Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 111/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 111/2016

Miðvikudaginn 20. apríl 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. mars 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. september 2014, um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kæranda var tilkynnt um að hún hefði fengið ofgreiddar bætur frá Tryggingastofnun á árunum 2011 til 2013 með bréfum, dags. 20. júlí 2012, 22. júlí 2013 og 21. júlí 2014. Kærandi óskaði eftir niðurfellingu skuldar sinnar með umsókn til Tryggingastofnunar, dags. 3. september 2014. Með bréfi, dags. 30. september 2014, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda að umsókn hennar um niðurfellingu endurgreiðslukröfu hafi verið synjað á þeim grundvelli að krafan væri réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður væru ekki talin vera fyrir hendi. Einnig segir í bréfinu að endurgreiðslu eftirstöðva krafna í innheimtu, að fjárhæð 448.118 kr., sé dreift þannig að rafrænir greiðsluseðlar að fjárhæð 12.448 kr. verði sendir mánaðarlega í heimabanka kæranda í 36 mánuði.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. mars 2016.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því í kæru til úrskurðarnefndarinnar að hún hafi sótt um örorkulífeyri árið 1997 að læknisráði eftir að hafa verið veik í X ár og ekkert geta unnið. Hún hafi þegið bætur til ársins 1999 en hafi þá getað unnið hálfan daginn, þrátt fyrir veikindin. Henni hafi í framhaldinu tekist að auka vinnuhlutfall sitt ár frá ári og hafi unnið 100% vinnu frá árinu 2002. Eftir að börn kæranda hafi náð átján ára aldri hafi Tryggingastofnun krafið hana um endurgreiðslur, þrátt fyrir að börnin búi enn heima hjá henni og fái fæði því þau séu í háskólanámi. Samtals hafi Tryggingastofnun endurkrafið kæranda um 1.066.123 kr. frá árinu 2011 til og með árinu 2013 og hafi hún þegar endurgreitt 772.576 kr. Hún óski eftir niðurfellingu á eftirstöðvum kröfu frá árinu 2013 að fjárhæð 279.761 kr. Laun hennar hafi ekkert breyst frá árinu 2009 fyrir utan lögbundnar launahækkanir. Árið 2013 hafi Tryggingastofnun byrjað að greiða kæranda örorkulífeyri án þess að hún hafi óskað eftir því og telji hún að um mistök hafi verið að ræða af hálfu stofnunarinnar. Hún hafi oft haft samband við Tryggingastofnun vegna málsins en hvorki fengið svör né leiðréttingu. Hún hafi sótt um niðurfellingu ofgreiðslukröfunnar hjá samráðsnefnd Tryggingastofnunar en fengið synjun. Það sé þröngt í búi en hún eigi 60.000 kr. á mánuði eftir af launum sínum fyrir mat fyrir sig og dóttur sína.

III.  Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. september 2014, á beiðni kæranda um um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar og um tímalengd kærufrests.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. mars 2016 en þá var kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar löngu liðinn.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmlega sautján mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þann 30. september 2014 og þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 18. mars 2016.  Þegar af þeirri ástæðu skal kæru ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993. Kæru er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem kærufrestur er liðinn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála


Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum