Hoppa yfir valmynd
13. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Staða og réttindi hinsegin fólks í Evrópu

Evrópusamtökin ILGA sem eru alþjóðleg samtök hinsegin fólks, birtu í vikunni Regnbogakort Evrópu2016 sem sýnir á myndrænan hátt lagalega stöðu og réttindi hinsegin fólks í álfunni. Af 49 þjóðum er Malta er sú sem best tryggir lagalega stöðu hinsegin fólks en Azjerbeidjan síst. Ísland er í 14. sæti.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sótti IDAHO-ráðstefnuna sem haldin var í fjórða sinn í Kaupmannahöfn daganna 10.-11. maí. Ráðstefnan er haldin árlega og tileinkuð baráttunni gegn fordómum gagnvart hinsegin fólki. Að þessu sinni er áherslan á stöðu hinsegin fólks á vinnumarkaði og viðurkenningu á félagslegum réttindum hinsegin fólks í samfélaginu.

Á ráðstefnunni voru meðal annars kynntar niðurstöður samantektar Evrópusamtaka hinsegin fól ks (ILGA-Europe) á stöðu og réttindum hinsegin fólks í Evrópu, en árlega birta samtökin svokallað Regnbogakort sem sýnir lagaleg réttindi hinsegin fólks í Evrópu. Þar er einnig birt yfirlit yfir hvort stjórnvöld hafi tiltækar aðgerðaáætlanir gegn mismunun, hatursorðræðu og ofbeldi gagnvart hinsegin fólki, svo eitthvað sé nefnt. Gefin er einkunn á skalanum 0–100.

Staða hinsegin fólks í Evrópu er mjög misjöfn. Malta skorar hæst þjóða, fær 88 stig og má rekja þá góðu útkomu til framsækinnar löggjafar um réttindi transfólks og intersex einstaklinga sem þingið samþykkti árið 2014. Verst er staða hinsegin fólks í Azjerbeidjan (5 stig), Armeníu og Rússlandi (7 stig).

Það sem helst stendur Íslandi fyrir þrifum í mælingu ILGA er að íslensk stjórnvöld hafa ekki innleitt tilskipanir nr. 2000/43/EB, um meginregluna um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis, (e. racial or ethnic origin) og tilskipun nr. 2000/78/EB, um meginregluna um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi. Einnig er horft til þess að samkvæmt lögum getur transfólk ekki fengið breytt nafni sínu í þjóðskrá til samræmis við kynvitund nema að undangenginni kynleiðréttingu samkvæmt lögum um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir gott aðhald felast í mælingum ILGA á stöðu hinsegin fólks. Ísland geti gert betur og eigi að vinna að því til samræmis við þessar niðurstöður: „Við höfum verið framsækin í að tryggja réttindi hinsegin fólks með lögum. Það hefur skilað árangri en ekki síður mikilvæg er sú viðhorfsbreyting sem orðið hefur á síðustu árum til hinsegin fólks. Við þurfum engu að síður að halda áfram að tryggja réttindi og stöðu hinsegin fólks í orði og á borði. Þá fyrst erum við komin alla leið þegar kynhneigð eða kynvitund skiptir ekki máli og fólk er bara fólk í augum hvers annars.“

Ráðherrarnir sem sóttu IDAHO ráðstefnuna í Kaupmannahöfn undirrituðu þar viljayfirlýsingu um að vinna áfram að mannréttindum hinsegin fólks.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum