Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Soffía Lárusdóttir nýr forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins

Soffía Lárusdóttir - mynd

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að skipa Soffíu Lárusdóttur í embætti forstöðumanns Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Þriggja manna hæfnisnefnd mat Soffíu hæfasta úr hópi umsækjenda. Skipað er í embættið til fimm ára í samræmi við lög um stofnunina nr. 83/2003.

Soffía er þroskaþjálfi að mennt en hefur einnig stundað viðbótarnám í þroskaþjálfafræðum, opinberri stjórnsýslu og stjórnun og lokið diplómanámi í menntunarfræðum. Allt frá því að Soffía lauk námi frá Þroskaþjálfaskóla Íslands árið 1982 hefur hún unnið að málefnum fatlaðs fólks og um langt árabil sinnt stjórnunarstörfum.

Frá árinu 2011 hefur Soffía verið framkvæmdastjóri búsetudeildar Akureyrarbæjar. Áður var hún framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi á árunum 1992–2011, framkvæmdastjóri Svæðisstjórnar málefna fatlaðra á Austurlandi 1988–1992 og forstöðumaður Vonarlands, þjónustumiðstöðvar þroskaheftra á Egilsstöðum, á árunum 1985–1988. Fyrir þann tíma starfaði Soffía m.a. sem þroskaþjálfi á Kópavogshæli, Sólborg á Akureyri og um eins árs skeið á heimili fyrir geðfatlaða í Sandvika í Noregi.

Í umsögn þriggja manna nefndar sem ráðherra fól að meta hæfni umsækjenda segir m.a. að Soffía hafi helgað starfsferil sinn málefnum fatlaðra. Hún hafi yfirgripsmikla og fjölþætta þekkingu af málaflokknum og sé þrautreyndur stjórnandi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum