Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2016 Forsætisráðuneytið

Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands sameinuð

  • Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands sameinuð
  • Þjóðminjastofnun tekur við starfseminni
  • Faglegur ávinningur og umtalsverð hagræðing
  • Endurskipulagning verkaskiptingar, ferla og skipulag verkefna
  • Þjóðminjasafnið verður áfram til sem höfuðsafn
  • Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að auka skilvirkni stjórnsýslunnar.

Stýrihópur á vegum forsætisráðherra um endurskipulagningu verkefna Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands hefur skilað af sér frumvarpi til laga þar sem lagt er til að Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands verði sameinuð í eina stofnun, Þjóðminjastofnun, þó þannig að Þjóðminjasafnið verði áfram til sem höfuðsafn og að um það gildi sérlög enda þótt það falli undir hina nýju stofnun. Samhliða er lagt til að verkefni laga um menningarminjar sem lúta að frið· lýsingu húsa og mannvirkja og afnám slíkrar friðlýsingar færist til forsætisráðuneytisins, sem og verkefni Minjastofnunar Íslands samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð.

Í frumvarpinu er að finna ýmsar breytingar á lögum um menningarminjar sem lúta að því að styrkja umgjörð málaflokksins. Varða breytingarnar einkum fyrirkomulag leyfisveitinga vegna fornleifarannsókna ásamt því að aldursfriðun forngripa, húsa og mannvirkja er bundin við ártal í stað árafjölda. Þá er hlutverk ráðgjafarnefnda skilgreint nákvæmar, friðuðum húsum og mannvirkjum sköpuð aukin vernd og hlutverk húsafriðunarsjóðs útvíkkað og það látið ná til verndarsvæða í byggð.

Fyrir skömmu undirritaði forsætisráðherra samning um varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands til að tryggja bestu aðstæður fyrir þessa grunnstarfsemi þjóðminjavörslunnar. Í setrinu verða kjöraðstæður til varðveislu þjóðminja og vel búin starfsaðstaða til rannsókna, forvörslu, sýningaundirbúnings og kennslu á fagsviði Þjóðminjasafnsins sem er höfuðsafn á sviði menningarminja.

Gert er ráð fyrir að rekstrargjöld stofnananna lækki umtalsvert við sameininguna. Með breytingum skapist tækifæri á að endurskipuleggja verkaskiptingu, ferla og skipulag verkefna Er það skoðun stýrihópsins að óhætt sé að setja það fjárhagslega markmið með sameiningunni að nýrri stofnun takist að ná allt að 10% hagræðingu innan þriggja ára. 
Stýrihópurinn var skipaður af forsætisráðherra í nóvember síðastliðnum og var sett þau markmið að skoða og gera tillögur um leiðir að endurskipulagningu stofnanakerfisins sem skilað gæti faglegum ávinningi og skýrari verkaskiptingu sem auki möguleika málaflokksins til að sinna hlutverki sínu og bregðast við breyttum og auknum kröfum til starfseminnar auk rekstrarlegrar hagræðingar sem slíkar breytingar hafa í för með sér. Miðar frumvarpið að því að ná þessum markmiðum á næstu þremur árum.

Í hópnum áttu sæti Sigurður Örn Guðleifsson, settur skrifstofustjóri í forsætis· ráðuneytinu, formaður, Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður og Stefán Thors, húsameistari ríkisins. Með starfshópnum störfuðu einnig Esther Anna Jóhannsdóttir frá Minjastofnun Íslands og Guðmundur Lúther Hafsteinsson frá Þjóðminjasafni Íslands sem fulltrúar starfsmanna.

Ráðgjafar frá ráðgjafarfyrirtækinu Capacent unnu könnun á fýsileika einstakra sameiningarkosta og fjárhagsgreiningu þeim tengdum fyrir stýrihópinn. Þá hefur ráðgjafarfyritækið einnig komið að gerð samrunaáætlunar vegna fyrirhugaðrar sameiningar í samstarfi við ráðuneytið og stofnanirnar tvær.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum