Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 22/2015.  Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 10. febrúar 2015

í máli nr. 22/2015:

Sparri ehf.

gegn

Ríkiskaupum,

Isavia ohf. og

HUG-verktökum ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 3. nóvember 2015 kærði Sparri ehf. útboð Ríkiskaupa og Isavia ohf. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 20168 auðkennt „Endurbætur á þjónustuhúsi Isavia á Kef“. Kærandi krefst þess að ákvörðun varnaraðila um val á tilboði í hinu kærða útboði verði felld úr gildi og lagt verði fyrir varnaraðila að bjóða verkið út á nýjan leik. Jafnframt er þess krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila auk þess sem krafist er málskostnaðar.

          Varnaraðilum og HUG-verktökum ehf. var gefið tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við kæru. Með greinargerð 9. nóvember sl. kröfðust varnaraðilar þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Ekki bárust athugasemdir frá HUG-verktökum ehf. Andsvör bárust frá kæranda 10. desember 2015 og 2. janúar 2016.

          Með ákvörðun 18. nóvember sl. aflétti kærunefnd útboðsmála sjálfkrafa stöðvun hins kærða útboðs sem komist hafði á með kæru í máli þessu.

I

Í september 2015 buðu varnaraðilar út framangreint verk sem fólst í endurbótum og lagfæringum innan og utandyra á þjónustuhúsi Isavia ohf. á Keflavíkurflugvelli. Í grein 0.1.3 í útboðsgögnum var að finna eftirfarandi ákvæði:

„Bjóðandi skal hafa starfað við aðalverktöku á byggingarsviði í minnst 5 ár. bjóðandi skal leggja fram lista yfir unnin nývirki fyrir sambærileg verk síðastliðinn 5 ár og skal geta tengiliðs eigenda verkanna. [/] Bjóðandi skal hafa kunnáttu til að framkvæma prófanir á kerfunum og geta skilað af sér skýrum prófunarskýrslum. Bjóðandi skal í tilboði sínu nefna dæmi um slíka vinnu frá síðustu 5 árum. Við mat verkkaupa á hæfni og reynslu bjóðanda samkvæmt þessu ákvæði er verkkaupa heimilt að taka tillit til hæfni og reynslu eigenda, stjórnenda, lykilstarfsmanna, undirverktaka og sérstakra ráðgjafa bjóðanda af verklegum framkvæmdum og leggja slíka hæfni og reynslu að jöfnu við hæfni og reynslu bjóðandans sjálfs, þótt reynsla viðkomandi aðila hafi áunnist í öðru fyrirtæki en hjá bjóðanda.“

Samkvæmt grein 0.4.6 skyldi velja lægsta tilboðið sem bærist í útboðinu. Kærandi tók þátt í útboðinu auk HUG-verktaka ehf. og fleiri fyrirtækjum. Á opnunarfundi 6. október 2015 kom í ljós að HUG-verktakar ehf. áttu lægsta tilboðið en kærandi það næstlægsta. Hinn 26. október  2015 var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að velja tilboð HUG-verktaka ehf. í útboðinu.

II

Kærandi byggir á því að HUG-verktakar ehf. hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðsgagna um hæfi þar sem fyrirtækið hafi ekki starfað við aðalverktöku á byggingarsviði í minnst fimm ár. Af skráningarvottorði frá hlutafélagaskrá verði ráðið að félagið sé einungis tæplega fjögurra ára gamalt. Augljóst sé að hæfiskröfur útboðsgagna eigi við um bjóðanda sjálfan, en ekki starfsmenn þeirra. Í útboðsskilmálunum sé heimilt að taka tilliti til hæfni og reynslu starfsmanna, en ekki hvað varðar hæfi bjóðanda. Þá varði umrætt ákvæði útboðsgagna hæfni eða kunnáttu bjóðanda til að framkvæmda „prófanir á kerfum ...“ en ekki hæfi bjóðanda. Kærandi efist ekki um hæfni starfsmanna HUG-verktaka ehf., en ekki megi blanda saman hæfi og hæfni. Varnaraðilar hafi því brotið eigin útboðsskilmála með því að taka tilboði HUG-verktaka ehf. í útboðinu. Með því hafi þeir bakað sér bótaskyldu samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

III

Varnaraðilar byggja á því að það sé ákvörðun kaupanda hverju sinni hvað þurfi til að sýna fram á nægilega tæknilega getu eftir því sem nauðsynlegt sé vegna eðlis, umfangs, mikilvægis eða ætlaðrar notkunar verks. Varnaraðilar hafi talið nægilegt í þessu tilfelli að bjóðandi hefði 5 ára reynslu og við mat á þeirri reynslu væri heimilt að líta til reynslu/hæfni eigenda, stjórnenda, lykilstarfsmanna, undirverktaka og sérstakra ráðgjafa bjóðanda af verklegum framkvæmdum. HUG-verktakar ehf. hafi sýnt varnaraðilum fram á að þeir hefðu nægjanlega reynslu. Þau verk sem félagið hafi byggt tæknilega getu sína á og hefðu ekki verið unnin í tíð félagsins hafi verið á ábyrgð yfirstjórnanda félagsins, sem sé menntaður húsasmiður og hafi starfað sem slíkur alla sína tíð. Þau verk sem félagið byggi tæknilega getu sína á spanni verk allt frá árinu 2006 til dagsins í dag.

              Varnaraðilar byggja einnig á því að kærufrestur í máli þessu hafi verið liðinn við móttöku kæru. Kærandi sé í raun að kæra ákvæði útboðsgagna sem hann hafi fengið aðgang að 22. september 2015. Því hafi kæra borist að liðnum kærufresti samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga um opinber innkaup. Þá sé kröfu um bótaskyldu hafnað, þar sem kærandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni og ekkert brot verið framið.

IV

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun varnaraðila frá 26. október 2015 að velja tilboð HUG-verktaka ehf. í hinu kærða útboði, en kærandi byggir á því að fyrirtækið hafi ekki uppfyllt ákvæði útboðsgagna um hæfi. Verður því ekki fallist á það með varnaraðilum að kærufrestur í máli þessu hafi verið liðinn 3. nóvember 2015 er kærunefnd móttók kæruna.

          Samkvæmt 1. mgr. 50. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup er kaupanda heimilt að gera ýmis konar kröfur til tæknilegrar getu fyrirtækis. Í grein 0.1.3 í útboðsgögnum kemur fram að bjóðandi skuli hafa starfað við aðalverktöku á byggingarsviði í minnst fimm ár. Bar bjóðanda að leggja fram lista yfir unnin nývirki fyrir sambærileg verk síðastliðin fimm ár og geta tengiliðs eigenda verkanna. Í sama ákvæði var tekið fram að við mat á hæfni og reynslu bjóðanda samkvæmt ákvæðinu væri verkkaupa heimilt að taka tillit til hæfni og reynslu eigenda, stjórnenda, lykilstarfsmanna, undirverktaka og sérstakra ráðgjafa bjóðanda af verklegum framkvæmdum og leggja slíka hæfni og reynslu að jöfnu við hæfni og reynslu bjóðandans sjálfs, þótt reynsla viðkomandi aðila hefði áunnist í öðru fyrirtæki. Útboðsgögn voru því skýr um að heimilt væri að horfa til reynslu annarra aðila en þess fyrirtækis, sem lagði fram tilboð, við mat á því hvort viðkomandi krafa um tæknilega getu væri uppfyllt. Af fyrirliggjandi gögnum verður meðal annars ráðið að stjórnandi HUG-verktaka ehf. hafi meira en fimm ára reynslu af aðalverktöku á byggingarsviði. Að þessu virtu og með hliðsjón af framangreindu ákvæði útboðsgagna er það álit nefndarinnar að varnaraðilar hafi ekki brotið gegn útboðsskilmálum eða lögum um opinber innkaup með því að taka tilboði HUG-verktaka ehf. í hinu kærða útboði. Verður því að hafna öllum kröfum kæranda.  Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum kæranda, Sparra ehf., vegna útboðs nr. 20168 auðkennt „Endurbætur á þjónustuhúsi Isavia á Kef“, er hafnað.

            Málskostnaður fellur niður.

Reykjavík, 10. febrúar 2016

                                                                          Skúli Magnússon

                                                                          Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                          Auður Finnbogadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum