Hoppa yfir valmynd
12. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mikil eftirspurn eftir vinnuafli fagnaðarefni en krefst aðgæslu

Ráðherra ávarpar ársfund Vinnumálastofnunar
Ráðherra ávarpar ársfund Vinnumálastofnunar

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, gerði fjölbreytt verkefni Vinnumálastofnunar og ríka kröfu um sveigjanleika í starfsemi hennar að umfjöllunarefni á ársfundi stofnunarinnar í dag. Stofnunin hefur frá áramótum sinnt atvinnumálum fatlaðs fólks. Þungi verkefna sem tengjast vinnumarkaðseftirliti eykst samhliða örum vexti í ýmsum atvinnugreinum.

Ársfundurinn var að þessu sinni tileinkaður atvinnumálum fatlaðs fólks og fjölbreytileika á vinnumarkaði, en stofnunin tók yfir ábyrgð á atvinnumálum fatlaðra um síðustu áramót. „Allir landsmenn ganga nú um sömu dyr þegar óskað er aðstoðar við atvinnuleit. Þetta er góð niðurstaða. Hún er í anda jafnræðis og áherslunnar um eitt samfélag fyrir alla“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra í ársfundarræðu sinni. Hún sagði þetta mikla ábyrgð sem Vinnumálastofnun hefði verið falin en hún væri þess jafnframt fullviss að stofnunin muni sinna þessu nýja verkefni vel, veita fötluðu fólki góða þjónustu í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir og nýta tengsl sín við vinnumarkaðinn í þágu hópsins.

Ráðherra sagði Vinnumálastofnun hafa sýnt það vel á liðnum árum að hún sé afar sveigjanleg, eigi auðvelt með að laga sig að breyttum aðstæðum og takast á við ný verkefni. Hún benti á að síðustu ár hafi verið lærdómsrík á sviði vinnumála þar sem reynt hafi á alla mögulega þætti til hins ýtrasta. Hér hafi verið mikil þensla sem setti mark sitt á vinnumarkaðinn, ekki síst vegna mikil innflutnings á erlendu verkafólki en í kjölfar hrunsins hafi skollið á atvinnuleysi í þeim mæli sem vart hafði áður sést hér á landi. Síðustu ár hafi efnahagslífið tekið hratt við sér, nú sé atvinnulífið aftur komið á fleygiferð og innflutningur hafinn á fólki til starfa í ákveðnum greinum: „Vissulega er þetta jákvæð þróun, en það fylgja svona örri þróun ákveðnar hættur sem við verðum að vera á varðbergi fyrir. Þá á ég ekki síst við félagsleg undirboð, ófullnægjandi vinnuaðstæður og þegar verst lætur mansal sem því miður er staðreynd hér á landi, líkt og dæmin sanna.“

Í ræðu sinni minnti ráðherra á hve glöggt það kom í ljós þegar þrengdi að á vinnumarkaði eftir hurn að þeim var hættast við atvinnumissi sem af einhverjum ástæðum voru veikir fyrir, höfðu skerta starfsgetu eða stóðu á einhvern hátt höllum fæti: „Það er því miður svo að nú þegar eftirspurn eftir vinnuafli heldur áfram að aukast sitja þeir atvinnuleitendur enn eftir sem af ýmsum ástæðum eiga erfitt með að fóta sig og fá tækifæri á vinnumarkaði. Örorkulífeyrisþegar eru nú rúmlega 17.000 og þeim heldur áfram að fjölga. Í þessu ljósi þarf að efla þarf þjónustu við atvinnuleitendur og sporna við þessari þróun. Vinnumálastofnun gegnir hér lykilhlutverki, en auðvitað þurfa fjölmargaraðrar stofnanir samfélagsins að taka þátt í þessu verkefni og vinnumarkaðurinn þarf einnig að axla ábyrgð, bæði hið opinbera og almenni markaðurinn.“

Ársfundargestir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum