Hoppa yfir valmynd
25. maí 2016 Matvælaráðuneytið

Íslandsbanki hlaut Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2016

Birna bankastjóri og Ragnheiður ráðherra - mynd

Íslandsbanki hlaut í morgun Hvatningarverðlaun jafnréttismála og afhenti Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra Birnu Einarsdóttir bankastjóra viðurkenninguna. 

Markmiðið með Hvatningarverðlaununum er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Það eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa miðstöð um samfélagsábyrgð - sem standa að Hvatningarverðlaunum jafnréttismála.

Í áliti dómnefndar segir meðal annars: „Fyrirtækið hefur lagt ríka áherslu á jöfn tækifæri kvenna og karla og með markvissum hætti aukið hlut kvenna í yfirstjórn þess og aukið þannig hlut kvenna í karllægum geira. Þá hefur fyrirtækið farið af stað með verkefni sem hafa það að markmiði að auka jafnrétti og stuðla að aukinni framgöngu kvenna innan fyrirtækisins og í atvinnulífinu almennt. Áhersla er lögð á vellíðan í starfi og sveigjanleika þar sem því verður við komið til að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Feður jafnt sem mæður eru hvött til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Sá árangur sem fyrirtækið hefur náð í jafnréttismálum ber þess merki að unnið hefur verið markvisst að þessum málaflokki um árabil með góðum árangri.“

 

Hrund Gunnsteinsdóttir, Birna Einarsdóttir, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Þóranna Jónsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Hilmar Veigar Pétursson

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum