Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2016 Dómsmálaráðuneytið

Ísland nær árangri í aðgerðum gegn peningaþvætti

Íslensk stjórnvöld eru talin hafa náð mikilvægum árangri í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með laga- og stjórnkerfisbreytingum. Þetta var staðfest í gær á fundi FATF (Financial Action Task Force), alþjóðlegs framkvæmdahóps sem sinnir úttektum og eftirliti á regluverki og starfsaðferðum aðildarríkja FATF á þessu sviði og hefur aðsetur hjá OECD.

Íslensk stjórnvöld eru talin hafa náð mikilvægum árangri í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með laga- og stjórnkerfisbreytingum. Þetta var staðfest í gær á fundi FATF (Financial Action Task Force), alþjóðlegs framkvæmdahóps sem sinnir úttektum og eftirliti á regluverki og starfsaðferðum aðildarríkja FATF á þessu sviði og hefur aðsetur hjá OECD.

Á fundinum var samþykkt að Ísland skuli ekki lengur vera á lista yfir ríki í eftirfylgni við þriðju úttekt eftir að hafa verið þar í tíu ár. Þóttu íslensk stjórnvöld hafa náð mikilvægum árangri í baráttunni gegn peningaþvætti. Innanríkisráðherra skipaði stýrihóp vorið 2015 í þeim tilgangi að vera stjórnvöldum til ráðgjafar og vinna að því að koma Íslandi út úr ofangreindu eftirfylgniferli. Þar sem íslensk stjórnvöld hafa náð þessum áfanga er ekki lengur hætta á að FATF gefi út yfirlýsingu um að ekki séu hér á landi fullnægjandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

FATF hefur aðsetur hjá OECD í París og eru 34 ríki og tvær svæðisbundnar stofnanir meðlimir. Ísland gekk til samstarfs við FATF í september 1991 og með inngöngu skuldbatt ríkið sig til að samræma löggjöf og starfsreglur að tilmælum FATF. Samstarf Íslands innan þessa framkvæmdahóps er talið mikils virði til þess að efla og viðhalda trausti á íslenskt fjármálakerfi og aðgerðum stjórnvalda gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

FAFT annast úttektir á lögum, reglum og starfsaðferðum og tekur saman skýrslur um aðgerðir sérhvers aðildarríkis. Finni FATF að framkvæmd ríkja eru gerðar athugasemdir og gefinn tiltekinn frestur til þess að bregðast við og þeim fylgt eftir. Bregðist ríki ekki við kröfum FATF um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hafa ríkin sammælst um að beita hvert annað þrýstingi eftir því sem við á.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum