Hoppa yfir valmynd
23. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 265/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 265/2015

Miðvikudaginn 23. mars 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 21. september 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júlí 2015, um endurreikning og uppgjör ofgreiddra bóta á árinu 2014.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2014 reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 363.801 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi, dags. 21. júlí 2015, fór stofnunin fram á endurgreiðslu hinna ofgreiddu bóta.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 21. september 2015. Með bréfi, dags. 10. nóvember 2015, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 24. nóvember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar sama dag var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann krefjist þess að Tryggingastofnun felli niður kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra bóta að fjárhæð 363.801 kr.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2014. Kærandi hafi notið ellilífeyris og tengdra greiðslna frá 1. október til 31. desember á árinu 2014. Við uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi komið í ljós 363.801 kr. ofgreiðsla að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri á hendur kæranda sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2015 vegna tekjuársins 2014 hafi farið fram hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir.

Um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta sé kveðið á um í 16. gr. laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. 16. gr. sé tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning og þar sé vísað í II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Tryggingastofnun endurreikni bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótaársins liggi fyrir á grundvelli tekna samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laganna, sbr. III. kafla reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið vangreiddar eða ofgreiddar gildi um það ákvæði 55. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun sé skylt að draga ofgreiddar bætur frá bótum sem greiðsluþegi öðlist síðar rétt til og sú skylda sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kærandi hafi sent inn tekjuáætlun vegna tímabilsins 1. október 2014 til 31. desember 2014 með umsókn sinni um ellilífeyri og tengdar greiðslur, dags. 22. desember 2014. Í þeirri tekjuáætlun hafi ekki verið gert ráð fyrir neinum tekjum nema lífeyrissjóðstekjum að fjárhæð 170.000 kr. Sú tekjuáætlun hafi ekki verið í samræmi við upplýsingar sem Tryggingastofnun hafi verið með aðgang að í staðgreiðsluskrá og því hafi tekjuáætlun kæranda verið leiðrétt í samræmi við þær upplýsingar. Miðað hafi verið við að kærandi væri með 170.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 450.000 kr. í reiknað endurgjald. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við tillögu Tryggingastofnunar og bætur ársins hafi verið greiddar miðað við þessar tekjuforsendur. Við bótauppgjör ársins hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með hærri tekjur á tímabilinu en gert hafi verið ráð fyrir. Kærandi hafi verið með 1.237.500 kr. í reiknað endurgjald, 340.128 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi, 164.733 í lífeyrissjóðstekjur og 1.113 kr. í fjármagnstekjur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum kæranda vegna ársins 2014.

Kærandi var ellilífeyrisþegi á tímabilinu 1. október 2014 til 31. desember 2014 og fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda og greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er umsækjanda og greiðsluþega skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Þá er stofnuninni heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum o.fl., sbr. 1. mgr. 40. gr. laganna. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Sá endurreikningur sem ágreiningur þessa máls snýst um leiddi í ljós að kærandi hefði fengið ofgreiddan grunnlífeyri, tekjutryggingu, heimilisuppbót og orlofsuppbót, samtals að fjárhæð 441.136 kr., eða 363.801 kr. að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Tekjuáætlun kæranda vegna ársins 2014 liggur fyrir í gögnum málsins en samkvæmt henni var gert ráð fyrir 170.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur. Tekjuáætlun kæranda var leiðrétt í samræmi við upplýsingar sem Tryggingastofnun hafði og samkvæmt leiðréttingum stofnunarinnar var gert ráð fyrir 450.000 kr. í reiknað endurgjald og 170.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þessa leiðréttingu. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2014 reyndist reiknað endurgjald hins vegar vera töluvert hærra eða 1.237.500 kr., hagnaður af atvinnustarfsemi 340.128 kr., fjármagnstekjur 1.113. kr. og lífeyrissjóðstekjur 164.733 kr.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um tekjutengingu lífeyristrygginga. Á grundvelli 7. mgr. þeirrar lagagreinar ber Tryggingastofnun að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Eins og áður hefur verið rakið reyndust launa- og fjármagnstekjur kæranda á árinu 2014 hærri en tekjuáætlun hafði gert ráð fyrir. Í 2. mgr. áðurnefndrar 16. gr. segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur í 7. gr. og falla þar undir bæði launa og fjármagnstekjur.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Það liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að tekjuáætlun kæranda gerði bæði ráð fyrir lægri launa- og fjármagnstekjum en skattframtal vegna tekjuársins 2014 sýndi fram á. Þá liggur einnig fyrir að um er að ræða tekjustofna sem hafa áhrif á bótarétt. Það er á ábyrgð greiðsluþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári, sbr. áðurnefnda 39. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bótagreiðslur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnunin lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og eftir atvikum innheimta ofgreiddar bætur.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja kæranda um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2014.

Bent skal á að kærandi getur lagt inn beiðni um niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar til Tryggingastofnunar ríkisins á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, telji hann skilyrði ákvæðisins uppfyllt. Þar kemur fram að heimilt sé að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Þá skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja A, um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2014 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum