Hoppa yfir valmynd
19. maí 2016 Matvælaráðuneytið

Matvælalandið Ísland býr yfir miklum möguleikum

Gunnar Bragi á matarráðstefnunni

Á ráðstefnunni „Matur er mikils virði“ sem haldin var í Hörpu í dag var sjónum beint framtíðinni og leiðum til að auka verðmæti þeirra ríkulegu matarauðlinda sem Íslendingar búa yfir. Flutti Gunnar Bragi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar setningaræðu en aðal fyrirlesari ráðstefnunar var Birthe Linddal, danskur sérfræðingur í framtíðarfræðum sem hélt erindi um strauma og stefnur í matargeiranum.

Í ræðu sinni lagði Gunnar Bragi áherslu á tækifærin til að auka við framleiðslu heilnæmra matvæla, bæði til að sinna aukinni þörf vegna fjölgunar ferðamanna og einnig til að nýta tækifæri til aukins útflutnings á íslenskum matvælum.

„Það er stöðugt vaxandi markaður fyrir matvæli sem eru framleidd við náttúrulegar aðstæður og eftirspurn eftir mat úr héraði er sífellt að aukast. Það felur að sjálfsögðu í sér mikla möguleika fyrir framleiðendur á landsbyggðinni þar sem fjöldi ferðamanna hefur aldrei verið meiri en hann er nú.“

Ráðstefnan var haldin að frumkvæði samstarfsvettvangsins Matvælalandsins Íslands en að honum standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Bændasamtök Íslands, Háskóli Íslands, Íslandsstofa, Matís, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og fyrirtæki innan viðkomandi samtaka.

Markmiðin að baki Matvælalandinu Íslandi eru m.a. að treysta orðspor og ímynd Íslands sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla, bæta nýtingu hráefna og auka verðmætasköpun sem byggist á áhuga fólks á að upplifa og njóta matarmenningar. Liður í því er að kynna með betri hætti framleiðslu, uppruna, hefðir og sögur sem íslensk matarhefð og matvælaframleiðsla byggist á.

Einn meginstyrkur verkefnisins er að það leiðir saman og stillir sameiginlega strengi lykilgreina í íslensku atvinnulífi; sjávarútvegs, landbúnaðar, matvælaiðnaðar og ferðaþjónustu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum