Hoppa yfir valmynd
20. maí 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Næsti áfangi í losun fjármagnshafta

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson

Fréttatilkynning á ensku

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra mælti nú síðdegis fyrir frumvarpi á Alþingi sem markar næstu skref við losun fjármagnshafta á Íslandi.

Frumvarpið er liður í heildstæðri aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta sem stjórnvöld kynntu í júní á síðasta ári. Fyrsta skrefið í þeirri áætlun var að leysa þann vanda sem slitabú fallinna fjármálafyrirtækja höfðu skapað og hefur sá þáttur verið til lykta leiddur að fullu.

Í aðgerðaáætlun stjórnvalda var boðað að næsta skref yrði að leysa þann vanda sem svokallaðar aflandskrónur skapa. Aflandskrónueignir eru nú yfir 300 milljarðar króna og er líklegt talið að eigendur þeirra kysu að umbreyta þeim í gjaldeyri ef slíkt væri heimilt. Það kynni að hafa neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð og fjármálalegan stöðugleika. Dæmi um slíkar eignir eru innstæður, fjármunir á fjárvörslureikningi, skuldabréf og víxlar. Aflandskrónureignir verða áfram háðar sérstökum takmörkunum en megintilgangur frumvarpsins er að aðgreina aflandskrónueignir nánar en nú er gert og með tryggilegum hætti.

Verði frumvarpið að lögum er áformað að Seðlabanki Íslands haldi gjaldeyrisútboð í næsta mánuði þar sem öllum aflandskrónueigendum verður gefinn kostur á að skipta aflandskrónueignum sínum í evrur.

Þær aflandskrónueignir sem ekki verða nýttar í útboði Seðlabankans munu sæta þeim takmörkunum sem boðaðar eru í frumvarpinu.

Í tæp átta ár hafa fjármagnshöftin takmarkað áhættudreifingu í eignasöfnum innlendra aðila og heft möguleika fyrirtækja til að nýta samstarfsverkefni við erlenda aðila og ávöxtunartækifæri erlendis. Efnahagslegt óhagræði sem af þessu hlýst fer vaxandi með tímanum.

Þessi liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta leggur grunninn að næstu skrefum í átt til losunar gjaldeyrishafta og munu þau snúa að heimilum og fyrirtækjum á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum