Hoppa yfir valmynd
18. mars 2016 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Langtímaáætlun um uppbyggingu ferðamannasvæða sett af stað

Í Skaftafelli
Í Skaftafelli

Alþingi samþykkti í dag ný lög um gerð landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Í kjölfar samþykktar Alþingis mun Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra setja vinnu af stað sem miðar að því að móta stefnu á ferðamannasvæðum með skipulögðum hætti til lengri tíma.

Þetta er í fyrsta sinn hér á landi sem unnið er að heildstæðri áætlun sem nær yfir allt landið og er markmið laganna að móta stefnu, samræma og forgangsraða tillögum um slíka uppbyggingu og viðhaldi ferðamannsvæða, ferðamannastaða og ferðamannaleiða á Íslandi. Lögin skapa umgjörð um stefnumótun á sviði uppbyggingar innviða og verndar náttúru og menningarsögulegra minja á áningarstöðum ferðamanna á Íslandi með það að leiðarljósi til þess að draga úr álagi vegna nýtingar í þágu ferðamennsku.

Slík uppbygging þarf ávallt að hafa náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi, enda er náttúran sú auðlind sem ferðaþjónustan byggir. Mikilvægt er að hafa yfirsýn yfir þau verkefni sem þarf að vinna, skilgreina fjárþörf, forgangsraða verkefnum, fylgja á eftir framkvæmdum, tryggja hagkvæmni og vinna að skilgreiningu nýrra svæða. Það eru verkefni eins og að fyrirbyggja skemmdir, merkja leiðir, byggja göngustíga, göngubrýr, hreinlætisaðstöðu og fleira. Þannig er stuðlað að vernd náttúrunnar ásamt bættri upplifun og öryggi fólks á ferð um landið, enda hefur fjöldi ferðamanna vaxið gífurlega á undanförnum árum með tilheyrandi álagi á náttúru Íslands og menningarminjar.

Lögin gera ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðherra, í samráði við þá ráðherra er fara með ferðamál, þjóðlendumál og menningarminjamál vinni þriggja ára verkefnaáætlanir og tillögur til þingsályktunar um stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára. Jafnframt verður skipuð ráðgafarnefnd fjölmargra hagsmunasamtaka og stofnana.

Vinna við áætlunina hefst strax og byggir á fyrirliggjandi vinnu. Ráðherra er ætlað, innan sex mánaða frá samþykkt laganna, að leggja fram og birta opinberlega bráðabirgðaæáætlun um uppbyggingu innviða.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum