Hoppa yfir valmynd
11. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 324/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 324/2015

Miðvikudaginn 11. maí 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 10. nóvember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. september 2015 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 26. maí 2015. Með örorkumati, dags. 29. september 2015, var umsókn kæranda synjað en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur frá 1. júlí 2015 til 30. september 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 12. nóvember 2015. Með bréfi, dags. 23. nóvember 2015, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 4. desember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. desember 2015, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því í kæru að hún telji niðurstöðu Tryggingastofnunar undarlega. Ferlið hafi tekið fimm mánuði og á endanum hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að hún ætti rétt á örorkustyrk, sem sé um 26.000 kr. á mánuði. Hún vonist til þess að niðurstaða þessi verði endurskoðuð hjá úrskurðarnefndinni og henni veittar fullar örorkubætur. Kærandi kveðst hafa verið í 100% vinnu en rétt fyrir veikindi hennar hafi starfshlutfallið lækkað um 10% vegna samdráttar. Hún hafi því verið í 90% vinnu, á fullu í öllum áhugamálum sem hafi nú dottið út vegna veikindanna.

Kærandi kveðst hafa fengið krabbamein í maga haustið X. Það hafi verið af tegundinni […]. Þar sem ekki sé hægt að skera eða geisla meinið hafi hún farið í erfiða lyfjameðferð og meðferðin valdið því að hún sé með mjög skerta starfsgetu. Kærandi segir krabbameinslækni sinn hafa haft orð á því að þeir hafi farið illa með hana í lyfjameðferðinni. Kærandi sé í 49% starfi aðallega fyrir félagslegu þættina en í raun ætti hún ekki að vinna vegna afleiðinga lyfjameðferðarinnar. Hún sé stöðugt þreytt, þurfi aukinn svefn og sé með mikla stoðkerfisverki, þar með talið stirðleika á morgnana. Hún sé oft kvíðin fyrir framhaldinu. Slímhúðir, húð og neglur séu í mjög slæmu ástandi og hún svitni mikið að nóttu til. Hún sé að auki gjörn á að fá marbletti og bjúg.

Eftir X árs veikindaleyfi hafi hún farið í endurhæfingu hjá Virk sem hafi lokið snemma á X ári, með þeirri greiningu að ekki verði lengra komist í endurhæfingu hennar. Þar hafi hún stundað sundleikfimi, gigtarleikfimi og göngur. Endurhæfingarlæknir hennar hafi verið frekar hissa á því að hún sé að vinna. Henni hafi verið ráðlagt að sækja um örorkubætur þar sem mikil óvissa sé hversu lengi starfsgeta hennar verði til staðar. Kærandi kveðst ekki vera útskrifuð þannig að hún sé laus allra mála vegna krabbameinsins og hún fari reglulega í eftirlit. Hún hafi enga hugmynd um það hvenær því eftirliti ljúki. Hún kveðst hafa velt ákvörðun Tryggingastofnunar mikið fyrir sér og henni sé fyrirmunað að skilja hana. Að vísu hafi manneskja með reynslu úr þessum geira sagt henni að ef hún sé í vinnu þá virki það neikvætt fyrir umsókn hennar. Kærandi kveðst hafa tjáð þeirri manneskju að hún tryði ekki slíkum sögusögnum. Ef til vill hafi sú manneskja haft rétt fyrir sér.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að með kæru, dags. 23. nóvember 2015, hafi afgreiðsla Tryggingastofnunar á örorku kæranda verið kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Að mati Tryggingastofnunar hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði staðals um hæsta örorkustig en færni hennar til almennra starfa hafi talist skert að hluta.

Þann 26. maí 2015 hafi Tryggingastofnun móttekið umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur ásamt spurningalista vegna færniskerðingar. Kæranda hafi áður verið metin endurhæfing á tímabilinu X til X í alls X mánuði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi greinst með eitlakrabbamein í […]í X og hún hafi verið óvinnufær frá þeim tíma. Hún hafi byrjað töku endurhæfingarlífeyris þann 1. október 2013. Hún hafi síðan hafið störf á ný sem B þann X. Samkvæmt læknisvottorði, dags. X, séu fyrst og fremst stoðkerfisverkir að hrjá kæranda.

Með örorkumati lífeyristrygginga þann 29. september 2015 hafi kæranda verið metinn örorkustyrkur frá 1. júlí 2015 til 30. september 2017. Hún hafi ekki uppfyllt skilyrði staðals um hæsta örorkustig en færni hennar til almennra starfa hafi talist skert að hluta.

Við örorkumat sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega. Þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig. Kærandi hafi hlotið sex stig í líkamlega hlutanum og þrjú stig í andlega hlutanum.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga sé greiddur þeim sem skorti a.m.k. helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sæki um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. september 2015, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur frá 1. júlí 2015 til 30. september 2015. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin a.m.k. 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmrán stig samanlagt til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn a.m.k. 75% öryrki nái hann a.m.k. sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð C, dags. X, þar sem fram kemur að sjúkdómsgreiningar kæranda séu sem hér greinir:

„Non-hodgkin´s lymphoma, unspecified type“

Í læknisvottorðinu er vísað til eldra vottorðs varðandi sjúkrasögu kæranda. Í framhaldinu segir svo:

„Fór síðan til D þann X. Þar kemur fram að hún hafi þurft thorax dren eftir áðurnefnt loftbrjóst hjá brjóstholsskurðlækninum. Hún sé búin að vera dugleg í sundleikfimi og auk þess hafi hún farið X vikur í E í endurhæfingu. Hann þreifað ekki eitlastækkanir. Blóðþrýstingur 140/80 og púls reglulegur, 80. Lungnahlustun hrein. Kviður mjúkur og eymslalaus. Eðlileg skoðun á brjóstum og engir hnútar. Því engin klínísk merki um endurkomu á lymphoma.

Var áfram að svitna á næturnar og ákvað D að fá endurstigun á sjúkdómi með tölvusneiðmyndun áður en hún kæmi næst til hans í X sl. Var síðan lögð inn á E vegna tilraunar til sjálfsvígs vegna mikillar geðlægðar og vanlíðan. Þetta var X sl. Var þar í X daga. Sett var inn Omeprazol vegna magaóþæginda. Esopram hafði verið aukið upp í 20 mg. Fékk meðferð í formi stuðnings, læknaviðtala, lyfjabreytinga og ráðgjafar. Fór síðan í eftirlit til D þann X sl. Hafði farið í tölvusneiðmyndir sem áður voru nefndar. Þær sýndu ekkert í kviðarholinu. Reyndar var lýst 7x4mm stórum bletti í lobus superor anteromedialt. D fannst þetta vart greinanlegt. Rtg. læknar töluðu um að þetta hafi einnig sést á mynd í des. á undan og sé óbreytt frá því. D taldi því að við gætum verið róleg með þetta en ákveðið var að fá nýja mynd eftir hálft ár af lungunum. Búin að fara í eftirlitið og reyndar sást þar annar hnútur sem gæti verið gamall. Stendur til að skoða þetta betur þó menn telji ekki að þetta sé krabbamein eða neitt því um líkt.

Fór síðan í eftirlit aftur hjá D í X. og ég hef aðeins rakið hvað gerðist þar. Á næst að fara í X.

Var óvinnufær að fullu frá X til X. Hefur verið að reyna 50% starf sem […] hjá okkur í X. Ræður varla við það vegna stoðkerfisverkja, sem dæmi slæm í upphandleggjum, reynt hefur verið að sprauta í öxl en ekki borið árangur. Er með bólgur og allt eykst þetta við álag og vinnu.

Fyrst og fremst stoðkerfisverkir sem valda óvinnufærni. Hefur einnig átt erfitt andlega eins og fram kemur að framan og á tímabili var þetta mjög erfitt fyrir hana. Hefur sofið illa útaf verkjum, það var að lagast enn er nú að versna aftur eftir að hún fór að vinna 50% vinnu. Mikill stirðleiki sem hefur aukist í liðum. Alltaf eyrnaverkur báðum megin án skýringa. Sjúkraþjálfun ekki hjálpað gagnvart því. Haldið áfram í leikfimi og göngur. Heldur reykbindið. Líka komin í áfengisbindindi.“

Um skoðun á kæranda þann X segir svo í vottorðinu:

 „Hæð er X cm og þyngd X kg. A.ö.l. sjá að ofan. Sjá að ofan. Akkúrat núna eru engar illusionir, hallucinationir eða delusionir.“

Í vottorði C kemur einnig fram:

„Vinnufærni:

Varla 50% í því starfi sem hún er best og mest þjálfuð í. Allra starfa sem væru henni aukið andlegt álag eða líkamlegt álag, þ.e.a.s. flestra starfa utan hennar núverandi starfs. […]

Þessi kona hefur svo sannarlega reynt og það er að koma í ljós að jafnvel 50% vinna í hennar vinnu er líklega of mikið. Samt hefur margt gengið vel og hún hefur verið mjög dugleg. Mjög erfitt er að spá fyrir um framhaldið en ljóst að stoðkerfisverkir eru jafnvel vaxandi vandamál og erfitt að útskýra það almennilega en auðvitað geta þeir fylgt krabbameini. Það er vel þekkt að allskyns stoðkerfisverkir vilja versna við krabbamein, hvort sem það er vegna meinsins sjálfs, meðferðar eða andlegs álags.

Verður áfram í þriggja mánaða eftirliti á Krabbameinsdeild og því miður höfum við ekki séð fyrir endann á þessum hnútum í lungunum sem er verið að skoða þessa stundina. Auðvitað vonum við að ekkert komi meira út úr því.“

Í niðurstöðum starfsgetumats Virk, dags. 26. maí 2015, segir svo:

„Undirritaður hefur skoðað A og gögn hennar í F og telur ljóst að hér er á ferðinni hraust og dugleg kona sem lendir í eitlakrabbameini og meðferð vegna þess. Hún dettur að fullu út af vinnumarkaði í kjölfar krabbameinslyfjameðferðar. Hún hefur aftur störf fyrir rúmu hálfu ári í 50% stöðuhlutfalli og hefur haldið því. Það er augljóst að lyfjameðferð gefur úthaldsleysi, verki og þreytu og stoðkerfisóþægindi sem A hefur. Hún er enn í eftirliti vegna krabbameinsins og ekki útskrifuð enn. Undirritaður telur stöðu A í dag stabíla til næstu ára og í raun aðdáunarvert að hún sé í 50% starfshlutfalli miðað við það sem á undan er gengið og ef horft er til aldurs einnig.

Staðan í dag og horfur:

Hvað varðar tiltök hjá VIRK telur undirritaður starfsendurhæfingu fullreynda. Það verða engin tiltök eða stuðningur sem munu breyta nokkru með vinnugetu A á næstu árum og því rétt að ljúka ferlinu hjá VIRK.

Möguleg störf á vinnumarkaði m.t.t. styrkleika og hindrana: Störf eins og A þekkir til og hefur unnið við alla sína tíð, þ.e. [...].

Starfsgeta miðað við ofantalin störf 50%. Undirritaður vill benda á að hann telur mikinn dugnað á bakvið þessi störf hjá A og eljusemi að sinna því starfshlutfalli sem hún getur.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 26. maí 2015, sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún hafi greinst með eitlakrabbamein í maga í X. Hún hafi farið í margar rannsóknir og mikla lyfjagjöf. Hún hafi farið á stóra steraskammta og misst um X til X kíló. Hún hafi oft verið mjög veik og lífið sé almennt erfitt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hún geti ekki setið lengi í einu því hún verði aum í skrokknum. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól svarar hún þannig að hún sé mjög stirð og stíf. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa þannig að hún eigi í erfiðleikum með að reisa sig upp. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að standa svarar hún þannig að hún verði mjög fljótt þreytt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga þannig að hún sé alls ekki eins létt á sér og áður. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að nota hendurnar svarar hún þannig að hún sé alltaf með verk í upphandlegg og olnboga hægra megin, sem hún noti mest við vinnu. Hún sé einnig dofin í öllum fingurgómum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að hún eigi í erfitt með það vegna verkja.  Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi. Hún hafi verið ákaflega kvíðin og þung á meðan lyfjagjöf hafi staðið og eftir lyfjagjöfina vegna stöðugra ferða í eftirlit og mikið álag. Hún hafi fengið lyf vegna þunglyndis.

Skýrsla G skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann X. Samkvæmt skýrslunni telur skoðunarlæknir að kærandi geti ekki setið nema tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Kærandi geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur. Þá geti hún ekki staðið nema þrjátíu mínútur án þess að ganga um. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Þá hafi svefnvandamál áhrif á dagleg störf kæranda. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Í aðeins rúmum meðalholdum. Hreyfir sig tiltölulega lipurlega. Beygir sig og bograr án verulegs vanda. Eðlileg hreyfing í öllum stórum liðum, hálsi og baki. Dreifð þreifieymsli í vöðvum í hálsi, herðum og baki. Gripkraftar og fínhreyfingar eðlileg í höndum. Taugaskoðun eðlileg.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Væg kvíðaeinkenni.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur engin stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki beygt sig og kropið til að taka pappírsblað af gólfinu og rétt sig upp aftur. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Þá geti kærandi ekki staðið nema þrjátíu mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Samtals er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til sex stiga. Að mati læknis er andleg færniskerðing kæranda sú að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Þá metur skoðunarlæknir það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til þriggja stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda a.m.k. 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk sex stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og þrjú stig úr þeim hluta staðals sem varðar andlega færni, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar um örorkumat nr. 379/1999. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er staðfest.


F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum