipaði í því skyni í desember sl.“

Ráðuneytið fundar þessa dagana með fulltrúum Sjúkratrygginga Íslands og Landspítalans til að fara yfir ábendingar Ríkisendurskoðunar og jafnframt til að fjalla um hvaða leiðir séu æskilegar og framkvæmanlegar til að mæta þörf fyrir þjónustu sjúkrahótels þegar samningurinn um reksturinn í Ármúla rennur út í lok apríl.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn