Hoppa yfir valmynd
18. maí 2016 Utanríkisráðuneytið

Tengsl mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu rædd á fundi með forseta Alþjóðabankans

Þáttakendur í kjördæmafundinum. - mynd

Tengsl mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu og málefni óstöðugra ríkja voru meðal umræðuefna á árlegum samráðsfundi ráðherra kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Alþjóðabankanum sem fram fór í Kaupmannahöfn í dag að viðstöddum Jim Young Kim forseta bankans. Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri tók þátt í fundinum fyrir hönd Íslands. 

Á fundinum var m.a. rætt um málefni óstöðugra ríkja og tengsl mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu og fjallað um hlutverk bankans í að takast á við flóttamannavandann. Í því sambandi var minnt á mikilvægi samstarfs Alþjóðabankans við Sameinuðu þjóðirnar og aðra aðila sem starfa að mannúðaraðstoð. Alþjóðabankinn leggur ríka áherslu á uppbyggingu samfélaga að átökum loknum en sinnir ekki mannúðaraðstoð með beinum hætti. Vegna krafna um aukin viðbrögð alþjóðasamfélagsins við flóttamannavandanum hefur bankinn þó verið að móta stefnu sína og hlutverk honum tengdum. 

Þá var þáttur bankans við að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um aðgerðir í loftslagsmálum og Heimsmarkmiðunum til umræðu. Rætt var um þörfina fyrir aukið fjármagn í því samhengi auk þess sem fjallað var um 18. endurfjármögnun Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA18) sem er yfirstandandi og lýkur í lok ársins, en IDA er sú stofnun bankans sem veitir víkjandi lán og styrki til fátækustu þróunarríkjanna og er endurfjármögnuð til þriggja ára í senn. 

Að lokum var rætt um framtíðarsýn bankans sem snýr að því hvernig stjórn hans hyggst takast á við nýjar áskoranir og breytt landslag og á sama tíma ná fyrrnefndum markmiðum um sjálfbæra þróun og áætlun í loftslagsmálum. 

Alþjóðabankinn er ein af fjórum áherslustofnunum í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum