Hoppa yfir valmynd
20. maí 2016 Utanríkisráðuneytið

Aðildarríkin samstíga - fundi lokið í Brussel

NATO ráðherrarnir. - mynd

Breyttar öryggishorfur í Evrópu og staða mála á austur- og suðurjaðri Atlantshafsbandalagsins, NATO, voru meðal helstu umræðuefna á utanríkisráðherrafundi bandalagsins sem lauk fyrir stundu.

Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, sat fundinn fyrir hönd Íslands.„Það er mikilvægt að alþjóðasamfélagið sé samstíga í viðbrögðum sínum við þeim áskorunum sem skapast hafa vegna ástandsins í Sýrlandi, Írak og Líbýu. Fulltrúar allra aðildarríkja eru sammála um það. Við ræddum m.a. hvort og þá hvernig Atlantshafsbandalagið gæti stuðlað að aukum stöðugleika á þessum stríðshrjáðu svæðum í samvinnu við aðrar stofnanir," segir Lilja.

Samskipti Atlantshafsbandalagsins og Rússlands voru einnig til umræðu, en þau hafa verið takmörkuð frá því að Rússar hófu hernaðaríhlutun í Úkraínu vorið 2014.„Aðildarríkin eru sammála um nauðsyn þess að sýna samstöðu og festu, og halda áfram að treysta varnir sínar líkt og ákveðið var á leiðtogafundinum í Wales haustið 2014. Við erum jafnframt sammála um að viðhalda samtali við Rússland, tryggja að sjónarmið okkar komist til skila og lágmarka spennu milli aðila," segir Lilja ennfremur.

Ráðherrarnir ræddu einnig aukna samvinnu Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins og öryggishorfur á Eystrasalti. Utanríkisráðherrar Finnlands og Svíþjóðar tóku þátt í þeim hluta fundarins ásamt utanríkismálastjóra ESB. „Nánara samstarf Finnlands, Svíþjóðar og Atlantshafsbandalagsins er jákvæð þróun og styður við öryggis- og varnarsamstarf Norðurlandanna,” segir Lilja.

Að endingu komu þátttökuríki í stuðningsaðgerðum í Afganistan saman til að ræða þróun mála í Afganistan og hvernig treysta megi áframhaldandi uppbyggingu öryggismála þar í landi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum