Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkir gerð íslensk- franskrar veforðabókar

Í gær var undirritaður samningur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Háskóla Íslands, f.h. Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, um fjárframlag úr ríkissjóði til gerðar íslensk - franskrar veforðabókar.
IMG_9743

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum vinnur að gerð íslensk – franskrar veforðabókar, sem verður öllum aðgengileg á netinu, notendum að kostnaðarlausu. Rík þörf er talin vera á slíkri orðabók til að styðja við frönskukennslu í framhaldsskólum landsins og auðvelda samskipti milli Frakka og Íslendinga.  Stofnunin mun í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og aðra samsamstarfsaðila, inna af hendi orðfræðilega vinnu við samanburð á íslensku og frönsku. ISLEX-orðagrunnurinn sem þróaður hefur verið af Stofnun Árna Magnússonar mun að mestu leyti liggja til grundvallar orðabókinni.

Stofnun Vigdísar fer með verkefnisstjórn og ber ábyrgð á framkvæmd verksins, leggur til sérfræðinga sem hafa þekkingu og reynslu sem nýtist við verkið og greiðir allan kostnað af framkvæmd þess. Fyrirhugað er að verklok verði í árslok 2018. Framlag ríkisins til verkefnisins verður 19 m.kr. sem skiptist þannig: 7 m.kr. árið 2016, 7 m.kr. árið 2017 og 5 m.kr. árið 2018.

Samningurinn var undirritaður af Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra, Vigdísi Finnbogadóttur f.v. forseta Íslands, Jón Atla Benediktssyni rektor Háskóla Íslands og Guðrúnu Nordal forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum