Velferðarráðuneytið

Innleiðing á samræmdu mati á þörf fólks fyrir öldrunar- og heimaþjónustu

Þjónusta við aldraða
Þjónusta við aldraða

 Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur veitt 50 milljónir króna til að undirbúa og innleiða nýtt matskerfi sem þróað hefur verið til að meta á samræmdan hátt þörf fólks fyrir öldrunar- og heimaþjónustu og gera þjónustuna markvissari. Kerfið er byggt á RAI-home care mælitækinu en er mun einfaldara í notkun. 

Hvatinn að því að þróa matskerfið,  sem kallað er Upphafsmat, er þörf fyrir að fá skýrari mynd af þörf fólks fyrir þjónustu og byggja þannig á sem gleggstum upplýsingum þegar ákvarðanir eru teknar um hvers konar þjónustu fólk þarf með og í hve miklum mæli. Ýmislegt hefur þótt benda til að öldrunarþjónustan sé ekki nógu markviss og að henni sé ekki úthlutað í réttu samræmi við þarfir fólks fyrir þjónustu. 

Upphafsmatið hefur verið forprófað hjá fimm sveitarfélögum og benda niðurstöður til þess að það gefi góða og skýra mynd af þörf fólks fyrir þjónustu. Þær benda einnig til  að misbrestur hafi verið á því hvernig ákvarðanir um þjónustu eru teknar og að ákvarðanir hafi ekki alltaf verið í samræmi við þarfir eða heilsufar fólks. Þeir sem þurfi  hvað mesta þjónustu fái of lítið en stór hópur fólks fái einhverja en litla þjónustu, jafnvel þótt ekki sé augljós þörf fyrir hendi. 

Þróun upphafsmatsins er nú komin það langt að tímabært þykir að taka það í notkun um allt land. Markmiðið er að tryggja betur samræmt, sanngjarnt og rétt mat á því hvaða þjónustu fólk þarfnast og byggja ákvarðanir á því. Með þessu móti verður unnt að vinna betur í samræmi við markmið laga um málefni aldraðra um að veita fólki þá þjónustu sem það þarf á viðeigandi þjónustustigi og nýta fjármuni betur með því að beina þeim þangað sem þeirra er mest þörf. 

Fimmtíu milljóna króna fjárveiting heilbrigðisráðherra vegna innleiðingar verkefnisins skiptist þannig að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Heimaþjónusta Reykjavíkur fá hver 3,5 milljónir króna til að undirbúa og innleiða matið. 22 milljónir króna renna til Embættis landlæknis vegna verkefnisstjórnar við innleiðingu, umsjón og eftirfylgd með Inter-Rai HC matskerfinu og til nauðsynlegra endurbóta á hugbúnaði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn