Velferðarráðuneytið

Mál nr. 286/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 286/2015

Miðvikudaginn 4. maí 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 5. október 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. júlí 2015 um upphafstíma greiðslu barnalífeyris.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 23. júní 2015, sótti kærandi um barnalífeyri með dóttur sinni. Með bréfi, dags. 6. júlí 2015, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda um að stofnunin hefði afgreitt barnalífeyri með barni hans frá 1. júlí 2013 til 14. apríl 2016. Kærandi óskaði eftir því þann 21. september 2015 að hann fengi greiddan barnalífeyri lengra aftur í tímann en frá 1. júlí 2013 á þeim grundvelli að Tryggingastofnun hafi ekki kynnt honum réttindi hans fyrr en löngu eftir að hann hafi átt rétt á þeim. Með tölvupósti þann 29. september 2015 var beiðni kæranda synjað með þeim rökum að stofnuninni væri ekki heimilt að greiða barnalífeyri lengra en tvö ár aftur í tímann.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 5. október 2015. Með bréfi, dags. 14. október 2015, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 29. október 2015. Með bréfi, dags. 30. október 2015, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann krefjist þess að fá greiddan barnalífeyri lengra en tvö ár aftur í tímann.

Kærandi kveðst gera alvarlegar athugasemdir við afgreiðslu Tryggingastofnunar á umsókn hans um barnalífeyri. Hann telji stofnunina ekki hafa sinnt upplýsingaskyldu sinni samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, þá sérstaklega 37. gr. þeirra. Fyrir vikið hafi hann orðið af hundruðum þúsunda króna, sem hann hefði annars fengið úthlutað samkvæmt ótvíræðum rétti sínum. Tryggingastofnun hafi hins vegar synjað honum um greiðslu barnalífeyris lengra aftur í tímann en tvö ár. Því hafi hann orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna vanrækslu stofnunarinnar sem hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé upphafstími greiðslna barnalífeyris.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. júlí 2015, hafi verið samþykkt að láta barnalífeyri með barni kæranda ganga upp í fyrirframgreitt meðlag sem stofnunin hafi átt milligöngu um að greiða til barnsmóður kæranda frá 1. júlí 2013. Kærandi hafi óskað eftir greiðslu barnalífeyris lengra aftur í tímann.

Samkvæmt 3. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar geti Tryggingastofnun ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega, svo og með barni manns sem sæti gæsluvist eða afpláni fangelsi, enda hafi vistin varað í að minnsta kosti þrjá mánuði. Í reglum Tryggingaráðs frá 3. desember 1999 komi fram í 2. gr. að heimild til greiðslu barnalífeyris með barni ellilífeyrisþega sé bundin því skilyrði að viðkomandi njóti lífeyris.

Í 4. mgr. 64. gr. almannatryggingalaga segi að þegar svo hátti til að Tryggingastofnun hafi milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laganna og hið meðlagsskylda foreldri öðlist rétt til barnalífeyris samkvæmt 20. gr. laganna vegna barnsins sé stofnuninni heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Þá verði ekki um kröfu að ræða á hendur meðlagsskyldum aðila fyrir það tímabil.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar sé umsækjanda rétt og skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur og greiðslur.

Í 52. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og að umsóknir skuli vera á þar til gerðum eyðublöðum. Þá komi fram í 2. mgr. 53. gr. sömu laga að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því umsókn hafi borist.

Fram kemur að kærandi  hafi sótt um ellilífeyri sjómanna með umsókn, dags. 12. júlí 2011 og umsókn hans hafi verið samþykkt frá 1. apríl 2011. Í bréfi til kæranda, dags. 9. ágúst 2011, hafi kæranda verið tilkynnt að hann ætti ekki rétt á greiðslum vegna tekna. Kærandi hafi þegið greiðslu ellilífeyris frá 1. júlí 2013. Á umsókn kæranda hafi komið fram að heimilt sé að greiða barnalífeyri með börnum ellilífeyrisþega að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og umsækjendum sé bent á að fylla út umsókn um greiðslur vegna barna. Sú skylda sé því lögð á bótaþega að hann leiti eftir rétti sínum.

Kærandi hafi hins vegar ekki sótt um barnalífeyri með dóttur sinni fyrr en með umsókn, dags. 23. júní 2015. Með bréfi, dags. 6. júlí 2015, hafi umsókn kæranda um barnalífeyri verið samþykkt tvö ár aftur í tímann, eða frá 1. júlí 2013. Þar sem kærandi sé meðlagsskyldur með dóttur sinni og Tryggingastofnun annist um milligöngu meðlagsins til barnsmóður hans hafi verið ákveðið að barnalífeyrir hans myndi ganga til fyrirframgreiðslu meðlagsins frá þeim tíma.

Kærandi telji sig eiga rétt á greiðslu barnalífeyris lengra aftur í tímann þar sem upplýsingaskylda Tryggingastofnunar um rétt kæranda til barnalífeyris hafi verið vanrækt.

Samkvæmt skýru og afdráttarlausu orðalagi 2. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga skuli bætur, aðrar en slysalífeyrir og sjúkradagpeningar, aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berist stofnuninni. Þá segi í reglum Tryggingaráðs að greiðsla barnalífeyris sé bundin því skilyrði að bótaþegi þiggi ellilífeyri. Með framangreindri afgreiðslu á umsókn kæranda um greiðslu barnalífeyris telji Tryggingastofnun að komið sé eins langt til móts við kröfur kæranda og leyfilegt sé lögum samkvæmt. Ekki sé til staðar lagaheimild til þess að verða við þeim kröfum kæranda sem settar séu fram í kæru hans um greiðslu barnalífeyris lengra aftur í tímann en greitt hafi verið.   

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. júlí 2015, þar sem umsókn kæranda um barnalífeyri var samþykkt frá 1. júlí 2013. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að greiða barnalífeyri lengra aftur í tímann.

Samkvæmt 3. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur Tryggingastofnun ákveðið að greiða barnalífeyri með börnum ellilífeyrisþega, svo og með barni manns sem sætir gæsluvist eða afplánar fangelsi, enda hafi vistin varað í að minnsta kosti þrjá mánuði. Kærandi, sem er ellilífeyrisþegi, á rétt á greiðslu barnalífeyris samkvæmt lagaákvæði þessu. Við úrlausn þessa máls lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess sem greinir í 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar. Þar segir svo:

Sækja skal um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt framangreindu er barnalífeyrir vegna framfærslu barna ekki sjálfkrafa greiddur af Tryggingastofnun ríkisins heldur verður að sækja sérstaklega um slíkar greiðslur.

Um upphafstíma greiðslna almannatrygginga er fjallað í 53. gr. laga um almannatryggingar. Þágildandi 2. mgr. 53. gr. laganna, sbr. nú 4. mgr. 53. gr., hljóðaði svo:   

„Bætur, aðrar en slysalífeyrir, skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni.“

Af framangreindu ákvæði verður ráðið að ekki sé heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn til að leggja mat á bótarétt og fjárhæð bóta berast stofnuninni. Kærandi sótti um greiðslur barnalífeyris með umsókn, dags. 23. júní 2015, og voru honum reiknaðar bætur frá 1. júlí 2013. Kærandi fékk því greiddar bætur tvö ár aftur í tímann, þ.e. miðað við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að bótaréttur var fyrir hendi, samkvæmt þágildandi 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Engar heimildir eru til þess að greiða bætur lengra aftur í tímann.

Kærandi byggir á því að Tryggingastofnun hafi ekki virt upplýsingaskyldu sína samkvæmt 37. gr. laga um almannatryggingar þar sem honum hafi verið tilkynnt svo seint um rétt sinn til barnalífeyris. Í gögnum málsins liggur fyrir umsókn kæranda um ellilífeyri, dags. 12. júlí 2011. Í umsókninni kemur fram að heimilt sé að greiða barnalífeyri með börnum ellilífeyrisþega að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá segir að ellilífeyrisþegum sem eigi börn yngri en 18 ára sé bent á að fylla út umsókn um greiðslur vegna barna. Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst því ekki á að Tryggingastofnun hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um almannatryggingar.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna barnalífeyris staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, frá 16. júlí 2015, um upphafstíma greiðslna barnalífeyris til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn