Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 1/2016

Hinn 3. mars 2016 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 1/2016:

Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmáls nr. Y-4/2014;

Gunnar Árnason

gegn

Íslandsbanka hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:


I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 29. janúar 2016, fór Gunnar Árnason þess á leit að héraðsdómsmál nr. Y-4/2014, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. apríl 2015, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. Y-4/2014 var kröfu endurupptökubeiðanda hafnað um að felld yrði úr gildi aðfarargerð sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum án árangurs  að kröfu gagnaðila. Var fjárnámsbeiðnin studd við tryggingabréf sem Hald ehf. gaf út til Byrs sparisjóðs, sem nú hefur runnið saman við gagnaðila. Skuldin var tryggð með veði í fasteign Halds ehf. að Miðskógum 8 á Álftanesi en endurupptökubeiðandi og tveir aðrir einstaklingar gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar. Vegna vanskila á skuldabréfinu var eignin seld nauðungarsölu. Kaupandi var gagnaðili sem taldi sig ekki hafa fengið kröfu sinni fullnægt með söluverðinu og krafðist því aðfarar hjá endurupptökubeiðanda fyrir því sem hann taldi eftir standa af skuldbindingunni að teknu tilliti til verðmats sem hann lét framkvæma. Héraðsdómur féllst ekki á að endurupptökubeiðanda hefði tekist að hnekkja umræddu mati með nýju mati sem hann aflaði en það verðmat var talið vera haldið slíkum annmörkum að það yrði ekki lagt til grundvallar. Öðrum málsástæðum endurupptökubeiðanda var einnig hafnað. Kröfu endurupptökubeiðanda um ógildingu aðfarargerðar, sem gerð var án árangurs hjá honum, var hafnað og gerðin staðfest.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vera fullnægt til endurupptöku málsins. Í fyrsta lagi byggir endurupptökubeiðandi kröfu sína um endurupptöku á því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um,  sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Telur endurupptökubeiðandi að verðmat sem hann aflaði hafi verið sniðgengið og réttar forsendur því ekki verið lagðar til grundvallar. Í öðru lagi byggir endurupptökubeiðandi kröfu sína um endurupptöku á því að dómari málsins í héraði hafi verið vanhæfur til úrlausnar þess vegna persónulegra tengsla við formann stjórnar Persónuverndar en eiginkona endurupptökubeiðanda hafi átt hlut að öðru máli sem hafi verið til meðferðar hjá stofnuninni. Í ljósi þessa telur endurupptökubeiðandi að ný gögn verði til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. áskilnað b-liðar 1. mgr. 1. mgr. 167. gr. Að lokum byggir endurupptökubeiðandi kröfu sína á að um stórfellda hagsmuni sé að ræða, sbr. c-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, þar sem gagnaðili hafi farið fram á að bú endurupptökubeiðanda og eiginkonu hans verði tekin til gjaldþrotaskipta.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXVI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laganna getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt.  Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Endurupptökubeiðni er studd við 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála og lýtur að endurupptöku á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 21. apríl 2015.  Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 168. gr. laganna segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Endurupptökubeiðandi byggir á því að héraðsdómur hafi ekki tekið undir sjónarmið hans um að leggja bæri til grundvallar verðmat sem hann hafði aflað á verðmæti fasteignar sem seld hafði verið nauðungarsölu. Fjárnámsgerð sú sem endurupptökubeiðandi krafðist ógildingar á fyrir dómi hafi lotið að kröfu gagnaðila sem hafi numið ógreiddum eftirstöðvum þeirrar veðskuldar sem nefnd lóð hafi verið seld til fullnustu á en hann hafi verið ábyrgðarmaður þeirrar skuldar. Telur endurupptökubeiðandi þannig að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt, að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það. Í dómi héraðsdóms var tekin afstaða til þeirra gagna sem endurupptökubeiðandi fjallar um í beiðni um endurupptöku sem og annarra gagna og upplýsinga sem lágu fyrir þegar málið var til úrlausnar fyrir dómi. Kröfum endurupptökubeiðanda byggðum á þeim málsástæðum var hafnað meðal annars þar sem talið var að fyrrnefnt verðmat sem endurupptökubeiðandi hefði aflað væri haldið slíkum göllum að ekki yrði byggt á því. Þar sem héraðsdómur tók afstöðu til málatilbúnaðar endurupptökubeiðanda í þessum efnum verður ekki talið að fullnægt sé skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. um að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar fyrir dómi.

Þau gögn sem endurupptökubeiðandi teflir fram og telur uppfylla skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um að sterkar líkur séu leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, lúta að meintu vanhæfi héraðsdómara. Það vanhæfi er sagt grundvallast á persónulegum tengslum dómarans við formann stjórnar Persónuverndar og aðildar eiginkonu endurupptökubeiðanda að máli sem leyst hefði verið úr á vettvangi Persónuverndar. Málsatvik nefnds máls hjá stofnuninni tengjast endurupptökubeiðanda ekki auk þess sem engin rök eru færð fram til stuðnings staðhæfingu um persónuleg tengsl dómara málsins við formann stjórnar Persónuverndar, sem er að auki með öllu ótengd sakarefni máls þessa. Nefnd gögn og staðhæfingar endurupptökubeiðanda um vanhæfi fullnægja því ekki áskilnaði laga, að vera líkleg til að leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Að framansögðu er ljóst að skilyrðum a- og b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er ekki fullnægt og skortir því á að öllum skilyrðum a-c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt eins og áskilið er. Gerist því ekki þörf á að fjalla um c-lið 1. mgr. 167. gr. laganna. Er beiðni um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. Y-4/2014 því bersýnilega ekki á rökum reist. Er henni því synjað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

Úrskurðarorð

Beiðni Gunnar Árnasonar um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. Y-4/2014, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. apríl 2015, er hafnað.

Björn L. Bergsson formaður

 

Elín Blöndal

 

Þórdís Ingadóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn