Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 121/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála


Mál nr. 121/2016

Miðvikudaginn 20. apríl 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. mars 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, dags. 9. desember 2015.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 23. júní 2015. Með örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. desember 2015, var umsókn kæranda synjað en honum metinn örorkustyrkur tímabundið frá 1. ágúst 2015 til 30. nóvember 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 29. mars 2016.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því í kæru til úrskurðarnefndarinnar að ástæður þess að hann hafi ekki kært innan kærufrests séu margþættar. Þegar hann hafi lent í slysinu, sem sótt hafi verið um örorkulífeyri vegna, hafi kona hans brotnað niður andlega og hún hafi verið meira og minna óvinnufær síðan þá. Fyrir hafi hún verið með […]. Sótt hafi verið um endurhæfingarlífeyri fyrir hana síðastliðið haust en gögn hennar hafi týnst hjá Tryggingastofnun. Á sama tíma hafi hann fengið tilkynningu um að hann fengi aðeins örorkustyrk. Þau hafi gengið í gegnum mikið andlegt áfall yfir öllu þessu, tekjulaus með X börn og jólin á næsta leiti. Eftir áramót hafi tekið við endalaus veikindi allra fjölskyldumeðlima sem staðið hafi fram í miðan febrúar. Kona kæranda sé orðin ófrísk af X barni þeirra hjóna og hún þurfi því að vera lyfjalaus sem margfaldi erfiðleika og flækjur þeirra hjóna, sem séu nægar fyrir.

Um áramótin hafi X sonur þeirra þurft að skipta um skóla vegna félagslegra erfiðleika sem líklega eigi sér orsök af […]. X af X börnum þeirra hjóna séu í […] og mikið álag sé á fjölskyldunni svo að ekki sé talinn tíminn sem fari í alls konar viðtöl, læknisheimsóknir og ráðgjöf. X barn þeirra hjóna sé með […] og einnig mjög slæmt af […]. Það hafi komið fyrir að það sé frá skóla þegar […] séu sem verstir. Eins og sjá megi sé gífurlegt álag á fjölskyldunni og stundum geti fólk ekki meira og eitthvað mikilvægt sitji þá á hakanum. Í starfsgetumati VIRK hafi komið fram að kærandi sé óvinnufær og flest önnur gögn styðji það mat. Þetta sé ekki það hlutskipti sem hann myndi velja sér sjálfur. 

III.  Niðurstaða

Kært er örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. desember 2015.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 29. mars 2016 en þá var kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar liðinn.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Samkvæmt gögnum málsins liðu þrír mánuðir og tuttugu dagar frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þann 9. desember 2015 og þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 29. mars 2016. Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 9. desember 2015 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar og um tímalengd kærufrests. Í kæru, sem barst úrskurðarnefndinni þann 29. mars 2016, eru gefnar skýringar á því hvers vegna kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þar kemur meðal annars fram að mikið álag hafi verið á fjölskyldu kæranda og erfiðar aðstæður hafi verið heima fyrir þar sem veikindi hafi herjað á þau auk mikils andlegs álags.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru ástæður kæranda, er varða veikindi og álag á heimili, ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Skýringar kæranda gefa ekki til kynna að hann hafi ekki verið fær um að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar innan kærufrests. Í ljósi þess telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993.  


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum