Hoppa yfir valmynd
11. maí 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2016

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Móðurmáli, samtökum um tvítyngi, Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2016
IMG_9862

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, voru afhent í 21. sinn í dag við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu.  Móðurmál, samtök um tvítyngi, hlutu Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2016 fyrir móðurmálskennslu. Samtökin voru formlega stofnuð árið 2001, en hafa staðið að móðurmálskennslu frá árinu 1994. Meginmarkmið samtakanna er að gefa börnum tækifæri til að læra og viðhalda eigin móðurmáli og koma fræðslu til foreldra, skóla og almennings. Innan raða samtakanna starfar fjöldi einstaklinga sem eru tilbúnn að leggja á sig ómælda sjálfboðavinnu til að halda úti tungumálakennslu fyrir eigin börn og annarra. Móðurmálskennslan hefur farið fram í Reykjavík og í vetur hafa samtökin einnig skipulagt móðurmálskennslu á Suðurnesjum. „Það verður ómetanlegt fyrir lítið málsamfélag eins og Ísland að hér muni vaxi upp kynslóð ungs fólks sem kann mörg tungumál, ungt fólk sem á mörg móðurmál“, segir í tilnefningunni.

IMG_9854

Hvatningarverðlaun 2016 hlaut foreldrafélag leikskólans Lautar í Grindavík.

 Foreldrafélag leikskólans Lautar í Grindavík hefur það að markmiði að efla aðkomu foreldra að starfi leikskólans og hefur verið með eindæmum hugmyndaríkt og drífandi, og komið ótrúlegustu hugmyndum í framkvæmd. „Fyrir tilstuðlan foreldrafélagsins hafa m.a. hjúkrunarfræðinemar komið og sett upp Bangsaspítala á Bangsadeginum, öll börn hafa fengið tannbursta og tannkrem í Tannverndarvikunni, boðið var upp á listasýningu og staðið var fyrir uppákomu á 112 deginum,“ kemur fram í tilnefningunni.

Í ár bárust 24 gildar tilnefningar til verðlaunanna. Dómnefnd 2016 var skipuð eftirfarandi:

 

  • Bryndís Jónsdóttir, formaður dómnefndar,  Heimili og skóli
  • Sveinbjörn Kristjánsson, Embætti landlæknis
  • Aðalheiður Steingrímsdóttir, Kennarasamband Íslands
  • Þóroddur Helgason, fræðslustjóri í Fjarðabyggð
  • Ragnheiður Bóasdóttir, mennta- og menningarmálaráðuneyti
  • Stefanía Sörheller, Reykjavíkurborg
  • Guðni R. Björnsson, Foreldrahús

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum