Velferðarráðuneytið

Mál nr. 252/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 252/2015

Miðvikudaginn 20. apríl 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. september 2015, kærði B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. júní 2015, um endurupptöku á örorkumati, dags. 5. mars 2009.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, móttekinni 12. nóvember 2014, óskaði kærandi eftir afturvirkum greiðslum örorkulífeyris en hann hefur þegið örorkulífeyrisgreiðslur frá 1. nóvember 2008. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 5. júní 2015, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru mál ekki tekin upp á nýjan leik ef meira en ár væri liðið frá þeirri ákvörðun sem óskað væri endurupptöku á nema veigamiklar ástæður mæltu með því. Þá kom fram að krafa kæranda væri hugsanlega fyrnd.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 4. september 2015. Með bréfi sama dag óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. september 2015, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar sama dag var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Viðbótargögn bárust frá kæranda með bréfi, dags. 15. september 2015, og voru þau send Tryggingastofnun til kynningar með bréfi sama dag. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 22. september 2015, og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann krefjist þess að afgreiðsla Tryggingastofnunar, dags. 5. júní 2015, um synjun á endurupptöku á örorkumati, verði hrundið.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið metinn til örorku frá 1. nóvember 2008 til 28. febrúar 2012. Matið hafi síðar verið framlengt. Kærandi hafi óskað eftir því við Tryggingastofnun að hann fengi greitt tvö ár aftur í tímann en honum hafi verið synjað um það þann 5. júní 2015. Kærandi sé ósáttur við þá ákvörðun stofnunarinnar. Hann hafi verið með sjúkdóm til margra ára sem leitt hafi til þess að hann sé með ónýtar […]. Hann hafi því verið óvinnufær í mörg ár fyrir örorkumat Tryggingastofnunar. Hann hafi ekki óskað eftir því að fá örorkubætur fyrir þann tíma þar sem hann hafi ekki vitað af rétti sínum til þess að sækja um greiðslur tvö ár aftur í tímann. Honum hafi aldrei verið kynntur sá réttur af stofnuninni. Í dag búi hann við umtalsverða fötlun sem hafi hrjáð hann frá barnæsku en […] hafi horfið þegar hann hafi verið X ára gamall. Félagslegar og fjárhagslegar aðstæður undanfarinna ára hafi gert kæranda erfitt fyrir en hann eigi erfitt með að ferðast og hreyfa sig vegna meðfædds skaða á báðum […].

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann hafi verið óvinnufær frá árinu X. Hann hafi tapað heilsunni, fyrirtæki sínu og konu sinni. Hann eigi gamlan bíl sem sé kominn til ára sinna og búi í C. Allt hafi hann misst í kjölfar veikinda sinna. Hann hefði sótt um bætur tvö ár aftur í tímann ef hann hefði vitað af þeim möguleika.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi fengið greiddan örorkulífeyri frá 1. nóvember 2008. Kæranda hafi verið tilkynnt um afgreiðslu umsóknar um örorkulífeyri með bréfi stofnunarinnar, dags. 10. mars 2009. Í því bréfi hafi kæranda verið bent á að heimilt væri að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Einnig hafi það komið fram í bréfi stofnunarinnar, dags. 13. mars 2009, þar sem kæranda hafi verið kynnt greiðsluáætlun fyrir árið 2009.

Fram kemur að kærandi hafi skilað inn umsókn til stofnunarinnar þann 12. nóvember 2014. Umsóknin hafi þó ekki verið afgreidd fyrr en á vormánuðum 2015. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 5. júní 2015, hafi stofnunin synjað kæranda um endurupptöku á örorkumati. Synjunin hafi meðal annars verið byggð á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar komi fram að mál séu ekki tekin upp á nýjan leik ef meira en ár sé liðið frá þeirri ákvörðun sem óskað sé endurupptöku á nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þá sé jafnframt hugsanlegt að krafa kæranda sé fyrnd, en réttur á einstökum mánaðarlegum greiðslum lífeyris almannatrygginga fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, sbr. 6. gr. sömu laga.

Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar eigi þeir rétt á örorkulífeyri sem uppfylli tiltekin skilyrði. Tryggingastofnun meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur ásamt því að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga komi fram að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Í 1. mgr. 53. gr. laganna komi fram varðandi lífeyristryggingar að bætur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Í 2. mgr. 53. gr. laganna sé sérstaklega fjallað um greiðslu bóta aftur í tímann. Þar segi að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg séu til þess að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berist stofnuninni.

Í samræmi við ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga séu mál ekki tekin upp á nýjan leik ef meira en ár sé liðið frá þeirri ákvörðun sem óskað sé endurupptöku á nema veigamiklar ástæður mæli með því. Ekki sé um slíkar ástæður að ræða í máli þessu sem réttlæti að taka mál kæranda upp að nýju þar sem meira en sex ár séu liðin frá því að kæranda hafi verið tilkynnt um upphafstíma örorkumatsins. Það sé því niðurstaða Tryggingastofnunar að ákvörðun um að synja kæranda um endurupptöku á örorkumati kæranda hafi verið réttmæt. Upphafstími örorkumats sé réttilega ákvarðaður frá 1. nóvember 2008.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. júní 2015, um endurupptöku örorkumats frá 5. mars 2009.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga er svo hljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: 

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Endurupptökubeiðni kæranda lýtur að örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. mars 2009. Beiðni um endurupptöku barst Tryggingastofnun tæplega sex árum síðar eða 12. nóvember 2014 og því þurfa veigamiklar ástæður að vera fyrir hendi svo að unnt sé að endurupptaka málið, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Á grundvelli örorkumatsins fékk kærandi greiddan örorkulífeyri frá upphafstíma örorkumatsins þann 1. nóvember 2008. Kærandi gerði enga athugasemd við gildistíma örorkumatsins fyrr en þann 12. nóvember 2014 þegar hann óskaði eftir afturvirkum örorkulífeyrisgreiðslum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda reiknast fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi sem kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Samkvæmt 3. gr. laganna er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. Sá frestur gildir um einstakar gjaldfallnar örorkulífeyrisgreiðslur, sbr. 3. málsl. 6. gr. laganna. Með vísan til þess er krafa kæranda um greiðslu örorkulífeyris aftur í tímann fyrnd. Þegar af þeirri ástæðu að krafan er fyrnd verður ekki tekið til skoðunar hvort veigamiklar ástæður mæli með því að Tryggingastofnun taki örorkumat kæranda til endurskoðunar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um endurupptöku örorkumats frá 5. mars 2009.  

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. júní 2015 um endurupptöku á örorkumati A, frá 5. mars 2009, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn