Velferðarráðuneytið

Mál nr. 250/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 250/2015

Miðvikudaginn 4. maí 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 4. september 2015, kærði B stjórnsýslufræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. september 2015 um greiðslu barnalífeyris beint til kæranda.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 24. júlí 2015, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda um að stofnunin hefði afgreitt barnalífeyri með börnum hans frá 1. júlí 2015 til 31. janúar 2017. Þá segir í bréfinu að samkvæmt 4. mgr. 64. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé heimilt að láta barnalífeyri ganga upp í fyrirframgreitt meðlag sem Tryggingastofnun hafi milligöngu um að greiða. Ekki sé um ræða beinar greiðslur til kæranda þar sem barnalífeyririnn yrði skuldfærður á móti meðlagi sem honum bæri að greiða. Umboðsmaður kæranda óskaði eftir því við Tryggingastofnun þann 30. júlí 2015 að barnalífeyririnn yrði greiddur kæranda beint en ekki skuldajafnaður við meðlagsgreiðslur. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 3. september 2015, var beiðni um greiðslu barnalífeyris beint til kæranda synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 4. september 2015. Með bréfi, dags. 7. september 2015, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 22. september 2015. Með bréfi, dagsettu sama dag, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá greiddan barnalífeyri í stað þess að honum sé skuldajafnað við meðlagsgreiðslur.

Í kæru kemur fram að kærandi sé örorkulífeyrisþegi. Þá segir að hann sé jafnframt umgengnisforeldri X barna og fari með sameiginlega forsjá með barnsmóður sinni. Hann taki ríkan þátt í uppeldi barna sinna og framfærsluskyldur hans nái langt út fyrir meðlagsgreiðslur. Óskað hafi verið eftir því að kærandi fengi greiddan barnalífeyri með börnum sínum, enda sé framfærsluskylda hans skýr samkvæmt barnalögum. Tryggingastofnun hafi hins vegar synjað beiðninni með bréfi, dags. 3. september 2015. Kærandi telji rökin fyrir synjun stofnunarinnar vera gölluð þar sem þau taki ekki tillit til framfærsluskyldu kæranda, sem gangi út fyrir meðlagsskyldu og nái einnig til umgengnisskyldu kæranda. Kærandi bendir í þessu sambandi á að samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis beri stjórnvöldum að taka tillit til þess að umgengnisforeldrar séu með börn á framfæri.

Í 2. mgr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003 komi fram að foreldri sem barn búi ekki hjá eigi í senn rétt og beri skyldu til að rækja umgengni við barn sitt. Kærandi telji að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, krefjist þess að umgengnisforeldri sem hafi jafna forsjá og jafna umgengni, fái greiddan út barnalífeyri með sambærilegum hætti.

Þá bendir kærandi á að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi í úrskurði frá 13. maí 2008, talið að Tryggingastofnun hafi heimild en ekki skyldu til þess að greiða út barnalífeyri til handa umgengnisforeldri í stað þess að skuldajafna við meðlagsgreiðslur. Kærandi telji að úrskurðarnefndin hafi ekki tekið til greina skýra framfærsluskyldu barnalaga um áhrif hinnar almennu jafnræðisreglu við ákvarðanatöku Tryggingastofnunar í sambærilegum málum. Kærandi telji stofnunina ekki hafa litið til jafnræðisreglunnar og ekki sinnt rannsóknarreglu sinni við töku ákvörðunar í máli kæranda.

Kærandi bendir á að skyldubundið mat hvíli einnig á Innheimtustofnun sveitarfélaga, sem hafi heimild til að taka tillit til aðstæðna kæranda við meðlagsgreiðslur. Ómálefnalegt sé að Tryggingastofnun svipti kæranda því mati, sem hann eigi sannanlega rétt á hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið synjað um greiðslu barnalífeyris beint til sín en Tryggingastofnun hafi samþykkt að láta barnalífeyri kæranda ganga upp í fyrirframgreitt meðlag.

Þá segir að samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en átján ára, ef annað hvort foreldra sé látið eða örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. síðustu þrjú árin áður en umsókn hafi verið lögð fram.

Í 4. mgr. 64. gr. almannatryggingalaga segi að þegar svo hátti til að Tryggingastofnun hafi milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laganna og hið meðlagsskylda foreldri öðlist rétt til barnalífeyris samkvæmt 20. gr. laganna vegna barnsins sé stofnuninni heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Þá verði ekki um kröfu að ræða á hendur meðlagsskyldum aðila fyrir það tímabil.

Tryggingastofnun hafi með bréfi, dags. 24. júlí 2015, samþykkt að láta barnalífeyri sem kærandi hafi átt rétt á, ganga upp í fyrirframgreitt meðlag sem stofnunin hafi milligöngu um að greiða til barnsmóður kæranda með þremur börnum frá 1. júlí 2015. Því hafi stofnunin synjað kæranda um greiðslu barnalífeyrisins beint til hans með bréfi, dags. 3. september 2015.  

Ofangreind 4. mgr. 64. gr. almannatryggingalaga sé hugsuð til hagræðis fyrir alla sem að greiðslu og innheimtu meðlaga komi. Framkvæmd sú sem lagaákvæðið mæli fyrir um feli í sér að krafa vegna meðlags sé ekki send Innheimtustofnun sveitarfélaga til innheimtu. Jafnframt geri ákvæðið ráð fyrir því að það fyrri einstakling ekki meðlagsskyldu að vera metinn til örorku. Tryggingastofnun líti því svo á að beita beri þeirri heimild sem lagaákvæðið feli í sér í öllum tilvikum sem þess sé kostur, eins og gert hafi verið í tilviki kæranda. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi í tveimur kærumálum staðfest beitingu ákvæðis 4. mgr. 64. gr. almannatryggingalaga, annars vegar í úrskurði nr. 267/2004 og hins vegar í úrskurði nr. 74/2008. 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. september 2015, þar sem kæranda var synjað um greiðslu barnalífeyris beint til sín. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að láta barnalífeyri, sem kærandi á rétt til, ganga upp í fyrirframgreitt meðlag sem stofnunin hefur milligöngu um til barnsmóður kæranda.

Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003 getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Samkvæmt 4. mgr. 64. gr. laganna er heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils þegar svo háttar til að Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslu með barni samkvæmt  1. mgr. 63. gr. og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris vegna barnsins.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi. Þá segir í 5. mgr. 20. gr. laganna að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða öðrum þeim sem annist framfærslu þeirra að fullu, sbr. þó 4. mgr. 64. gr. laganna. Kærandi sem er 75% öryrki á rétt á greiðslu barnalífeyris, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar.

Samkvæmt gögnum málsins undirritaði kærandi samkomulag um sameiginlega forsjá og meðlagsgreiðslur hjá Sýslumanninum í Reykjavík þann X. Þar kemur fram að hann greiði móður barna þeirra einfalt meðlag frá 1. febrúar 2011 til átján ára aldurs. Tryggingastofnun ríkisins hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur með börnum kæranda samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Með hliðsjón af því er stofnuninni heimilt að láta greiðslur barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils, sbr. 4. mgr. 64. gr. laganna. Í samræmi við það verður ekki gerð krafa á hendur kæranda sem meðlagsskyldum aðila fyrir sama tímabil.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er mikið hagræði fólgið í því fyrir innheimtuaðila að geta skuldajafnað greiðslum þegar greiðslur fara um hendur sama aðila. Kærandi byggir hins vegar á því að Innheimtustofnun sveitarfélaga hafi heimild til þess að taka tillit til aðstæðna kæranda við meðlagsgreiðslur og ómálefnalegt sé að Tryggingastofnun svipti kæranda því mati. Úrskurðarnefndin bendir á að heimild Tryggingastofnunar til að láta greiðslur barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags sé skýr. Einnig sé tilgangur barnalífeyrisgreiðslna að framfæra börn örorkulífeyrisþega eða látinna einstaklinga og því sé eðlilegt að greiðslurnar fari til framfæranda samkvæmt samkomulagi um meðlagsgreiðslur óháð aðstæðum meðlagsgreiðanda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, um að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags fyrir sama tímabil, staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu barnalífeyris beint til A.


F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn