Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 72/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 72/2015

Fimmtudaginn 28. apríl 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. nóvember 2015, kærir A, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. október 2015, um að fella niður bótarétt hennar frá og með 28. október 2015 í tvo mánuði og endurkrefja hana um ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins frá 3. til 10. september 2015 með 15% álagi.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 10. ágúst 2015 og var umsóknin samþykkt á fundi stofnunarinnar þann 10. september 2015.

Með bréfi, dags. 15. október 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hún hefði verið stödd erlendis í september 2015 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt um það til stofnunarinnar. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Skýringar og afrit af flugfarseðli bárust með tölvupósti þann 15. október 2015.

Með bréfi, dags. 28. október 2015, var kæranda tilkynnt um að bótaréttur hennar yrði felldur niður frá og með 28. október 2015 í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hún hefði ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um dvöl hennar erlendis. Kæranda var einnig tilkynnt um að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 3. til 10. september 2015 samtals að fjárhæð 36.353 kr. með 15% álagi sem yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 13. nóvember 2015. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 12. janúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. janúar 2016, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar, um niðurfellingu bóta í tvo mánuði og endurkröfu ofgreiddra bóta, verði felld úr gildi.

Kærandi greinir frá því í kæru að hún hafi skráð sig hjá Vinnumiðlun um miðjan ágúst 2015 í þeirri von að fá starf við sitt hæfi og verið í framhaldinu boðuð til starfsleitarfundar þann 17. september 2015. Samkvæmt umsókn kæranda hafi hún haft tök á að hefja störf frá og með 1. september 2015. Á sama tíma hafi kærandi sótt um atvinnuleysisbætur.

Með tölvupósti, dags. 21. ágúst, þar sem óskað hafi verið gagna frá kæranda, hafi henni verið tilkynnt að umsóknarferli um atvinnuleysisbætur væri fjórar til sex vikur eftir að umbeðin gögn hefðu borist. Að fengnum þessum upplýsingum hafi kærandi talið sig mega ráða að hún myndi ekki njóta bóta fyrr en að þeim tíma liðnum og hafi því tekið boði um utanlandsferð í viku fyrir […]. Því sé ekki mótmælt af hálfu kæranda að hún hafi dvalið erlendis á tímabilinu frá 3. september til 10. september 2015.

Með bréfi, dags. 3. september, hafi kæranda verið tilkynnt að afgreiðslu umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið frestað og óskað eftir frekari gögnum. Kærandi hafi afhent öll umbeðin gögn og verið tilkynnt með bréfi, dags. 10. september, að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt með 78% bótahlutfalli. Bótahlutfall hennar hafi svo verið hækkað í 100% með ákvörðun sem tilkynnt hafi verið með bréfi, dags. 22. september.

Með bréfi, dags. 15. október, hafi verið óskað upplýsinga frá kæranda um það hvort hún hefði dvalið erlendis í september á sama tíma og hún hefði notið atvinnuleysisbóta. Við þessu hafi kærandi brugðist samdægurs með því að senda afrit farseðils síns þar sem fram hafi komið hvenær hún hafi ekki verið á landinu. Þá hafi kærandi áréttað að ekki hefði verið búið að samþykkja umsókn hennar þegar hún hafi farið af landi brott og hún hafi ekki heldur farið á kynningarfund hjá stofnuninni um rétt sinn og skyldur varðandi þetta.

Kæranda hafi verið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við framangreindar ákvarðanir fyrir septembermánuð allan með greiðslu, dags. 28. október 2015, og fyrir októbermánuð þann 2. nóvember. Þann 28. október 2015 hafi svo verið tekin sú ákvörðun sem kærandi krefjist nú ógildingar á.

Kærandi byggir á því að ákvörðun Vinnumálastofnunar fái ekki staðist lög. Kærandi hafi staðið í góðri trú um að ekki væri búið að taka ákvörðun um greiðslur henni til handa á þeim tíma sem hún hafi ákveðið að fara í vikufrí til útlanda. Öll bréf og gögn sem hún hafi fengið frá stofnuninni í tengslum við umsókn hennar hafi efnislega borið með sér að ákvörðun um rétt hennar yrði ekki tekin fyrir fyrr en eftir margar vikur. Í ljósi þess hafi kærandi talið að sér væri óhætt að fara í þessa ferð, enda útséð um að hún myndi njóta bóta fyrr en eftir að ákvörðun hefði verið tekin og kærandi hafi sömuleiðis talið að greiðslutímabil bóta myndi miðast við ákvörðunardag.

Þá liggi fyrir að kærandi hafi fyrst verið upplýst um skyldur til að upplýsa t.d. um ferðir sínar af landi brott á fundi þann 17. september, þ.e. viku eftir að hún hafi verið komin heim aftur. Af þessum ástæðum telji kærandi sýnt að ekki hafi verið fyrir að fara ásetningi af hennar hálfu til þess að njóta bóta umfram réttindi þar um, né hafi hún getað vitað með hvaða hætti ákvörðun Vinnumálastofnunar um rétt hennar hefði verið tekin, þ.e. að stofnunin myndi greiða bætur aftur í tímann eins og raun beri vitni. Að mati kæranda verði stofnunin sjálf að bera ábyrgð á því með hvaða hætti hún standi að greiðslum sem þessum og þá standi upp á stofnunina að tryggja að umsækjendur bóta séu upplýstir strax þegar umsókn sé skilað um þær reglur og skyldur sem lög áskilji fyrir bótagreiðslum og sömuleiðis frá hvaða degi umsækjendur séu bundnir af þeim reglum. Það hafi ekki verið gert í tilviki kæranda og því verði ekki á þeim byggt, enda fari þetta ráðslag gegn almennum reglum stjórnsýsluréttar um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá byggi kærandi á því að ekki hafi verið tilefni til þess af hálfu Vinnumálastofnunar að greiða henni atvinnuleysisbætur á því tímabili sem um ræði. Stofnunin og kærandi hafi verið í sambandi þann 15. okóber 2015. Það sé því staðreynd að kærandi hafi eigi síðar en þá upplýst um dvöl sína í útlöndum dagana 3. september til 10. september. Vinnumálastofnun hafi því verið kunnugt um það þrettán dögum áður en stofnunin hafi greitt út þær bætur sem nú sé krafist endurgreiðslu á. Að mati kæranda hafi stofnunin því haft alla möguleika á því að afturkalla samþykki fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til handa kæranda fyrir þessa daga og láta ógert að greiða fyrir þetta tímabil. Það hafi stofnunin hins vegar ekki gert heldur greitt bætur fyrir tímabilið þvert á þær upplýsingar sem hafi legið fyrir og kærandi hafi staðfest áður en til greiðslunnar hafi komið. Kærandi hafi upplýst um þetta atvik áður en til greiðslunnar hafi komið og því geti ákvæði 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar ekki átt við um tilvik þetta.

Í hvorugu því bréfi, sem kæranda hafi verið send til staðfestingar á samþykki á bótarétti hennar, sé vikið að því frá hvaða degi greiðslur muni miðast. Af þeim sökum hafi kærandi ekki haft sérstakt tilefni til þess að upplýsa um ferðina, enda í góðri trú um að ekki hafi verið búið að taka ákvörðun um rétt hennar í þessu efni. Til þess beri að líta í þessu samhengi að kærandi sé ekki löglærð og því sé ekki hægt að gera þá kröfu að hún þekki til hlítar ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, enda standi upp á Vinnumálastofnun sem stjórnvald að upplýsa og leiðbeina umsækjendum hverju sinni um rétt þeirra og skyldur samkvæmt stjórnsýslulögum og almennum reglum stjórnsýsluréttar þannig að viðhafðir séu góðir stjórnsýsluhættir. Upp á það skorti í verulegum atriðum í máli kæranda.

Að framangreindu virtu telji kærandi sýnt að ekki hafi verið tilefni til þess að líta svo á að hún hafi látið hjá líða að veita umbeðnar upplýsinar eða annað sem kynni að hafa áhrif á rétt hennar til bóta og því hafi ekki verið tilefni til þess að taka ákvörðun í máli hennar á grundvelli 59. gr laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun um synjun bóta og endurkröfu hafi því verið að ólögum.

Hvað varði kröfu um endurgreiðslu úr hendi kæranda sérstaklega sé því mótmælt að stofnuninni sé í ljósi atvika tækt að gera þá kröfu, enda hafi Vinnumálastofnun fengið staðfestingu á fjarveru kæranda þrettán dögum áður en til greiðslunnar hafi komið. Sá tími hafi átt að nægja stofnuninni til þess að breyta forsendum greiðslunnar og að mati kæranda geti stofnunin ekki byggt á því að sjálfvirkni eða ósjálfvirkni „kerfisins“ sé svo mikil að ekki verði við ráðið. Þvert á móti beri að mati kæranda að líta svo á að greiðsla fyrir tímabilið frá 3. september til 10. september hafi verið innt af hendi af hálfu stofnunarinnar fyrir mistök hennar sjálfrar en ekki vegna skorts á upplýsingum frá kæranda eða vegna þess að þær upplýsingar hafi ekki legið fyrir.

Stofnuninni hafi borið að gæta þess að ákvarðanir væru ekki teknar nema að rannsökuðu máli og á grundvelli réttra forsendna, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Allar staðreyndir málsins hafi legið fyrir þann 15. október en Vinnumálastofnun hafi allt að einu greitt kæranda bætur umfram skyldu þann 28. október, sama dag og sama stjórnvald hafi tekið íþyngjandi ákvörðun um endurkröfu þeirrar sömu greiðslu með álagi. Það fái að mati kæranda ekki staðist og ekki verði við unað. Forsendur endurgreiðslukröfu á grundvelli 59. gr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, skorti því í þessu tilviki og því beri að hrynda hinni kærðu ákvörðun. Á sama hátt og með sömu rökum byggi kærandi á því sérstaklega að aldrei hafi verið tilefni til þess að leggja 15% álag á endurgreiðslukröfuna, enda verði slíks álags ekki krafist ef hinn tryggði færi rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar, sbr. lokamálslið 2. mgr. 39. gr. laganna. Skilningur kæranda að þessu leyti sé í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7484/2013 og vísað sé til þess. Þá byggir kærandi á reglum um endurgreiðslur ofgreidds fjár en endurgreiðslukröfur launa og greiðslna sem ætlaðar séu til lífsviðurværis verði ekki hafðar uppi nema viðtakandi hafi verið í vondri trú er hann hafi þegið greiðsluna. Sú hafi ekki verið raunin í þessu tilviki.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að ákvörðun um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þá vísar Vinnumálastofnun til c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Vinnumálastofnun vísar einnig til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um upplýsingarskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar.

Stofnunin bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því, er hafi orðið að lögum nr. 37/2009 til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, komi meðal annars fram að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar eða veiti rangar upplýsingar komi til álita að beita viðurlögum samkvæmt 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun áréttar að einnig sé mælt fyrir um þessa upplýsingarskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Vinnumálastofnun bendir á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið sé á um viðurlög við brotum á upplýsingarskyldu hins tryggða. Þá segir að ljóst sé að kærandi hafi verið stödd erlendis á tímabilinu frá 3. til 10. september 2015. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta að vera í virkri atvinnuleit. Það sé jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um utanlandsferð sína, líkt og henni hafi borið samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þá segir að í rökstuðningi sínum fyrir kæru hafi kærandi bent á að á þeim tíma sem hún hafi farið til útlanda hafi umsókn hennar um atvinnuleysisbætur ekki verið samþykkt og öll bréf og gögn sem hún hafi fengið frá stofnuninni í tengslum við umsókn hennar hafi bent til þess að ákvörðun um rétt hennar yrði ekki tekin fyrr en eftir margar vikur. Í ljósi þess hafi kærandi talið að sér væri óhætt að fara í umrædda utanlandsferð.

Það sé ljóst að réttindi og skyldur atvinnuleitenda samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar stofnist frá og með umsóknardegi, enda séu atvinnuleysisbætur greiddar frá og með umsóknardegi samkvæmt 29. gr. laganna. Á því tímabili sem atvinnuleitandi fái greiddar atvinnuleysisbætur beri honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar breytingar á högum sínum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006, þar á meðal ferðir sínar utanlands. Atvinnuleitendum beri því að uppfylla allar sínar skyldur við Vinnumálastofnun á þeim tíma sem beðið sé úrskurðar um bótarétt.

Þá geti Vinnumálastofnun ekki fallist á það með kæranda að henni hafi ekki verið leiðbeint nægilega um tilkynningarskyldu sína. Með tölvupósti, sem sendur hafi verið til kæranda þann 21. ágúst 2015, hafi kærandi verið hvött til þess að lesa sér til um réttindi og skyldur atvinnuleitanda á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi enn fremur verið upplýst um að henni bæri að tilkynna til Vinnumálastofnunar um allar breytingar sem yrðu á högum hennar og ef hún hefði í hug að fara til útlanda þá þyrfti að tilkynna um það til stofnunarinnar og skila farseðlum innan þriggja virkra daga frá heimkomu. Þá vekur stofnunin athygli á að þegar rafrænni umsókn um greiðslu atvinnuleysisbóta sé skilað þá sé umsækjendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar með talið að tilkynna beri um ferðir erlendis. Þá þurfi umsækjendur að staðfesta í lok umsóknarferlisins að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi og skyldur umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Meðal gagna í máli þessu sé meðal annars umræddur hluti umsóknar sem kærandi hafi sannanlega staðfest að hafa kynnt sér.   

Í máli þessu liggi fyrir að kæranda hafi látið það hjá líða að tilkynna til Vinnumálastofnunar um utanlandsferð sína líkt og henni hafi borið. Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt þann 10. september 2015. Kærandi hafi mætt á starfsleitarfund Vinnumálastofnunar þann 17. september 2015. Á starfsleitarfundum Vinnumálastofnunar sé vakin athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi og að ótilkynntar ferðir til útlanda séu óheimilar meðfram töku atvinnuleysistrygginga. Þessar upplýsingar sé einnig að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Í skýringarbréfi sínu til Vinnumálastofnunar, dags. 15. október 2015, greini kærandi frá því að hún hafi fyrst á starfsleitarfundi Vinnumálastofnunar fengið upplýsingar um það að henni bæri að tilkynna til Vinnumálastofnunar um ferðir erlendis. Engu að síður hafi kærandi ekki upplýst Vinnumálstofnun um að hún hefði farið til útlanda. Kærandi hafi fyrst upplýst um ferð sína þegar stofnunin hafi innt eftir upplýsingum með bréfi, dags. 15. október 2015.

Að öllu framangreindu virtu sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er hafi haft bein áhrif á rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, 5. október 2015, í samræmi við 59. gr. laga nr. 54/2006. Þá beri henni enn fremur að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 3. til 10. september 2015, samtals 36.535 kr. með 15% álagi. Í kæru sinni til Vinnumálastofnunar vísi kærandi til þess að ekki hafi verið tilefni fyrir Vinnumálastofnun til að greiða kæranda þær atvinnuleysisbætur sem nú sé krafist endurgreiðslu á þar sem kærandi hafi upplýst um ferð sína erlendis þann 15. október 2015, eða 13 dögum áður en stofnunin hafi greitt út bæturnar. Ljóst sé að Vinnumálastofnun hafi greitt út þær atvinnuleysisbætur sem endurgreiðslu sé krafist á þann 1. október 2015, eða 15 dögum áður en kærandi hafi upplýst stofnunina um ferð sína erlendis. Vinnumálastofnun fái því ekki séð hvernig þessi málsástæða eigi að hafa áhrif á endurgreiðslukröfu í máli þessu. Þá fallist Vinnumálastofnun ekki á fella skuli niður það álag sem lagt hafi verið á skuld kæranda með vísan til 3. málsl. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 þar sem ekki verði séð að tilurð skuldar kæranda megi rekja til ástæðna er varði Vinnumálastofnun.   

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur meðal annars að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hljóðar svo:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Þetta ákvæði þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af því að samkvæmt c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu að vera búsettur og staddur hér á landi.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 10. ágúst 2015 og var umsóknin samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar þann 10. september 2015. Þá er óumdeilt að kærandi var erlendis á tímabilinu frá 3. til 10. september 2015, en tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrir fram um ferð sína. Réttindi og skyldur atvinnuleitenda samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar stofnast almennt frá og með umsóknardegi, enda eru atvinnuleysisbætur almennt greiddar frá umsóknardegi samkvæmt 29. gr. laganna. Í tilviki kæranda tilgreindi hún hins vegar í umsókn um bætur að hún gæti ekki hafið störf fyrr en 1. september 2015 og því fékk hún einungis greitt frá þeim tíma. Á því tímabili sem atvinnuleitandi fær greiddar atvinnuleysisbætur ber honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar breytingar á högum sínum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar á meðal ferðir sínar til útlanda. Kæranda bar því að tilkynna Vinnumálastofnun um ferð sína til útlanda þann 3. september 2015.

Af hálfu kæranda kemur fram að hún hafi ekki vitað að hún mætti ekki fara til útlanda án þess að tilkynna það. Byggt er á því að þar sem kæranda hafi verið tilkynnt með tölvupósti þann 21. ágúst 2015 að umsóknarferli um atvinnuleysisbætur væri fjórar til sex vikur eftir að umbeðin gögn hefðu borist hafi hún talið að hún myndi ekki njóta bóta fyrr en að þeim tíma liðnum og hafi því tekið boði um utanlandsferð í viku. Vinnumálastofnun hafi ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem kærandi hafi ekki verið upplýst um frá hvaða degi hún hafi verið bundin af reglum um réttindi og skyldur atvinnuleitenda.

Í framangreindum tölvupósti frá 21. ágúst 2015 er kærandi upplýst um að þar sem fram kæmi í umsókn hennar að hún gæti hafið störf frá og með 1. september 2015 myndi umsókn hennar miðast við þá dagsetningu. Þá kemur fram að tilkynna þurfi Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir til útlanda. Í umsóknarferlinu, þegar sótt er um atvinnuleysisbætur með rafrænni umsókn, er umsækjendum bent á að áður en þeir sæki um atvinnuleysisbætur sé nauðsynlegt að þeir kynni sér nánar tilteknar reglur um réttindi og skyldur umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Í reglunum kemur meðal annars fram að hún verði alltaf að láta Vinnumálastofnun vita áður en hún fari til útlanda. Þá segir að hún þurfi að staðfesta atvinnuleit þrátt fyrir að ekki sé búið að staðfesta eða afgreiða umsókn hennar. Þá staðfesti kærandi í lok ferlisins að hún hefði kynnt sér upplýsingar um réttindi og skyldur umsækjanda um atvinnuleysisbætur.

Það er vissulega rétt að Vinnumálastofnun virðist hvergi hafa tilgreint nákvæmlega frá hvaða tíma kærandi hafi verið bundin af reglum um réttindi og skyldur atvinnuleitenda. Hins vegar vegar telur úrskurðarnefnd velferðarmála að framangreindar upplýsingar hafi gefið til kynna að hún væri bundin frá 1. september 2015. Meðal annars hafi komið fram að umsókn hennar myndi miðast við 1. september 2015. Þá segir að reglurnar um réttindi og skyldur eigi við umsækjendur um atvinnuleysisbætur og með orðalaginu er gefið til kynna að umsækjendur eigi að fylgja reglunum óháð því hvort umsóknin verði samþykkt. Einnig er tekið fram að umsækjendum beri að staðfesta atvinnuleit, þrátt fyrir að umsókn hafi ekki verið afgreidd en það er eitt af skyldum atvinnuleitenda líkt og skyldan um að tilkynna um ferðalög.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi mátt vita, eða að minnsta kosti hafi haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsingar um skyldur sínar, að hún yrði að tilkynna Vinnumálastofnun um ferð sína til útlanda þrátt fyrir að umsókn hennar hefði ekki verið afgreidd. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að Vinnumálastofnun hafi ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu atvinnuleitenda, sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í umrætt sinn er hún hélt af landi brott án þess að láta vita af því fyrirfram. Því bar Vinnumálastofnun að láta hana sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fortakslaust en í því felst að hvorki Vinnumálastofnun né úrskurðarnefnd velferðarmála getur tekið ákvörðun um vægari viðurlög í máli kæranda en ákvæðið felur í sér.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur vegna tímabilsins sem hún var erlendis, þ.e. frá 3. til 10. september 2015, með 15% álagi.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Þegar kærandi var erlendis í september 2015 uppfyllti hún ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að atvinnuleitanda beri að vera búsettur og staddur hér á landi. Því krefst Vinnumálastofnun endurgreiðslu á ofgreiddum bótum vegna þess tímabils, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna. Kærandi byggir hins vegar á því að hún hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur vegna september 2015 fyrr en þann 28. október 2015. Þar sem kærandi hafi upplýst Vinnumálastofnun um dvöl sína erlendis þann 15. október 2015 hafi stofnunin ekki haft tilefni til að greiða henni bætur fyrir allan septembermánuð þann 28. október 2015. Því beri að ógilda ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra bóta.

Af 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verður ráðið að atvinnuleitanda beri að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar bætur óháð því hver sé orsök ofgreiðslunnar. Hins vegar skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í gögnum málsins liggur fyrir greiðsluseðill frá Vinnumálastofnun þar sem fram kemur að stofnunin hafi greitt kæranda bætur vegna september 2015 þann 1. október 2015. Kærandi fékk því greitt fyrir septembermánuð 2015 áður en hún upplýsti um utanlandsferð sína. Því verður ekki fallist á að kæranda verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til ofgreiðslukröfu Vinnumálastofnunar.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða skuld sína við Vinnumálastofnun með 15% álagi. Þá ber stofnuninni að láta hana sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, í máli A, um að fella niður bótarétt kæranda frá og með 28. október 2015 í tvo mánuði og endurkrefja hana um ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 36.353 kr. með 15% álagi, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum