Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samráðsfundur um menningarmál

Árlegur samráðsfundur mennta- og menningarmálaráðherra og Bandalags íslenskra listamanna var haldinn í gær
IMG_9755

Samkvæmt venju var farið yfir helstu málefni sem varða starfsvettvang listamanna í félögum innan Bandalags íslenskra listamanna og aðkomu ríkisins að listum og öðrum menningarmálum. Í yfirliti Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra ræddi hann fyrst nýjan sjóð til að styrkja hljóðritanir. Stofnun hans var meðal tillagna starfshóps um sóknartækifæri íslenskrar tónlistar og tónlistarflytjenda, sem ráðherra skipaði á síðasta ári. Mikið var rætt um kvikmyndamál og því fagnað að Ríkisútvarpið mun auka fjárveitingar sínar til framleiðslu íslensks efnis í samvinnu við sjálfstæða framleiðendur. Einnig var rætt um baráttuna fyrir því að jafna hlutfall kvenna og karla í kvikmyndagerð og ráðherra greindi frá að á því yrði meðal annars tekið í fyrirhuguðu samkomulagi um kvikmyndamál. Bandalagið benti á að niðurskurður á útvarpsgjaldi og tekjum Ríkisútvarpsins hefði bein áhrif á kjör fjölda listamanna sem ekki lengur væru ráðnir til starfa í einstök verkefni þar.

Höfundaréttarmál og gjöld á tæki sem geta tekið upp efni var rætt út frá mörgum hliðum. Listamenn bentu á að þessar tekjur hefðu rýrnað mjög mikið undanfarin ár enda kaupa fáir geisladiska og kassettutæki nú á dögum. Í nokkrum ríkjum hefur verið farin sú leið að leggja þessi gjöld af og stofna í staðinn sjóð sem kemur að einhverju leyti til móts við tekjutap listamanna. Annars staðar hefur þeim tækjaflokkum verið fjölgað sem gjöld eru tekin af, t.d. af tölvum og farsímum. Með auknu streymi á efni í stað þess að hlaða það niður flækist málið enn frekar því þá greiða notendur fyrir afnot af t.d. tónlistinni og þá vaknar spurningin um hvort rétt sé að greiða tvisvar gjald af notkuninni, þ.e. fyrst með álagi á verð tækisins og síðan með áskrift að streyminu. Af hálfu ráðuneytisins kom fram að meðan enn eru svo mörg óleyst álita- og úrlausnarmál í þessu efni er eðlilegt að það taki tíma að komast að niðurstöðu.

Margvísleg önnur málefni voru til umræðu, eins og t.d. barnamenningarmál, „Bókmenntalandið Ísland“, samstarf á vettvangi Íslandsstofu, listamannlaun og fyrirhuguð lög um sviðslistir. Í máli ráðherra og Kolbrúnar Halldórsdóttur forseta BÍL kom fram ánægja með fundinn og undirstrikað mikilvægi þess að eiga samráð og samtal af þessu tagi.

IMG_9757

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum