Velferðarráðuneytið

Mál nr. 27/2015: Úrskurður frá 29. janúar 2016

Ár 2016, föstudaginn 29. janúar, var í Félagsdómi í málinu nr.  27/2015.

Verkalýðsfélag Akraness

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)

gegn

Sambandi íslenskra sveitarfélaga

vegna samninganefndar

Sambands íslenskra sveitarfélaga

(Anton Björn Markússon hrl.)

 

kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Mál þetta var dómtekið 27. janúar sl. en þann dag var málið flutt bæði um form og efni.            

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Guðni Á. Haraldsson, Ásmundur Helgason, Gísli Gíslason og Lára V. Júlíusdóttir.

 

Stefnandi er Verkalýðsfélag Akraness, Sunnubraut 13, Akranesi.

 

Stefndi er Samband íslenskra sveitarfélaga, Borgartúni 30, Reykjavík, svegna samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

                       

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að ákvæði rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðar 27. október 2015 séu ólögmæt og óskuldbindandi bæði fyrir stefnanda og stefnda við gerð kjarasamnings þeirra á milli.

Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að þrátt fyrir fullyrðingar stefnda 4. nóvember 2015 sé 2. gr. rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðar 27. október 2015, sem felur í sér reglur um svonefnda sameiginlega launastefnu til ársloka 2018, ólögmæt og óskuldbindandi bæði fyrir stefnanda og stefnda við gerð kjarasamnings þeirra á milli.

Til þrautavara er þess krafist að viðurkennt verði að þrátt fyrir fullyrðingar stefnda 4. nóvember 2015 séu greinar 2.a og 2.b í rammasamkomulagi milli aðila vinnumarkaðar 27. október 2015, sem fela í sér að launastefna sé samræmd með sameiginlegri kostnaðarvísitölu og að hámark sé sett á kostnaðaráhrif kjarasamninga til ársloka 2018 þannig að svigrúm til launahækkana á því tímabili sé 24,2% óskuldbindandi bæði fyrir stefnanda og stefnda við gerð kjarasamnings þeirra á milli.

Í öllum tilvikum gerir stefnandi kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda.

 

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi.

Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda.

Loks krefst stefni þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

 

Málavextir

Helstu málavextir eru þeir að á árinu 2013 var stofnuð samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga, svonefndur SALEK-hópur. Hópurinn samanstendur af Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, stefnda í máli þessu, fjármálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg. Hinn 27. október 2015 rituðu fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Samtaka atvinnulífsins, fjármálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og stefnda í máli þessu undir svonefnt rammasamkomulag milli aðila vinnumarkaðar. Í upphafsorðum samkomulagsins er tekið fram að með því sé lagður grunnur að meiri sátt á vinnumarkaði með breyttum og bættum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga. Markmiðið sé að auka kaupmátt við efnahagslegan og félagslegan stöðugleika á grundvelli lágrar verðbólgu, stöðugs gengis og lægra vaxtastigs. Í rammasamkomulaginu er fjallað um stofnun þjóðhagsráðs, mótun sameiginlegrar launastefnu til ársloka 2018, drög að útlínum nýs samningslíkans og jafnframt fjallað um samspil aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda.

Í greinargerð stefnda er því lýst að aðilar máls þessa hafi hafið kjarasamningsviðræður 10. ágúst 2015 en að stefnandi hafi vísað kjaradeilu aðila til ríkissáttasemjara 29. september sama ár. Málsaðilar áttu fund hjá ríkissáttasemjara 4. nóvember sama ár og samkvæmt gögnum málsins beindi formaður stefnanda þeirri fyrirspurn til sviðsstjóra kjarasviðs stefnda síðdegis sama dag, hvort stefndi teldi stefnanda og önnur aðildarfélög innan Alþýðusambands Íslands vera bundin af framangreindu rammasamkomulagi að því er varðaði kostnaðarbreytingar. Í svari sviðsstjórans kemur fram sú afstaða stefnda að með því að undirrita samkomulagið hafi stefndi skuldbundið sig til að fylgja launastefnu samkomulagsins varðandi kjarasamninga sem gerðir verði til ársloka 2018. Það sé hins vegar ekki hennar að meta, hvort stefnandi telji sig skuldbundinn af undirskrift forseta Alþýðusambands Íslands á samkomulagið. Þá var jafnframt gerð grein fyrir stöðu kostnaðarvísitölu við upphaf kjaraviðræðna. Stefnandi mótmælti gildi rammasamkomulagsins á þeim forsendum að með því sé lögbundinn samningsréttur félagsins skertur. Höfðaði hann því mál þetta með stefnu áritaðri um birtingu 12. nóvember 2015.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir málsókn sína á því, að svonefnt rammasamkomulag milli aðila vinnu­markaðar, dagsett 27. október 2015, brjóti gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og meginreglum vinnumarkaðsréttar. Aðilum samkomulagsins sé hvorki heimilt að skuldbinda sig fyrir kjarasamningsgerð með slíku samkomulagi né sé þeim heimilt að skuldbinda aðra með samkomulaginu. Aðilar samkomulagsins hafi hvorki haft heimild samkvæmt lögum né umboðsreglum samningaréttar til þess að ákveða ýmis grundvallaratriði sem eigi að semja um með kjarasamningum milli réttra samningsaðila og samkvæmt þeim reglum sem gildi um kjara­samningsgerð. Þar sem viðsemjandi hans í kjarasamningsviðræðum hafi lýst því afdráttarlaust yfir að rammasamkomulagið hafi bindandi áhrif við gerð kjarasamnings, hafi samningsréttur stefnanda verið skertur. Því sé stefnanda nauðsynlegt að fá viðurkenningardóm um að samkomulagið brjóti gegn lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og sé þannig ekki bindandi við gerð kjarasamnings stefnanda og stefnda. Með dómsmálinu sé ætlunin að koma í veg fyrir að hægt sé að vísa til rammasamkomulagsins við gerð kjarasamningsins. Kröfugerð stefnanda miði að því að rammasamkomulagið verði ekki bindandi við kjara­­samnings­gerðina, þrátt fyrir fullyrðingar stefnda, og lúti kröfugerðin að beinum hagsmunum stefnanda og hafi bein áhrif á réttarstöðu stefnanda við kjarasamningsgerðina.

Stefnanda sé nauðsyn að fá dómsúrlausn um að hvorugur málsaðila sé bundinn af rammasamkomulaginu. Bæði stefnanda og stefnda beri lagaskylda til að semja sín í milli með kjarasamningi og þegar samið sé um atriði, sem heyri undir kjarasamning aðila með samningum við utanaðkomandi, sé brotið gegn þeirri lagaskyldu. Um leið sé brotið gegn þeim rétti stefnanda að ráða tilteknum atriðum með kjarasamningi. Stefnandi byggir á því, að samningsfrelsi hans verði skert með ólögmætum hætti ef atriði, sem semja eigi um, hafi þegar verið ráðstafað og skipti þá engu, þótt því verði haldið fram að stefnandi sé ekki formlega bundinn af ramma­samkomulaginu. Það eitt nægi til skerðingar á samningsfrelsi stefnanda að gagnaðili þess við samningsgerðina sé skuldbundinn af samkomulaginu. Frelsi stefnanda til að ráða tilteknum málefnum með kjarasamningi verði aðeins orðin tóm ef gagnaðila við samningsgerðina sé ógerlegt að semja um grundvallaratriði vegna þess að þeim hafi þegar verið ráðstafað. Skerðingin bitni þá með sama hætti á stefnanda eins og ef stefnandi væri sjálfur bundinn af samkomulaginu. Niðurstaðan í báðum tilvikum sé sú að tiltekin atriði séu tekin undan samningsgerðinni og séu þannig ekki á forræði þeirra sem eigi að semja um þau með kjarasamningi. 

Stefnandi byggir kröfu um viðurkenningu réttinda á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Hann hafi lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr um gildi samkomulagsins, enda skerði það samningsrétt stefnanda. Dómur um gildi samkomulagsins hafi þannig áhrif á réttindi stefnanda til að ráða málum til lykta með kjarasamningi.

Stefnandi kveðst fara með samningsumboð til kjarasamningsgerðar á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Kröfugerð og málatilbúnaður varði gerð kjarasamnings málsaðila. Stefnandi eigi aðild að máli þessu samkvæmt 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en í málinu liggi frammi yfirlýsingar Starfsgreinasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands þar sem þau neiti að höfða málið. Stefnandi sé því réttur sóknaraðili málsins samkvæmt 45. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Stefndi, sem sé gagnaðili stefnanda við kjarasamningsgerðina, hafi lýst því yfir að kjarasamningsviðræður geti einungis farið fram innan þess ramma sem samið hafi verið um í umræddu rammasamkomulagi. Með rammasamkomulaginu hafi launabreytingar verið ákveðnar fyrirfram í þeim samningum sem stéttarfélög eigi enn eftir að gera. Aðilar SALEK-hópsins hafi þannig gert með sér samkomulag sem ætlað sé að skuldbinda stéttarfélög og atvinnurekenda­félög við kjarasamningsgerð þeirra. Samningsfrelsi stéttarfélaga og félaga atvinnu­rekenda við kjarasamnings­gerð hafi þannig verið takmarkað, enda sé nú ekki unnt að semja um hærri kjör en kveðið sé á um í 2. gr. rammasamkomulagsins.  Auk framangreinds hafi aðilar SALEK-hópsins einnig ákveðið hvaða launahækkanir fyrri kjarasamninga skuli dragast frá þeim samningum sem nú séu lausir. Í kjölfar mótmæla stefnanda við yfirlýsingu stefnda á samningafundi þeirra 4. nóvember 2015 hafi þetta komið greinilega í ljós. SALEK-hópurinn hafi brugðist við samdægurs með því að auka svigrúm stefnda til samningsgerðarinnar. Stefndi hafi lýst því afdráttarlaust yfir að samningsaðilar séu skuldbundnir af samkomulaginu og í því felist að umboð stefnanda til frjálsrar kjarasamningsgerðar fyrir hönd félagsmanna sinna hafi verið takmarkað verulega með samkomulaginu.

Stefnandi byggir á því, að lagareglur á sviði vinnuréttar og samningaréttar leiði til þess að rammasamkomulagið geti ekki verið bindandi. Takmörkun á samningsfrelsi aðila við kjarasamningsgerð sé í andstöðu við ákvæði laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í lögunum komi skýrt fram að stefnandi skuli fara með samningsumboð fyrir hönd félagsmanna sinna og að samningsumboðið verði ekki takmarkað nema með lögum. Þá sé samkomulagið einnig ógilt vegna umboðsskorts samningsaðila en þeir hafi ekki haft umboð til þess að skuldbinda aðildarfélög sín, hvað þá aðra, um atriði sem beri að semja um í kjarasamningum.

Stefnandi tekur fram að í 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, sé kveðið á um félagafrelsi. Þar sé stéttarfélaga sérstaklega getið og verði af því ráðið að þeim sé ætlað mikilvægt hlutverk sem útlistað sé nánar í lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þar sem stéttarfélögum sé markað hlutverk í lögum og með vísan til mikilvægis þeirra, sem m.a. endurspeglist framangreindu stjórnarskrárákvæði, sé ljóst að lögboðin verkefni og hlutverk stéttarfélaga verði ekki af þeim tekin. Stefnandi sé stéttarfélag sem starfi á grundvelli laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og samkvæmt 3. gr. þeirra ráði stéttarfélög málefnum sínum sjálf. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna séu stéttarfélög lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna við kjarasamningsgerð og þá leiði jafnframt af ákvæðinu að aðrir aðilar geti ekki komið fram fyrir hönd þess við gerð kjarasamninga, nema stéttarfélagið hafi veitt þeim sérstakt umboð til þess.

Í 3. mgr. 5. gr. sömu laga sé kveðið á um gildi þeirra kjarasamninga sem gerðir hafi verið. Þegar kjarasamningur hafi verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildi hann frá undirskriftardegi sé ekki samið á annan veg. Þrátt fyrir það skuli samningurinn borinn undir félagsmenn stéttarfélagsins sem taki afstöðu til hans með leynilegri atkvæðagreiðslu. Endanlegt samþykki kjarasamnings sé því í höndum félagsmanna í viðkomandi stéttarfélagi og komi sambærilegar reglur fram í 4. og 5. gr. og II. kafla laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Samkvæmt framangreindu sé rammasamkomulagið ólögmætt að því leyti sem það leiði til bindandi niðurstöðu um kaup og kjör stéttarfélaga og atvinnurekendafélaga. Því sé það óskuldbindandi og að vettugi virðandi við kjarasamningsgerð stefnanda og stefnda. Stefnandi bendir á að samkvæmt meginreglum samningaréttar þurfi skuldbindingargildi samkomulagsins ekki að koma fram í orðalagi þess, heldur nægi að aðilar að samkomulaginu líti svo á og sýni með athöfnum sínum að í samkomulaginu felist skuldbinding. Einungis með lögum, sem sett væru á grundvelli málefnalegra forsendna, mætti takmarka svigrúm aðila kjarasamnings til að semja um kaup og kjör. Við gerð kjarasamnings sé stefnda þannig óheimilt að vísa til þess að það hafi þegar skuldbundið sig með rammasamkomulaginu, enda felist í því brot gegn lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Stefnandi byggir á því að svonefndur SALEK-hópur geti ekki samið með bindandi hætti um réttindi, skyldur og önnur atriði sem þeir hafi ekki umboð til að ráðstafa. Stefnandi hafi umboð til að gera kjarasamning fyrir sína félagsmenn en SALEK-hópurinn hafi ekkert umboð til þess að takmarka þau atriði sem samið verði um í kjarasamningi. Þannig geti SALEK-hópurinn ekki með bindandi hætti ákveðið hvert svigrúm sé til kjarasamningsgerðar stefnanda. Þá geti SALEK-hópurinn ekki með þriðjamannslöggerningi ráðstafað réttindum sem stefnanda sé rétt og skylt að lögum að semja um við gagnaðila sinn að kjarasamningi. Allar tilraunir SALEK-hópsins til þess að gera samkomulag sín á milli til þess að skuldbinda stefnanda og/eða gagnaðila hans í kjarasamningi sé brot á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Slíkir löggerningar séu ólögmætir.

Stefnandi tekur fram að í 2. gr. laga stefnanda segi að tilgangur félagsins sé m.a. að ákveða vinnutíma og kaupgjald og að þetta skuli gert í samvinnu við önnur verkalýðsfélög, landssamböndin sem félagið eigi aðild að og Alþýðusamband Íslands, ef því verði komið við. Sérstaklega sé þó tekið fram að félagið sé fyrst og fremst frjálst og óháð öðrum í þessum efnum.

Stefnandi kveðst ekki hafa veitt Alþýðusambandi Íslands umboð til þess að standa að rammasamkomulagi milli aðila vinnumarkaðar eða öðrum sambærilegum löggerningum. Lítil sem engin umræða hafi farið fram um endanlegt efni rammasamkomulagsins og aðildarfélög Alþýðusambands Íslands hafi ekki fengið að sjá drög að því fyrir undirritun. Samkomulagið hafi þannig verið undirritað af hálfu Alþýðusambands Íslands, án þess að það hefði verið borið undir aðildarfélög þess og þá hafi engin atkvæðagreiðsla farið fram um efni samkomu­lagsins, hvorki fyrir né eftir undirritun þess. Alþýðusamband Íslands hafi þannig ekki haft umboð til þess að standa að gerningum sem skuldbindi stefnanda og/eða takmarki svigrúm hans við kjarasamnings­gerð. Þá hafi hvorki Alþýðusamband Íslands né aðrir í SALEK-hópnum umboð eða aðra heimild til þess að skuldbinda og/eða takmarka samningsfrelsi gagnaðila stefnanda við kjarasamnings­gerð. Slík takmörkun á samningsheimild gagnaðila stefnanda leiði til takmörkunar á rétti stefnanda sjálfs til að semja um kaup og kjör félagsmanna sinna með alveg sama hætti og ef ætluð skuldbinding lyti beint að stefnanda sjálfum.

Stefnandi bendir á að verkefni Félagsdóms séu skilgreind í 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og í 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og falli ágreiningur þessa máls innan valdmarka dómstólsins. Í 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 segi að verkefni Félagsdóms sé m.a. að dæma í málum sem rísi út af kærum um brot á lögunum. Í máli þessu sé deilt um samkomulag, sem brjóti gegn lögunum með þeim ætti að það skerði samningsrétt og samningsskyldu stéttarfélaga og atvinnurekendafélaga til að ráða tilteknum málefnum með kjarasamningum, eins og kveðið sé á um í lögunum. Í 1. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 segi að verkefni Félagsdóms sé m.a. að dæma í málum um samningsaðild einstakra stéttarfélaga. Með rammasamkomulaginu hafi SALEK-hópurinn tekið sér samningsaðild í kjarasamningsviðræðum og ráðstafað tilteknum málefnum sem stefnandi og önnur stéttarfélög eigi að semja um við atvinnurekendafélög. Málið lúti þannig að samningsaðild stefnanda, enda hafi hún verið skert og framseld til SALEK-hópsins ef ákvæði samkomulagsins gildi. Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 heyri ágreiningur um skilning á kjarasamningi eða gildi hans undir valdsvið Félagsdóms. Margnefndu samkomulagi sé ætlað að vera ígildi kjarasamnings eða einhvers konar rammi sem bindi og setji mörk á alla kjarasamningsgerð. Með því sé ætlun SALEK-hópsins að ráðstafa málefnum, sem heyri undir kjarasamninga, og því beri Félagsdómi að skera úr um gildi samkomulagsins.

Auk framangreinds, kveðst stefnandi byggja dómkröfur sínar á almennum meginreglum vinnuréttar og samningaréttar. Þá vísar hann til þess að sveitarfélög séu sjálfstæð  stjórnvöld og sé þeim óheimilt að skuldbinda sig fyrirfram, áður en gengið sé til kjarasamninga.

Um fyrirsvar vísar stefnandi til 4. og 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, 27. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og 45. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Um varnarþing vísar stefnandi til 38. gr. síðastgreindra laga. Málskostnaðarkrafa stefnanda er reist á ákvæðum 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir kröfu sína um frávísun málsins frá Félagsdómi í fyrsta lagi á því að málið heyri ekki undir Félagsdóm. Í stefnu sé á því byggt að ágreiningur málsins falli innan valdmarka Félagsdóms á grundvelli 1. töluliðs 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeildur, og á grundvelli 1. og 3. töluliðs 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Af 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, leiði að undir Félagsdóm heyri m.a. að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á lögunum. Í máli þessu liggi ekki fyrir kæra um brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, heldur varði málið skuldbindingargildi rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðar frá 27. október 2015.

Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, dæmi Félagsdómur m.a. í málum sem rísi milli samningsaðila um samningsaðild einstakra stéttarfélaga. Í athugasemdum við frumvarp það, sem orðið hafi að lögum nr. 94/1986, segi að í ákvæði 1. töluliðs 1. mgr. 26. gr. felist m.a. að stéttarfélag, sem telji sig fullnægja skilyrðum til að eiga samningsaðild við gerð kjarasamninga, geti höfðað mál fyrir Félagsdómi til viðurkenningar á samningsrétti sínum. Um slíkt sé ekki að ræða í þessu máli, auk þess sem málið varði ekki samningsaðild stefnanda, enda sé óumdeilt að stefnandi sé samningsaðili í skilningi laga. Þá sé alfarið hafnað yfirlýsingu stefnanda í stefnu um með rammasamkomulaginu hafi SALEK-hópurinn tekið að sér samningsaðild í kjarasamningsviðræðum. Einungis hafi verið um að ræða stefnumótun og markmiðssetningu í aðdraganda kjarasamningsviðræðna.

Loks komi fram í 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, að Félagsdómur dæmi í málum sem varði ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Í stefnu sé því haldið fram að rammasamkomulagi milli aðila vinnumarkaðar sé ætlað að vera ígildi kjarasamnings. Stefndi hafnar þessum skilningi með vísan til þess að rammasamkomulagið sé hvorki kjarasamningur í skilningi fyrrgreindra laga né ígildi kjarasamnings, heldur samkomulag um almenna stefnumótun og markmiðssetningu í kjaramálum. Mál þetta snúist um skuldbindingargildi rammasamkomulagsins og varði því ekki ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans.    

Í ljósi framangreinds, og með vísan til þess að lögsögu Félagsdóms sem sérdómstóls beri að túlka þröngt, telji stefndi ljóst að sakarefni málsins heyri ekki undir Félagsdóm á grundvelli þeirra ákvæða sem stefnandi vísar til. Félagsdómur hafi því ekki lögsögu til að skera úr um lögmæti og skuldbindingargildi rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðar. Beri af þeim sökum að vísa máli þessu frá dómi.

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína í öðru lagi á því að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins samkvæmt meginreglu íslensks réttar um að stefnandi máls verði að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína. Reglan fái m.a. stoð í ákvæðum 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar verði lögspurningar ekki lagðar fyrir dómstóla og þá leiði af 2. mgr. að aðili geti einungis leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar, hafi hann lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands.

Kröfugerð stefnanda í máli þessu snúi að því að fá viðurkenningardóm um að rammasamkomulag milli aðila vinnumarkaðar sé ólögmætt og óskuldbindandi fyrir málsaðila í kjarasamningsviðræðum þeirra. Fyrir það fyrsta hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af því að gera þá kröfu að viðurkennt verði að stefndi sé ekki skuldbundinn af rammasamkomulaginu, enda hafi stefndi sjálfur forræði á framsetningu sinna dómkrafna. Þar að auki megi benda á að því sé ranglega haldið fram í stefnu að stefnanda og stefnda beri lagaskylda til að semja sín á milli með kjarasamningi, enda feli samningsréttur stefnanda einungis í sér skyldu stefnda til að koma til viðræðna við stefnda. Loks byggir stefndi á því, að rammasamkomulagið sé viljayfirlýsing, sem feli í sér stefnumótun og markmiðssetningu í aðdraganda og við gerð kjarasamninga, en sé ekki skuldbindandi kjarasamningur um niðurstöðu annarra, ógerðra kjarasamninga. Rammasamkomulagið sé því ekki skuldbindandi um endanlega niðurstöðu kjarasamningsviðræðna stefnanda og stefnda, heldur feli það í sér að aðilar samkomulagsins hafi einsett sér það markmið að reyna að halda launaþróun innan þess ramma sem þar sé kveðið á um. Hvort það takist við gerð einstakra kjarasamninga, eigi síðan eftir að koma í ljós. Í því samhengi bendir stefndi á að í raun hafi ekki enn reynt á það, hversu mikið beri í milli í kjarasamningsviðræðum málsaðila og sé ekki útséð með að aðilar geti náð samkomulagi, auk þess sem stefnandi hafi enn í hendi sér að beita verkfallsrétti sínum til þess að knýja á um kröfur sínar. Rammasamkomulagið sé auk þess háð ýmsum fyrirvörum og óvissuþáttum, m.a. um aðkomu stjórnvalda og endanlega niðurstöðu sjálfstæðra kjarasamninga viðeigandi aðildarsamtaka, sbr. til að mynda gr. 2.c í samkomulaginu.

Stefndi telur samkvæmt þessu ljóst að stefnandi hafi enga lögvarða hagsmuni af eða ástæðu til að fá staðfest fyrir dómi að stefnumótun aðila vinnumarkaðar í aðdraganda kjarasamninga sé ólögmæt og óskuldbindandi og því uppfylli kröfugerðin ekki skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá telur stefndi jafnframt ljóst að kröfugerð stefnanda feli í raun í sér almenna lögspurningu sem ekki verði borin undir dómstóla samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna. Beri því að vísa máli þessu frá Félagsdómi.  

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um frávísun málsins, kveðst stefndi byggja varakröfu sína um sýknu á því að rammasamkomulag milli aðila vinnumarkaðar frá 27. október 2015 sé viljayfirlýsing, sem feli í sér almenna stefnumótun og markmiðssetningu í kjaramálum sem málsaðilar séu báðir hluti af, en sem sé ekki skuldbindandi um endanlega niðurstöðu kjarasamningsviðræðna þeirra.

Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi á því byggð að honum hafi verið fyllilega heimilt að undirrita umrætt rammasamkomulag milli aðila vinnumarkaðar. Sé stefnda í sjálfsvald sett, hvernig hann kjósi að haga stefnumótun sinni og markmiðssetningu í aðdraganda kjarasamningsviðræðna. Það sé því stefnanda óviðkomandi að stefndi hafi ákveðið að taka þátt í samvinnu SALEK-hópsins og undirritað umrætt rammasamkomulag, sem feli það í sér að stefndi muni, við gerð einstakra kjarasamninga, leitast við að framfylgja þeirri stefnu og þeim markmiðum sem þar séu sett. Stefndi hefði allt eins getað sett sér þann ramma og þau markmið einn og án samráðs við aðra. Stefnda hafi því verið fyllilega heimilt að haga stefnumótun sinni og markmiðssetningu með þeim hætti, sem hér um ræði, enda ekkert í lögum sem komi í veg fyrir slíkt.

Í öðru lagi er krafa stefnda um sýknu á því byggð að stefnandi sé sjálfur þátttakandi í mótun þeirrar heildarstefnu sem birtist í rammasamkomulagi milli aðila vinnumarkaðar í gegnum aðild sína að Alþýðusambandi Íslands. Samkvæmt 3. gr. laga sambandsins, sem samþykkt hafi verið á 39. þingi sambandsins 2000, með síðari breytingum, sé hlutverk sambandsins m.a. að hafa forystu í stéttarbaráttu launafólks, að koma fram fyrir hönd aðildarfélaga í sameiginlegum málum gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum og að móta og samræma heildarstefnu samtakanna í atvinnu-, mennta-, umhverfis- og kjaramálum. Samkvæmt þessu hafi stefnandi með aðild sinni veitt Alþýðusambandi Íslands umboð til þess að móta og samræma heildarstefnu samtakanna í kjaramálum en rammasamkomulag milli aðila vinnumarkaðar feli einmitt í sér slíka almenna heildarstefnu.

Í ljósi þessa hafi stefndi enga ástæðu haft til að ætla annað en að stefnandi kæmi að samningaborðinu með sömu heildarstefnu í huga og stefndi. Sú staðreynd að stefnandi telji forseta Alþýðusambands Íslands hafa farið út fyrir umboð sitt með undirritun samkomulagsins sé stefnda óviðkomandi, enda hafi stefndi verið í góðri trú um að Alþýðusambandi Íslands væri heimilt að taka þátt í samkomulaginu fyrir hönd aðildarfélaga sinna. Þar fyrir utan telji stefndi ekkert benda til þess að sambandinu hafi ekki verið það heimilt. Furðu veki að stefnandi virðist leggja allt annan skilning í rammasamkomulagið heldur en þau heildarsamtök launafólks sem hann sé aðili að. Stefnandi verði sjálfur að bera ábyrgð á því að eiga aðild að samtökum, sem hafi umboð til þess að móta heildarstefnu í kjaramálum, og hafi hann þar með framselt að hluta rétt sinn til slíkrar stefnumótunar, enda sé slíkt í fullu samræmi við ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur.  

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að umrætt rammasamkomulag sé hvorki þriðjamannslöggerningur né samkomulag stefnda við utanaðkomandi, eins og haldið sé fram í stefnu, heldur samkomulag sem bæði stefnandi og stefndi sé þátttakendur í og hluti af. Þá bendir stefndi á að jafnvel þótt stefnandi væri ekki bundinn af rammasamkomulaginu í gegnum aðild sína að Alþýðusambandi Íslands, sé stefndi eftir sem áður aðili að samkomulaginu og þátttakandi í þeirri heildarstefnu, sem í samkomulaginu felist svo sem honum sé fyllilega heimilt.

Í þriðja lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að rammasamkomulag milli aðila vinnumarkaðar sé í raun einungis viljayfirlýsing sem feli í sér stefnumótun og markmiðssetningu í kjaramálum en sé ekki skuldbindandi um endanlega niðurstöðu kjarasamningsviðræðna stefnanda og stefnda. Rammasamkomulagið sé þannig hvorki kjarasamningur né ígildi kjarasamnings, eins og haldið sé fram í stefnu. Í samkomulaginu sé fjallað um stofnun þjóðhagsráðs, mótun sameiginlegrar launastefnu, sem útfæra þurfi í sjálfstæðum kjarasamningum, drög að útlínum nýs samningslíkans og samspil aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda. Þá sé ekki kveðið á um gagnkvæmar skyldur eða réttindi samningsaðila í rammasamkomulaginu, auk þess sem orðalag samkomulagsins beri það með sér að fjallað sé um atriði sem síðar verði útfærð nánar. Í þessu samhengi megi til að mynda benda á að í gr. 2. c sé kveðið á um að launaskriðstrygging opinberra starfsmanna taki ekki gildi fyrr en samningsaðilar hafi lokið gerð kjarasamnings á forsendum sameiginlegrar launastefnu til ársloka 2018 en slíkt hafi ekki verið gert. Þá sé rammasamkomulagið ekki óhagganlegra en svo að eftir undirritun samkomulagsins hafi kostnaðarvísitölu samkomulagsins verið breytt úr því að vera 111,4 í 106,3. Hafi það verið gert vegna mótmæla félaga innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Starfsgreinasambands Íslands gegn því að síðasta launahækkun í kjarasamningum 2011 og breytingar á starfsmatskerfinu 2014 færu inn í kostnaðarvísitöluna. Sérstakur fundur með aðilum SALEK-hópsins hafi því ákveðið að taka þessa þætti út úr vísitölunni og láta þá vigta sem launaskrið.

Af þessum sökum verði að hafna þeirri fullyrðingu í stefnu að með rammasamkomulaginu sé samið með bindandi hætti um grundvallaratriði, sem heyri undir kjarasamning aðila, og að þess vegna sé ógerlegt að semja um grundvallaratriði við kjarasamningsgerðina. Þá sé því jafnframt hafnað að með rammasamkomulaginu sé búið að ákveða fyrirfram launabreytingar í þeim samningum sem stéttarfélög eigi eftir að gera, enda sé einungis búið að setja fram markmið um tiltekið þak á launaþróun. Loks sé ekki allskostar rétt sem haldið sé fram í stefnu að stefndi hafi lýst því afdráttarlaust yfir að rammasamkomulagið hafi bindandi áhrif við gerð kjarasamnings málsaðila. Hið rétta sé að í aðild stefnda að rammasamkomulaginu felist að stefndi muni leitast við að fylgja þeirri launastefnu sem samkomulagið kveði á um. Stefndi sé þannig vissulega bundinn af því sem hann undirritar en undirritun samkomulagsins feli hins vegar ekki í sér að hendur samningsaðila séu í raun og veru bundnar í kjarasamningsviðræðum málsaðila, enda sé einungis um viljayfirlýsingu að ræða. Að því er varðar yfirlýsingu starfsmanns stefnda í tölvupósti til formanns stefnanda, dagsettum 4. nóvember 2015, beri í öllu falli að skoða efni hans í því ljósi að stefnandi og stefndi hafi á þessum tíma verið í miðjum kjarasamningsviðræðum þar sem aðilar setji iðulega fram ítrustu kröfur sínar. Slík yfirlýsing breyti hins vegar ekki eðli rammasamkomulagsins.

Af framangreindu leiði að það skerði ekki samningsfrelsi stefnanda þótt stefndi hafi, með undirritun rammasamkomulagsins, einsett sér að nálgast kjarasamningsviðræður við stefnanda með það að markmiði að fara ekki út fyrir þann ramma sem kveðið sé á um í samkomulaginu. Enn eigi eftir að koma í ljós hvort það markmið náist, enda ekki útséð með hvort aðilar geti náð samkomulagi, auk þess sem stefnandi hafi enn í hendi sér að beita verkfallsrétti sínum til þess að knýja á um kröfur sínar. Þá sé jafnframt ljóst að endanlegt samþykki kjarasamnings stefnanda og stefnda sé eftir sem áður í höndum félagsmanna stefnanda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Ekki sé því um það að ræða að SALEK-hópurinn hafi með bindandi hætti takmarkað rétt stefnanda til kjarasamningsgerðar og þar með brotið gegn 1. mgr. 5. gr. sömu laga eða öðrum lagaákvæðum.

Samkvæmt öllu framangreindu telji stefndi ljóst að sýkna beri hann af öllum dómkröfum stefnanda.

Frávísunarkrafa stefnda byggist á d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, meginreglunni um ákveðna og ljósa kröfugerð, meginreglunni um lögvarða hagsmuni, sbr. 25. gr. sömu laga, ákvæðum laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Sýknukrafa stefnda er byggð á meginreglum samningaréttar, ákvæðum laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og ákvæðum laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Krafa stefnda um málskostnað er grundvölluð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

Í málinu liggja frammi bréf Alþýðusambands Íslands og Starfsgreinasambands Íslands, bæði dagsett 9. nóvember 2015, þar sem Félagsdómi er tilkynnt um að samböndin hyggist ekki höfða fyrir hönd stefnanda mál fyrir Félagsdómi þar sem reyni á lögmæti rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðar frá 27. október 2015 og að stefnandi reki því málið í eigin nafni.

Aðilar máls þessa eiga nú í kjarasamningsviðræðum og er upplýst að síðasti kjarasamningur þeirra í milli rann út 30. apríl 2015. Stefnandi höfðar mál þetta til viðurkenningar á því aðallega, að „ákvæði Rammasamkomulags milli aðila vinnumarkaðar 27. október 2015 séu ólögmæt og óskuldbindandi bæði fyrir stefnanda og stefnda við gerð kjarasamnings þeirra á milli“, til vara að „þrátt fyrir fullyrðingar stefnda 4. nóvember 2015 sé 2. gr. Rammasamkomulagsins“, [...] „sem felur í sér reglur um svonefnda sameiginlega launastefnu til ársloka 2018, sé ólögmæt og óskuldbindandi“ fyrir báða málsaðila og til þrautavara að viðurkennt verði að „þrátt fyrir fullyrðingar stefnda 4. nóvember 2015 séu greinar 2.a og 2.b í Rammasamkomulagi“ [...] „sem fela í sér að launastefna sé samræmd með sameiginlegri kostnaðarvísitölu og að hámark sé sett á kostnaðaráhrif kjarasamninga til ársloka 2018“ með tilteknum hætti, sé óskuldbindandi fyrir báða málsaðila. Er á því byggt af hálfu stefnanda að framangreint rammasamkomulag brjóti gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og meginreglum vinnumarkaðsréttar. Stefnandi vísar til þess, að stefndi hafi lýst því afdráttarlaust yfir að samkomulagið hafi bindandi áhrif við gerð kjarasamnings milli aðila en slíkt sé óheimilt að lögum. Þá bendir stefnandi m.a. á að samkvæmt 3. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, ráði stéttarfélög málum sínum sjálf og að samkvæmt 3. mgr. 5. gr. sömu laga sé stéttarfélag lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna. Með framangreindri afstöðu stefnda sé samningsfrelsi stefnanda hins vegar skert með ólögmætum hætti, enda hafi samningsatriðum í raun verið ráðstafað fyrirfram af öðrum aðilum en þeim sem standi að gerð kjarasamningsins. Fari framangreind afstaða stefnda því gegn ákvæðum laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sem og stjórnarskrárvörðum samningsrétti stéttarfélaga. Stefnandi vísar um samningsumboð sitt í stefnu til 1. mgr. 5. gr. laganna en kveðst jafnframt eiga aðild að þessu máli samkvæmt 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, gilda lögin um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum sem samkvæmt 4. og 5. gr. laganna hafa rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim. Í 3. tölulið 2. mgr. 1. gr. er sérstaklega tekið fram að ákvæði laganna taki ekki til starfsmanna stofnana og fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga þegar kaup þeirra og kjör fara eftir kjarasamningum stéttarfélaga þeirra og vinnuveitenda, sbr. lög nr. 80/1938 og lög nr. 19/1979. Samkvæmt 4. gr. laganna fara stéttarfélög starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eða samtök slíkra félaga með fyrirsvar félagsmanna sinna um gerð kjarasamninga samkvæmt lögunum. Í stefnu kveðst stefnandi vera stéttarfélag sem starfar á grundvelli laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og er það óumdeilt. Því verður að telja að um mál þetta gildi alfarið lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, en samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laganna dæmir Félagsdómur í málum sem rísa milli samningsaðila um þau atriði er þar greinir.

Kemur því næst til skoðunar sú málsástæða stefnda fyrir frávísunarkröfu sinni, að mál þetta eigi samkvæmt því lagaákvæði ekki undir Félagsdóm. Stefndi bendir á að ekki liggi fyrir kæra um brot á lögunum, heldur varði málið skuldbindingargildi rammasamkomulagsins sem sé hvorki kjarasamningur né ígildi kjarasamnings, heldur samkomulag um almenna stefnumótun og markmiðssetningu í kjaramálum. Þar sem Félagsdómur sé sérdómstóll, beri að skýra ákvæði laga um valdsvið hans þröngri skýringu. Stefnandi telur hins vegar að málið eigi undir Félagsdóm á grundvelli 1. töluliðar 1. mgr. 44. gr. laganna þar sem ágreiningur aðila lúti að því, hvort umrætt rammasamkomulag brjóti gegn ákvæðum þeirra. Samkomulagið skerði samningsrétt og samningsskyldu aðila til að ráða tilteknum málefnum með kjarasamningum, eins og kveðið sé á um í lögunum.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 eru verkefni Félagdóms eftirfarandi:

1. Að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á lögum þessum og tjóni, sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana.

2. Að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans.

3. Að dæma í öðrum málum milli verkamanna og atvinnurekenda, sem aðiljar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu að minnsta kosti 3 af dómendunum því meðmæltir.

Með vinnusamningi í 2. tölulið málsgreinarinnar er átt við kjarasamning. Við túlkun á dómsvaldi Félagsdóm gagnvart dómsvaldi almennra dómstóla verður að taka mið af því að Félagsdómur er sérdómstóll. Því sæta framangreind ákvæði fremur þrengjandi skýringu.

Í stefnu er því lýst yfir að málshöfðun þessi sé nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að vísa til rammasamkomulagsins við gerð kjarasamnings aðila. Af stefnu og málflutningi fyrir dómi verður jafnframt ráðið að tilefni málshöfðunarinnar séu ummæli af hálfu stefnda við kjarasamningsviðræður aðila 4. nóvember 2015 þess efnis að stefndi líti svo á að samkomulagi sé bindandi af hans hálfu, en það valdi því að rammasamkomulagið fái kjarasamningsígildi. Stefndi mótmælir þessu og kveðst líta svo á að rammasamkomulagið sé ekki skuldbindandi um endanlega niðurstöðu kjarasamningsviðræðna þó að hann telji sig bundinn af því að leggja þau stefnumið sem þar komi fram til grundvallar í þeim viðræðum.

Eins og rakið hefur verið rann síðasti kjarasamningur aðila úr gildi í apríl 2015 og eiga þeir núna í viðræðum um nýjan kjarasamning. Ekki er unnt að líta svo á að með málsókn þessari sé borinn undir dóminn ágreiningur um skilning eða ætluð brot á ákvæðum kjarasamnings aðila, sbr. ákvæði 2. töluliðar 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

Stefnandi er sem stéttarfélag lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna sinna, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938. Samkvæmt efni sínu felur hið umdeilda rammasamkomulag í sér stefnumið þeirra sem aðild eiga að samkomulaginu um almenna launaþróun til ársloka 2018. Þar eru starfskjör ekki ráðin til lykta þannig að ákvæði samkomulagsins skuldbindi þá að lögum. Eins og stefndi lætur í veðri vaka hlýtur það að ráðast af gerð einstakra kjarasamninga hvort stefnumið rammasamkomulagsins nái fram að ganga. Í þessu ljósi er ekki unnt að líta á rammasamkomulagið sem kjarasamning eða kjarasamningsígildi sem unnt er að bera undir Félagsdóm hvort að gildi milli aðila, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

Stefnandi ber því við að mál þetta heyri undir Félagsdóm á grundvelli 1. töluliðar 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 þar sem dóminum sé falið að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á lögunum. Þegar mál er höfðað fyrir Félagsdómi á þessum lagagrundvelli verður að gera kröfu um að stefnukröfur endurspegli málsgrundvöllinn þannig að þar verði ráðið með nægjanlega skýrum hætti hver sú háttsemi er, sem stefnandi telur að brjóti gegn lögunum og að vísað sé til þess lagaákvæðis sem háttsemin er talin varða við.

Efni kröfugerðar stefnanda hefur verið rakið. Þar kemur hvorki fram gegn hvaða lagaákvæðum stefnandi telur að hafi verið brotið né með hvaða hætti það hafi verið gert eða hver hafi verið þar að verki.

             

Almenn tilvitnun stefnanda til 3. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem mælt er fyrir um að stéttarfélög ráði málefnum sínum sjálf, og til 1. mgr. 5. gr. laganna, um að stéttarfélög séu lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, nægir ekki ein og sér til þess að málið eigi undir valdsvið Félagsdóms á þessum grundvelli. Í stefnu er enn fremur að finna yfirlýsingu stefnanda um að dómkröfur hans miði að því að fá úrlausn dómsins um að umrætt rammasamkomulag skuldbindi ekki aðila við kjarasamningsgerð þeirra. Að þessu virtu og með hliðsjón af því sem áður er rakið um kröfugerð stefnanda og efnislegan ágreining aðila verður ekki séð að með kröfum stefnanda sé leitað úrlausnar dómsins um ágreiningsefni, sem lúta að framangreindum lagaákvæðum, heldur á því hvort títtnefnt rammasamkomulag sé skuldbindandi eða ekki og hvaða áhrif það eigi að hafa við gerð kjarasamnings milli aðila. Ágreiningur um kröfur og kröfugerð við gerð kjarasamnings er ekki réttarágreiningur, heldur hagsmunaágreiningur. Að þessu athuguðu verður ekki talið að málið eigi undir dómsvald Félagsdóms með vísan til ákvæða 1. töluliðar 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Er hér jafnframt litið til þess sem að framan greinir að Félagsdómur er sérdómstóll og ber því að skýra valdsvið hans þröngt.

Samkvæmt upphafsorðum umrædds rammasamkomulags aðila vinnumarkaðar er markmið þess „að auka kaupmátt við efnahagslegan og félagslegan stöðugleika á grundvelli lágrar verðbólgu, stöðugs gengis og lægra vaxtastigs“. Í þessum tilgangi er m.a. í 2. gr. þess sett fram sameiginleg launastefna til ársloka 2018. Í ljósi þess, sem hér að framan er rakið, og þar sem fyrir liggur að hvorugur málsaðili telur rammasamkomulagið skuldbindandi um endanlega niðurstöðu kjarasamningsviðræðna þeirra í milli, verður ekki séð að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um stefnukröfur sínar eins og þær eru settar fram. Er það því mat dómsins að ekki séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, til höfðunar viðurkenningarmáls.

Með vísan til alls framangreinds ber, þegar af þessum sökum, að vísa málinu frá Félagsdómi.

Með vísan til ákvæða 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur. 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Stefnandi, Verkalýðsfélag Akraness, greiði stefnda, Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 400.000 krónur í málskostnað.

 

Arnfríður Einarsdóttir

Ásmundur Helgason

Guðni Á. Haraldsson

Lára V. Júlíusdóttir

Gísli Gíslason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn