Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2016 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpar leiðtogafund í London til stuðnings Sýrlandi og nágrannaríkjum

Forsætisráðherra ávarpar leiðtogafund í London - mynd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði í gær leiðtogafund í London til stuðnings Sýrlandi og nágrannaríkjum. Í ávarpi forsætisáðherra kom fram að Íslands hyggst leggja 500 miljónir íslenskra króna til hjálparstarfs og uppbyggingar á svæðinu í ár, til viðbótar við 250 m.kr. framlag síðasta árs. Ráðstöfun fjármunanna er í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar og ráðherranefndar um málefni flóttamanna og innflytjenda um tveggja milljarða auka framlag til málaflokksins fyrir árin 2015-2016.

Forsætisráðherra lagði í ávarpi sínu áherslu á mikilvægi þess að ríki heims tækju höndum saman um að styðja myndarlega við nágrannaríki Sýrlands, m.a. til að styrkja innviði landanna og gera þeim kleift að búa vel að þeim mikla fjölda flóttamanna sem þangað leita og viðhalda stöðugleika á svæðinu sem þegar er brothættur. Þá sagði forsætisráðherra mikilvægt að stuðningur alþjóðasamfélagsins til nágrannaríkja Sýrlands veitti flóttafólki von um að geta snúið heim og byggt upp mannsæmandi líf að stríði loknu.

Í tengslum við leiðtogafundinn hittust forsætisráðherrar Norðurlanda á fundi þar sem fólksflutningavandinn var ræddur og þær áskoranir sem Norðurlöndin glíma við í tengslum við hann. Leiðtogarnir voru sammála um að mikilvægt væri að viðbrögð við vandanum hefðu ekki langvarandi áhrif á frjálsa för fólks milli Norðurlandanna og að Norðurlöndin þyrftu í auknum mæli að beita sér sameiginlega til lausnar vandanum.

Að leiðtogafundinum loknum tók forsætisráðherra þátt í kynningu í sendiráði Íslands í tilefni af því af íslenskt skyr verður tekið til sölu í 200 verslunum Waitrose í Bretlandi.

 
Blaðamannafundur forsætisráðherra Norðurlandanna í London

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum