Hoppa yfir valmynd
4. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 309/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 309/2015

Miðvikudaginn 4. maí 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. október 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. september 2015 á umsókn um maka-/umönnunarbætur.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015, 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um maka-/umönnunarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 27. ágúst 2015. Með bréfi, dags. 28. september 2015, synjaði stofnunin umsókn kæranda á þeirri forsendu að maki kæranda væri ekki lífeyrisþegi.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 23. október 2015. Með bréfi, dags. 26. október 2015, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 10. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar dags. 11. nóvember var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún krefjist þess að felld verði úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 28. september 2015, þar sem umsókn kæranda um maka-/umönnunarbætur var synjað og úrskurðað verði að kærandi eigi rétt til fjárhagsaðstoðar í formi maka-/umönnunarbóta.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi sótt um makabætur til Tryggingastofnunar vegna þess að hún hafi orðið fyrir tekjutapi við að sinna veikum eiginmanni sínum, sem þurfi á verulegri umönnun að halda vegna sjúkdóms. Hún hafi verið á atvinnuleysisbótum þegar maður hennar hafi veikst en þá hafi hún átt von á því að komast í vinnu fljótlega. Vegna veikinda eiginmannsins hafi kærandi ekki getað þegið þá vinnu sem henni hafi boðist og því hafi hún dottið út af atvinnuleysisbótum. Þá hafi hún þegið sjúkradagpeninga frá stéttarfélagi sínu en þeim réttindum sé nú lokið. Kærandi kveðst vera algjörlega tekjulaus ef hún fái ekki samþykktar makabætur.

Maki kæranda eigi rétt á veikindalaunum frá vinnuveitanda sínum og því fari hann ekki á lífeyri strax. Hins vegar sé kostnaður vegna sjúkdóms hans töluverður, svo sem vegna lyfja, ferða og komu- og rannsóknargjalda. Kærandi telji að makabótum sé ætlað að bæta upp tekjumissi vegna lækkaðs starfshlutfalls þess sem sinni veikum maka sínum. Í reglugerð komi fram að staðfesta þurfi tekjutap eða tekjuleysi. Ekki sé um það deilt, hvorki um tekjutap kæranda né umönnunarþörf maka hennar. Hins vegar andmæli kærandi þeirri kröfu að hinn veiki þurfi að vera orðinn lífeyrisþegi. Kærandi telji það réttlætismál að hún missi ekki allar tekjur og sé fjárhagslega háð hinum veika maka sínum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi synjað kæranda um maka-/umönnunarbætur á þeirri forsendu að maki kæranda sé hvorki ellilífeyrisþegi né með örorkumat eða mat á endurhæfingu hjá Tryggingastofnun. Hann uppfylli þar af leiðandi ekki fortakslaust skilyrði 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð um að sótt sé um greiðslur vegna umönnunar elli- eða örorkulífeyrisþega.

Í 5. gr. laga um félagslega aðstoð segi svo:

„Heimilt er, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga. Jafnframt er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Nánari ákvæði um greiðslur þessar sé að finna í reglum nr. 407/2002. Maki kæranda hafi ekki náð 67 ára aldurstakmarki ellilífeyris og hann sé hvorki með örorkumat né mat á endurhæfingu hjá Tryggingastofnun ríkisins. Kæranda hafi þannig verið réttilega synjað um makabætur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. september 2015 um greiðslu maka-/umönnunarbóta.

Um maka-/umönnunarbætur er fjallað í 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- og örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga. Jafnframt er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur. Þá kemur fram að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

Reglur nr. 407/2002 um maka- og umönnunarbætur hafa verið settar með stoð í framangreindu ákvæði. Þar er að finna í 1. gr. ákvæði sem er samhljóða 5. gr. laga um félagslega aðstoð.

Samkvæmt gögnum málsins synjaði Tryggingastofnun ríkisins kæranda um maka-/umönnunarbætur á þeirri forsendu að maki hennar væri ekki lífeyrisþegi. Óumdeilt er í máli þessu að maki kæranda er hvorki elli- né örorkulífeyrisþegi. Samkvæmt 5. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. einnig 1. gr. reglna nr. 407/2002, er það fortakslaust skilyrði fyrir greiðslum maka- og umönnunarbóta að umönnunarþegi sé annað hvort elli- eða örorkulífeyrisþegi. Þegar af þeirri ástæðu að fyrrgreint skilyrði er ekki uppfyllt í tilviki kæranda er ekki heimilt að greiða henni makabætur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu maka-/umönnunarbóta.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um maka-/umönnunarbætur vegna maka hennar er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum