Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Mælti fyrir lagafrumvörpum um stofnun millidómstigs

Ólöf Nordal innanríkisráðherra mælti í dag fyrir tveimur lagafrumvörpum á Alþingi í því skyni að komið verði á millidómstigi hér á landi sem nefnt yrði Landsréttur. Málin ganga nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd þingsins.

Með frumvarpi til laga um dómstóla er annars vegar lagður grundvöllur að stofnun millidómstigs hér á landi þannig að dómstigin verði þrjú, þ.e. héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur, en hins vegar gerðar verulegar breytingar á stjórnsýslu dómstólanna með þeim hætti að sameiginleg stjórnsýsla allra þriggja dómstiga er færð undir nýja stofnun á vegum dómstólanna. Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála eru lagðar til viðamiklar breytingar á meðferð mála fyrir dómi sem leiða af stofnun millidómstigs.

Lagabreytingarnar hafa verið í undirbúningi um alllangt skeið og hefur innanríkisráðuneytið átt víðtækt samráð vegna málsins. Við endanlega gerð frumvarpanna var þannig haft samráð við rýnihóp skipuðum fulltrúum Hæstaréttar Íslands, dómstólaráðs, Dómarafélags Íslands, Lögmannafélags Íslands og ríkissaksóknara og við réttarfarsnefnd. Þá voru frumvörpin kynnt á vef innanríkisráðuneytisins auk þess sem þau voru send öllum fagfélögum lögfræðinga o.fl. sérstaklega til umsagnar. Umsagnir bárust frá Ákærendafélagi Íslands, dómstólaráði, Félagi löglærðra aðstoðarmanna dómara, Lögmannafélagi Íslands, Lögreglustjórafélagi Íslands og réttarfarsnefnd. Í umsögnunum var almennt lýst ánægju með frumvörpin en af hálfu dómstólaráðs og Félags löglærða aðstoðarmanna dómara að auki gerðar minniháttar athugasemdar við nokkur ákvæði þess.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira