Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mál nr. 19/2015

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 19. febrúar 2016 í máli nr. 19/2015.
Fasteign: Birtingaholt […], Hrunamannahreppi, fnr. […].
Kæruefni: Fasteignamat.

Árið 2016, 19. febrúar, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 19/2015 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með erindi, dags. 29. desember 2015, kærði A, kt. […], ákvörðun Þjóðskrár Íslands um fasteignamat Birtingaholts […], fnr. […], fyrir árið 2015. Krefst kærandi þess að yfirfasteignamatsnefnd endurmeti fasteignamat eignarinnar til hækkunar frá því sem ákveðið var af hálfu Þjóðskrár Íslands þann 28. ágúst 2015.

Í kæru kemur fram að um sumarið 2015 hafi verið stofnuð 2450 fermetra eignarlóð er tilheyri einbýlishúsinu að Birtingaholti […], fnr. […] og að fram hafi farið landskipti o.fl. í tengslum við stofnun lóðarinnar. Hin nýja eign, þ.e. einbýlishúsið ásamt tilheyrandi eignarlóð hafi verið skráð sem Birtingaholt […], fnr. […]. Kærandi kveðst hafa óskað eftir endurmati á fasteignamati eignarinnar með hliðsjón af fyrrgreindri breytingu. Þann 28. ágúst 2015 hafi Þjóðskrá Íslands tilkynnt kæranda um nýtt fasteignamat eignarinnar.

Yfirfasteignamatsnefnd barst fyrirspurn frá kæranda í tölvubréfi, dags. 30. september 2015, þess efnis hvort nefndin teldi hægt að breyta fasteignamati Birtingaholts […] þar sem kærandi teldi fyrirliggjandi fasteignamat eignarinnar alltof lágt. Með tölvubréfi til kæranda, dags. 13. október 2015, var óskað eftir því að fá skriflega kæru frá kæranda ásamt rökstuðningi og nauðsynlegum gögnum svo málið gæti fengið efnislega meðferð hjá nefndinni. Þann 22. desember 2015 tilkynnti kærandi yfirfasteignamatsnefnd að hann hygðist láta reyna á málið fyrir nefndinni. Líkt og áður greinir sendi kærandi síðan formlega kæru til nefndarinnar vegna fasteignamats Birtingaholts […], fnr. […], með bréfi, dags. 29. desember 2015.

Niðurstaða

Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun Þjóðskrár Íslands var tekin þann 28. ágúst 2015 þegar stofnunin tilkynnti kæranda um nýtt fasteignamat á fasteign hans að Birtingaholti […], fnr. […].  Í fyrrgreindri tilkynningu Þjóðskrár Íslands til kæranda kom fram að ef óskað væri eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni þyrfti beiðni þess efnis að berast Þjóðskrá Íslands innan 14 daga frá móttöku tilkynningarinnar. Þá kom einnig fram í tilkynningunni að frestur til endurupptöku ákvörðunarinnar væri einn mánuður í samræmi við ákvæði 3. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og þá væri jafnframt hægt að beiðast endurmats fasteignamats með vísan til 1. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001 skal Þjóðskrá Íslands hlutast til um að allar nýjar eða breyttar eignir, sem upplýsingar berast um samkvæmt 19. gr. sömu laga, skuli metnar frummati innan tveggja mánaða frá því að upplýsingar um þær berast Þjóðskrá Íslands nema sérstakar ástæður hamli.

Í 1. mgr. 31. gr. laganna kemur fram að aðili, sem verulega hagsmuni geti átt í matsverði eignar og sættir sig ekki við skráð mat samkvæmt 29. og 30. gr., geti krafist nýs úrskurðar Þjóðskrár Íslands um matið.  Krafa um slíkt endurmat skal vera skrifleg og studd rökum og nauðsynlegum gögnum.  Þá kemur fram í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 6/2001 að hagsmunaaðilar geti kært niðurstöðu endurmats samkvæmt 1. mgr. 31. gr. sömu laga til yfirfasteignamatsnefndar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins fékk kærandi tilkynningu um nýtt fasteignamat, dags. 28. ágúst 2015. Í þeirri tilkynningu kom meðal annars fram að um væri að ræða „nýtt“ fasteignamat og að hægt væri að beiðast endurmats þess. Þá liggur fyrir að samkvæmt 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 6/2001 er byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags ábyrgur fyrir því að Þjóðskrá Íslands berist upplýsingar um lönd, lóðir og mannvirki svo og um breytingar á þeim, sem gerðar eru í umdæmi hans. Fyrir liggur að stofnuð var ný lóð undir umrætt einbýlishús kæranda og var hin breytta eign skráð sem Birtingaholt […], fnr. […]. Samkvæmt fyrrnefndri 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001 skulu allar nýjar eða breyttar eignir metnar frummati. Breytir engu þar um þótt kærandi hafi sjálfur óskað eftir því fasteignamati í tilefni af þeirri breytingu sem gerð var á eigninni og í framhaldinu verið í samskiptum við Þjóðskrá Íslands eftir að nýtt fasteignamat lá fyrir. Með hliðsjón af framansögðu er það niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar að hin kærða ákvörðun Þjóðskrá Íslands frá 28. ágúst 2015 hafi verið frummat á fasteign kæranda og verður ekki séð að endurmat samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laganna á áðurnefndri eign hafi farið fram. Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands um frummat eigna sæta ekki kæru til yfirfasteignamatsnefndar. Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá yfirfasteignamatsnefnd.

Úrskurðarorð

Kæru A, vegna fasteignamats Birtingaholts […], fnr. […], er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

__________________________________

Hulda Árnadóttir

 

 ______________________________           ________________________________

   Ásgeir Jónsson                                  Björn Jóhannesson 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn