Velferðarráðuneytið

Vinnufundur stýrihóps um landssamráð um aðgerðir gegn ofbeldi

Raddir unga fólksins
Raddir unga fólksins

Fjölmennt var á vinnufundi stýrihóps innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis um landssamráð um aðgerðir gegn ofbeldi í Iðnó í gær. Fundarstjóri var Ragnar Þorsteinsson, fyrrverandi fræðslustjóri Reykjavíkurborgar.

Til fundarins var boðið fjölbreyttum hópi fulltrúa ýmissa stofnana og félagasamtaka en markmiðið var að fá þátttakendur til að sameina þekkingu sína og krafta og leggja þannig grunn að aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.

Fundurinn hófst með ávarpi Ingibjargar Broddadóttur, formanns stýrihópsins, sem bauð fundarmenn velkomna og kynnti fyrir þeim viðfangsefni dagsins og hvernig ákveðið hefði verið að nálgast verkefnið út frá þremur hugtökum, þ.e. vakningu, viðbrögðum og valdeflingu. Með vakningu er horft til þess að upplýsa og virkja samfélagið til að taka höndum saman gegn ofbeldi, viðbrögð snúa að réttarvörslukerfinu, rannsókn mála, verklagi á vettvangi og vernd og bráðastuðningi við þolendur og valdefling snýr að velferðarþjónustu, ráðgjöf og margþættum stuðningi til lengri tíma við þolendur og úrræði fyrir gerendur.

Fundinn sátu rúmlega 100 fulltrúar sem ræddu í hópum þessi þrjú hugtök út frá ýmsum hliðum.

Á fundinum tóku einnig til máls Ingibjörg Ragnheiður Linnet, fulltrúi ungmennaráðs Barnaheilla, og Þórhildur Elínardóttur Magnúsdóttir, fulltrúi ráðgjafahóps umboðsmanns barna, sem þökkuðu ráðuneytunum þremur fyrir að bjóða fulltrúum ungmenna til fundarins og minntu á 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um rétt barna til þess að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau.

Skýrslugjafar fundarins þau Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og og Þóra Jónsdóttir, lögfræðingur Barnaheilla, fluttu samantekt úr umræðum vinnuhópanna í lok fundarins.

Stýrihópur ráðuneytanna þriggja mun vinna úr niðurstöðum og ályktum fundarins og leggja drög að aðgerðaáætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess í íslensku samfélagi.

Fundargestir boðnir velkomnir
Fundargestir boðnir velkomnir
Slegið á létta strengi
Slegið á létta strengi
Öflugir þátttakendur
Öflugir þátttakendur
Setið á rökstólum
Setið á rökstólum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn